Búrfellsbúið í Svarfaðardal líklegt með að verða nythæsta kúabúið annað árið í röð
Línur eru nú að skýrast varðandi afurðir einstakra kúabúa á þessu ári. Enn vantar þó tölur fyrir nóvember og desember en þegar eru samt mjög sterkar líkur á að búið Búrfell í Svarfaðardal verði nythæsta búið í ár eins og 2020.
Samkvæmt heimildum Bændablaðsins voru bændur á Búrfelli, þau Guðrún Marinósdóttir og Gunnar Þór Þórisson, í efsta sæti í lok október með 8.873 kg í meðalnyt á hverja árskú. Þau eru með 40,4 árskýr í nýju fjósi sem rúmað getur 64 kýr auk smákálfa. Þá eru þau líka með Lely mjaltaþjón. Ef þeim tekst að halda þessari stöðu þá yrði það nokkur aukning í nyt frá síðasta ári þegar meðalnytin á árskú var 8.579 kg. Miðað við stöðu efstu tíu kúabúa í lok október, þá verður að teljast ólíklegt að nokkurt annað bú geti skákað þeim úr þessu. Öll eru búin samt að ná yfir 8.000 kg í meðalnyt.
Hjónin á Hraunhálsi að gera góða hluti ár eftir ár
Í öðru sæti í lok október voru líka þekktir afburða kúabændur, en það eru hjónin Guðlaug Sigurðardóttir og Jóhannes Eyberg Ragnarsson á Hraunhálsi í Helgafellssveit. Þau eru með 24,7 árskýr sem hafa skilað að meðaltali 8.634 kg eins og staðan er nú. Þau nota rörmjaltakerfi í sínu fjósi, enda búið varla með það margar kýr að það réttlæti kaup á mjaltaþjóni. Enda hafa þau verið að skila afbragðsútkomu árum saman svipað og í sauðfjárræktinni. Líkt og með búið á Búrfelli þá er harla ólíklegt að önnur bú á topp tíu listanum í október takist að skáka þeim Guðlaugu og Jóhannesi Eyberg úr öðru sætinu.
Í þriðja sæti í októberlok var búið Syðri-Hamrar 3 í Ásahreppi austan Þjórsár sem er með 43,7 árskýr. Þar eru ábúendur Guðjón Björnsson og Helga Björg Helgadóttir. Meðalnytin hjá þeim í októberlok var 8.386 kg sem telst mjög gott.
Í fjórða sæti koma svo Stóru-Reykir þar sem árskýr eru 54,1. Þar var meðalnytin 8.337 kg. Á Stóru-Reykjum búa Gísli Hauksson og Jónína Einarsdóttir, en bærinn er í Flóahreppi skammt frá Selfossi. Jörðin tilheyrði áður Hraungerðishreppi.
Í fimmta sæti er búið í Skollagróf í Hrunamannahreppi sem er með 36,5 árskýr. Þar eru ábúendur Sigurður Haukur Jónsson og Fjóla Helgadóttir. Þar var meðalnytin í októberlok orðin 8.323 kg.
Í sjötta sæti er Grund í Svarfaðardal sem er með 56,1 árskýr. Þar var meðalnytin 8.288 kg. Þar eru ábúendur þau Friðrik Þórarinsson og Sigurbjörg Karlsdóttir.
Í sjöunda sæti voru Ytri-Skógar undir Austur-Eyjafjöllum sem er með 25,4 árskýr. Meðalnytin á þeim bæ var 8.256 kg. Þar er reksturinn í félagsbúi undir nafninu Skógabúið sf. (Bændur, Ingimundur Vilhjálmsson og Margrét H. Jónsdóttir og Sigurður Sigurjónsson og Kristín Elínb. Þorsteinsdóttir)
Í áttunda sæti í októberlok var bærinn Votmúlastaðir í Austur-Landeyjum sem er með 41,2 árskýr. Meðalnytin þar var 8.254 kg. Þar eru ábúendur Hlynur Snær Theodórsson og Guðlaug Björk Guðlaugsdóttir.
Í níunda sæti voru Svertingsstaðir 2 í Eyjafjarðarsveit sem er með 62,2 árskýr. Meðalnytin í októberlok var 8.252 kg. Ábúendur á Svertingsstöðum 2 eru Hákon Bjarki Harðarson og Þorbjörg Helga Konráðsdóttir.
Í tíunda sæti var svo bærinn Syðri-Grund í Höfðahverfi skammt frá Grenivík. Þar eru 49,5 árskýr sem skiluðu 8.185 kg í meðalnyt. Ábúendur og skýrsluhaldarar á þeim bæ eru Stefán Rúnar Sævarsson og Steinunn Harpa Jónsdóttir.
Lítil munur á mörgum búum
Ljóst er af þessari upptalningu sem sett er hér fram til fróðleiks, að ekki munar ýkja miklu í nyt á átta af tíu kúabúum á topp tíu listanum. Vel er því hugsanlegt að röðin í þeim hópi eigi eftir að riðlast eitthvað fram að áramótum. Eins gætu næstu bú þar á eftir blandað sér í leikinn, enda er þeir orðnir margir kúabændurnir á Íslandi sem kalla má afburða bændur.
Gælt við 9.000 kílóa markið
Það er hreint með ólíkindum hvað nytin hjá þessum smágerða íslenska kúastofni hefur aukist mikið á tiltölulega fáum árum. Þó fjölmargar kýr hafi verið með mun hærri nyt en meðalnytin segir til um, þá bíða eflaust margir spenntir eftir því að metið í meðalnytinni á einhverju búinu slái 9.000 kílóa markið. Það næst trúlega ekki í ár, en nokkrum sinnum hafa bændur þó komist nálægt því marki.