Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Höfuðbýlið Bustarfell í Hofsárdal, Vopnafirði. Margt um manninn og fjölskyldufólk fjölmennti á Bustarfellsdaginn.
Höfuðbýlið Bustarfell í Hofsárdal, Vopnafirði. Margt um manninn og fjölskyldufólk fjölmennti á Bustarfellsdaginn.
Mynd / Birna H. Einarsdóttir og Þórdís Þórarinsdóttir
Fréttir 31. ágúst 2020

Bustarfellsdagurinn haldinn í 28. sinn

Höfundur: FÁI
Þann 5. júlí síðastliðinn var Bust­ar­fellsdagurinn haldinn hátíðlegur í 28. sinn. Dagskráin fór fram á hinu forna höfuðbýli Bustarfelli í Hofsárdal, Vopnafirði, þar sem einn stærsti og best varðveitti torfbær landsins stendur. Í honum er minjasafn, sem geymir tveggja alda sögu lifnaðarhátta í bænum og sveitinni á tímabilinu 1770 til 1966 að flutt var úr bænum.
 
Yngri og eldri engjamenn. Það söng og hvein í ljánum hjá þessum sláttumönnum. 
 
Á Bustarfellsdaginn lifnar gamli bærinn við þegar gengið er í gömlu störfin og í ár mátti til að mynda sjá hina þekktu textíllistakonu Sigrúnu Láru Shanko að störfum og annars staðar í bænum var skorið út, ofið við vefstólinn, prjónað jafnt á hringprjónavél og gömlu góðu sokkaprjónana og úti í hjallinum bullaði í ullarlitunarpottunum.
 
Venju samkvæmt mátti gæða sér á ýmiss konar góðgæti hér og þar um bæinn, svo sem reyktu sauðakjöti, heimabökuðu rúgbrauði og harðfiski, og fá bæði í nefið og tána í skiptum fyrir góða sögu eða vísu. Þá tóku heimasætur í upphlut á móti gestum á baðstofuloftinu og buðu upp á kaffi, lummur og kandís.
 
Þjóðleg stemning og prúðbúnu heimasæturnar á baðstofuloftinu.
 
Í gamla haughúsinu voru valin brot úr heimildarmynd Ásdísar Thoroddsen, Gósenlandið, sýnd, en Elín heitin Methúsalemsdóttir, húsfreyja á Bustarfelli, fléttar saman þræði myndarinnar með því að segja frá matarhefðum á Bustarfelli og sögu bæjarins. Á kaffihúsinu Hjáleigunni hékk uppi ljósmyndasýning Halldóru Andrésdóttur, Réttardagur, með svipmyndum af bændum og búaliði á réttardegi í Teigsrétt. Og í Hjáleigunni svignuðu borðin undan bakkelsi sem Kvenfélagið Lindin reiddi fram af list og mettaði mannskapinn.
 
Að vanda var aðsókn góð og fjölmennti fjölskyldufólk, enda var af nógu að taka fyrir börnin, sem gátu til að mynda farið á hestbak og skemmt sér með dýrunum í dalnum, sem léku við hvurn sinn fingur, og gátu því allir fundið eitthvað við sitt hæfi.
 
Fleiri myndir frá þessum skemmtilega degi má finna á Facebook-síðu minjasafnsins og safnið verður opið alla daga frá 10–17 og kaffihúsið Hjáleigan frá 11–17 út sumarið. 
Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...