Búsæld hefur samþykkt sameiningar
Samþykkt var á aðalfundi Búsældar ehf. að fela stjórn félagsins fullt og óskorað umboð til að samþykkja sameiningu Norðlenska Matsborðsins ehf., Kjarnafæðis hf. og SAH afurða ehf. í samræmi við kynningu á fundinum og til að standa að ákvörðunum og aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að ljúka vinnu við samruna félaganna. Þetta var samþykkt með 86,25% greiddra atkvæða.
Norðlenska og Kjarnafæði komust í byrjun júlí að samkomulagi um helstu skilmála samruna félaganna. Viðræður um samruna þeirra hafa staðið yfir frá því á haustmánuðum 2018 og voru á tímabili settar á ís. Félögin náðu saman um þau atriði sem út af stóðu.
Brugðist við breytingum í rekstrarumhverfi matvælaiðnaðar
Með samruna félaganna eru eigendur að bregðast við breytingum í rekstrarumhverfi matvælaiðnaðar undanfarin misseri. Það er mat eigenda félaganna að sameinað félag sé betur í stakk búið til að veita viðskipta-vinum sínum og birgjum, ekki síst bændum, góða þjónustu á samkeppnishæfu verði. Kjarnafæði er í eigu bræðranna Eiðs og Hreins Gunnlaugssona, en Norðlenska er í eigu Búsældar, sem er í eigu um 500 bænda á Íslandi.
Samkomulag um samruna félaganna var gert með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda og samþykki hluthafafundar Búsældar. Það samþykki er nú í höfn.
Stjórn Búsældar var kjörin til eins árs í senn. Í stjórn eru Björgvin Gunnarsson, Núpi Berufirði, Geir Árdal, Dæli Fnjóskadal, Gróa Jóhannsdóttir, Hlíðarenda Breiðdal, Guðmundur Óskarsson, Hríshóli Eyjafjarðarsveit og Þórarinn Ingi Pétursson, Grund Grýtubakkahreppi.