Byrjaði upp á nýtt
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Góðar hryssur eru undirstaða árangursríkrar hrossaræktar. Það getur Magnús Þór Geirsson vitnað um en hryssan hans, Frigg frá Ytri-Skógum, á þrjú afkvæmi sem keppa á Landsmóti í ár.
Sagan af ræktunarárangri Magnúsar Þórs hefst þegar hann skar niður öll hrossin sín árið 1996.
„Ég ákvað að byrja upp á nýtt. Stundum er gott að byrja bara með tómt borð. Ég fór í heimsókn til Ingimundar Vilhjálmssonar á Ytri-Skógum og fékk að kíkja í stóðið hjá honum. Þá kemur þessi hryssa og stingur hausnum inn um gluggann á bílnum. Ég segi um leið við Ingimund að þessa hryssu verði ég að kaupa,“ segir Magnús.
Ingimundur þurfti að hugsa sig tvisvar um áður en hann lét hryssuna. Hann endaði þó með að selja Magnúsi hana með einum fyrirvara.
„Hann sagði að ég þyrfti að taka einn Orrason með á hundrað þúsund kall. Ég hafði ekkert við þennan Orrason að gera en Tryggvi bróðir minn keypti hann. Hann náði svo nokkuð góðum árangri í keppnum og var síðan seldur út nokkrum árum síðar. Síðan hef ég haft góð samskipti við Ingimund, enda er hann mikill sómamaður og á ég nokkur vel ættuð hross frá honum.“
Sem áður segir fékk Magnús Frigg, sem þá var þriggja vetra, en fimm vetra var hún send í tamningu til Hermanns Karlssonar áður en Magnús notaði hana í nokkur ár sem reiðhross. „Ég fór ekki með hana strax undir hest. Hún var svo skemmtilegt reiðhross að ég tímdi eiginlega ekki að missa hana.“
Magnús vippaði sér á bak Friggjar en þarna er hún ásamt folaldinu Freyju undan Skýr frá Skálakoti.
Frá Elliðavatnshring á kynbótabrautina
Einn vetur var Auðunn Kristjánsson með Frigg í þjálfun til að búa hana undir kynbótadóm. „Það er gaman frá því að segja að einn blíðviðrisdag að vori á ég leið í hesthúsin og sé að merin er ókembd og taldi ég um leið að henni væri ekki sinnt. Ég dreif mig á bak henni og reið einn hring kringum Elliðavatn. Næsta dag hringir svo Auðunn og óskar mér innilega til hamingju með merina, en þann dag hafði hún fengið sinn besta kynbótadóm,“ segir Magnús og bætir við. „Hún var alltaf betri eftir því sem henni var riðið meira.“
Fyrsti fundur Friggjar við eiganda sinn virðist endurspegla karaktereinkenni sem hún ber áfram til afkvæma sinna. „Hún hagaði sér alltaf eins og heimalningur. Hún var alltaf ofan í þér ef þú varst nálægt. Öll afkvæmin eru einnig þannig, þau koma alltaf til þín og eru ofan í þér. Fyrir utan það eru þau öll rosalega geðgóð, það geta allir riðið þeim og þau aðlaga sig að hverjum einstakling sem er,“ segir Magnús.
Engar væntingar
Frigg er fædd árið 1993. Hún er undan Kjarval frá Sauðárkróki og Hrefnu frá Ytri-Skógum, dóttur Hrafns frá Holtsmúla. Afkvæmi Friggjar eru 15 talsins og munu þrjú þeirra koma fram á Landsmótinu. Katla frá Fornusöndum er skráð til leiks í tölti og B-flokk gæðinga, Draumadís frá Fornusöndum í A-flokk. Knapi þeirra er Elvar Þormarsson sem hefur haft veg og vanda að tamningu og þjálfun flestra afkvæma Friggjar. Þá keppir Forni frá Fornusöndum í B-flokki gæðinga en knapi hans er Þorvarður Friðbjörnsson.
Magnús segir hrossin öll gæðingar, bæði eðlisgeng og gæf. Hann segist ekki vænta neins af þeim á mótinu. „Ég ætlast aldrei til neins af skepnunum í keppni. Þau geta átt misjafna daga rétt eins og við. Það er bara gaman þegar vel gengur og þetta er að sjálfsögðu viðurkenning á því sem ég hef verið að gera. Maður þarf ekki að vinna mót til þess.“
Þakklæti er ofarlega í huga Magnúsar. „Í gegnum tíðina hef ég verið mjög lánsamur með fólk sem hefur tamið og þjálfað hross fyrir mig. Má þar nefna Kristínu og Brand á Syðri-Fljótum sem hafa séð um frumtamningar á öllum mínum hrossum síðustu átta árin. Þá hafa Elvar Þormarsson og Þorvarður Friðbjörnsson unnið frábært starf við framhaldsþjálfun. Magnús hvetur hrossaræktendur að vera fylgnir sér í vali á stóðhestum.
„Undirstaða góðrar ræktunar er auðvitað framúrskarandi merar en fyrst og fremst að hafa trú á sínum eigin skoðunum þegar kemur að því að velja graðhesta. Því sagan hefur sýnt að dýrustu tollarnir eru ekki alltaf þeir bestu fyrir þínar merar,“ segir Magnús.
Þrjár hryssur með þrjú afkvæmi
Frigg frá Ytri-Skógum er ekki eina hryssan sem getur stært sig af þremur afkvæmum sínum í gæðingakeppni Landsmótsins í ár.
Það getur einnig Ljúf frá Búðarhóli en þrjú afkvæmi hennar keppa í B-flokki gæðinga. Líney kemur fram með knapa sinn Lenu Zielinski, en Lára og Þjóðólfur verða sýnd af Sigurði Sigurðarsyni. Afkvæmin eru öll kennd við bæ Sigurðar, Þjóðólfshaga I. Eigandi Ljúfar er Garðar Hreinsson.
Þá munu Sproti, Víðir og Burkni, bera móður sinni, Sendingu, gott vitni. Sending frá Enni á nú 16 afkvæmi og hafa ellefu þeirra komið fyrir kynbótadóm. Þórdís Erla Gunnarsdóttir mun tefla Sprota og Víði frá Enni í B-flokki en Lára Margrét Jónsdóttir mætir með bróður þeirra, Burkna frá Enni í unglingaflokki. Eigendur Sendingar eru Eindís Kristjánsdóttir og Haraldur Þór Jóhannsson.