Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, flutti setningarræðu Búnaðarþings 2016.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, flutti setningarræðu Búnaðarþings 2016.
Mynd / smh
Fréttir 28. febrúar 2016

Búnaðarþing 2016 sett í dag við hátíðlega athöfn

Höfundur: smh

Búnaðarþing 2016 var sett í dag í Hörpu við hátíðlega athöfn. Af því tilefni var landbúnaðar- og matarhátíð slegið upp þar sem gestum gafst kostur á að kynna sér úrval íslenskra búvara hjá nokkrum úrvinnslufyrirtækjum bænda, skoða búvélar og virða fyrir sér mannlífið í Hörpu.

Hvatningarverðlaun afhent í fyrsta skiptið

Fjölmenni var á setningarathöfninni, sem var öllum opin á meðan húsrúm leyfði. Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, flutti setningarræðu og Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ávarpaði gesti og afhenti hvatningarverðlaun Bændasamtaka Íslands, sem voru veitt í fyrsta sinn, og Landbúnaðarverðlaunin einnig. 

Hvatningarverðlaunin hlaut annars vegar Hlédís Sveinsdóttir, sem hefur um árabil stuðlað að margvíslegu frumkvöðlastarfi sem hefur nýst landbúnaðinum til góðs. Hlédís er fædd og uppalin að Fossi í Staðarsveit á Snæfellsnesi og eftir að hafa lokið námi við Háskólann á Bifröst stofnaði hún fyrirtækið kindur.is, þar sem fólki gafst kostur á því að eignast kindur, fylgjast með lífi þeirra og njóta afurða þeirra. Hlédís var í nokkur ár formaður samtakanna Beint frá býli og lagði með því sitt að mörkum við að tengja neytendur og bændur betur saman.  Hún átti og rak ísbúðina „Ísland“ sem seldi heimaframleiddan mjólkurís. Þá hefur hún ásamt fleirum unnið brautryðjendastarf við uppsetningu og rekstur matarmarkaða þar sem fjölbreyttar vörur bænda eru á boðstólum. Þessi verkefni gefa innsýn í athafnasemi Hlédísar og langt frá því að allt sé upptalið. Í öllum sínum verkefnum hefur hún verið ötul að tala máli landbúnaðarins, benda á möguleika i nýsköpun og mikilvægi þess að stytta bilið milli bænda og neytenda.

Hins vegar hlutu Samtök ungra bænda hvatningarverðlaunin fyrir verkefnið „Ungur bóndi á Snapchat“. Snemma á seinasta ári stofnuðu Samtök ungra bænda aðgang á samfélagsmiðlinum Snapchat undir heitinu „Ungur bóndi“. Þar birtast stutt myndskeið sem tekin eru upp við ýmsar aðstæður. Meginmarkmiðið var að gefa öðrum bændum færi á að fylgjast með því sem ungir bændur væru að bardúsa við frá degi til dags. Hver "snappari" hafði aðganginn í viku og hafði frjálsar hendur um það sem hann vildi koma á framfæri.

Í kjölfar þess að fjölmiðlar vöktu athygli á aðganginum fjölgaði gríðarlega þeim sem fylgdu snappinu eftir og fólk víða í samfélaginu fylgist nú með störfum bænda um allt land. Þannig hefur hlutverk snappsins stækkað og nýst sem upplýsinga og kynningarveita um landbúnað til almennings. Daglega fylgjast 3-4000 manns með því sem fram fer á snappinu

Á þessu rúma ári hafa á milli 45 og 50 ungir bændur haft snappið til umráða, við höfum séð margar hliðar búskapar, ótal vélageymslur með misverðmætum gersemum, fjöldann allan af úrvals-sparigripum og heyrt sögur úr daglegu amstri fólksins í sveitunum. 

Ljóst er hér um að ræða vel heppnað verkefni á samfélagsmiðlum þar sem stutt myndskeið hafa birst þúsundum manns. Tiltækið hefur notið verðskuldaðrar athygli og aukið umræðu um landbúnað og dagleg störf bænda.

Landbúnaðarverðlaunin 2016 hlutu annars vegar sauðfjárbúið Hríshóll í Reykhólasveit og hins vegar bændurnir á Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði í Þingeyjarsveit.

Ábúendur á Hríshóli eru hjónin Þráinn Hjálmarsson og Málfríður Vilbergsdóttir og hjónin Vilberg Þráinsson og Katla Ingibjörg Tryggvadóttir. Í rökstuðningi vegna verðlaunanna segir meðal annars að ábúendur á Hríshóli hljóti þau fyrir dugnað, framtakssemi og einstaklega snyrtilega umgengni á býli sínu. 

Ábúendur á Stóru-Tjörnum eru Laufey Skúladóttir og Ásvaldur Ævar Þormóðsson, en þar er blandaður búskapur með sauðfé og nautgripi. Laufey er fædd og uppalin á Stóru-Tjörnum, en Ásvaldur er frá Ökrum í Reykjadal. Meðalnyt á búinu hefur farið ört vaxandi, var 6.293 lítrar árið 2008, sama ár og nýtt fjós var tekið í notkun á bænum, var 7.491 árið 2014 og fór upp í 7.860 í fyrra. Alls eru þau með 54 kýr, 60 aðra nautgripi, 150 kindur, 5 hesta, 2 hunda og 7 bordercollie-hvolpa auk þess sem 10 hænsni eru þar einnig.

Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir leikkona og bóndi á Mýrum stýrði athöfninni í Hörpu. Dömur í Graduale-kórnum sungu nokkur lög og bóndinn Svavar Pétur Eysteinsson, Prins Póló, flutti nokkra af sínum þekktustu slögurum.

Tímarit Bændablaðsins komið út

Tímarit Bændablaðsins kom út í dag og var dreift í Hörpunni. Það verður aðgengilegt á hér á vefnum eftir helgi.

Fyrir utan tónlistarhúsið var grillvagn sauðfjárbænda, hamborgarabíllinn Tuddinn ásamt dráttarvélum og öðrum tækjabúnaði sem bændur nota í sínum störfum. Meðal fyrirtækja sem verða á svæðinu eru MS, Sláturfélag Suðurlands, Sölufélag garðyrkjumanna, Flúðasveppir, Biobú, Kraftvélar, Vélfang, Fóðurblandan og Landbúnaðarháskóli Íslands.

Setningarræða Sindra Sigurgeirssonar, formanns Bændasamtakanna

Landbúnaðarverðlaunin

6 myndir:

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...