Desember er mánuður kerta og ljósaskreytinga
Þann 1. desember síðastliðinn var dagur reykskynjarans, á þeim degi er mælst til þess að farið sé yfir hvort reykskynjarar heimilisins virka og séu í lagi.
Til að kanna hvort reykskynjari sé í lagi er á þeim lítill hnappur sem maður ýtir á og á þá reykskynjarinn að gefa frá sér hljóð. Í öllum hefðbundnum reykskynjurum á að skipta um rafhlöðu einu sinni á ári (á mínu heimili er það ákveðinn dagur sem hefur hingað til ekki gleymst). Hins vegar eru líka komnir á markað reykskynjarar sem eru með innbyggða rafhlöðu sem á að endast í tíu ár. Að þeim tíma loknum er einfaldlega skipt um reykskynjara.
Svo eru það slökkvitækin, en utan á öllum slökkvitækjum er lítill límmiði sem segir til um hvenær á að yfirfara slökkvitækið næst, en flest lítil slökkvitæki sem eru á heimilum á að yfirfara árlega.
Ljósaseríur utandyra eru almennt mikið augnayndi. Þeir sem eru með margar seríur þurfa að gæta vel af tengingum, framlengingarsnúrum, því ef of mikið álag er í rafmagninu getur það myndað hita og að endingu eldsvoða. Síðan er það vatnsveðrið og vindurinn sem getur myndað skammhlaup og útslátt af rafmagni sem oft getur verið erfitt að finna.
Slökkvitæki eiga að vera til á hverju heimili og staðsett þar sem gott aðgengi er að þeim. Margar gerðir slökkvitækja eru til, þ.e. duft-, kvoðu-, vatns- og kolsýrutæki. Best er að fá ráðleggingar frá sérfræðingum um hvaða slökkvitæki séu heppilegust á hverjum stað. Slökkviteppi er líka mikilvægt að hafa við höndina þegar verið er að steikja upp úr feiti.
Margir eldsvoðar hafa orsakast af kertaskreytingum
Desember er sá mánuður sem oftast er kveikt á kertum, en við notkun kertaljósa er margt að varast. Þegar kveikt er á kertum er ágætt að hugsa um hvað getur hugsanlega eða í versta falli orðið til þess að þetta kerti valdi eldsvoða?
Eitt atriði er vanmetið og sjaldan hugsað út í þegar kveikt er á kertum, en það eru heimilisdýrin, hundar og kettir. Heimilisdýrin eru ekki alltaf meðvituð um hættuna og köttum er gjarnt að nudda sér utan í hluti og ef það er kerti sem fellur á hliðina á eitthvað auðbrennanlegt þarf ekki að líða langur tími þar til að eldurinn verður óviðráðanlegur.
Hundar eru meiri varðdýr og ef dyrabjallan hringir eða bankað er á útihurð sprettur hundur stundum upp úr sínu bæli með svo miklum látum í átt að útihurð að gusturinn af honum getur hæglega hent niður logandi kerti.
Alltaf að byrja á að hringja í 112
Allir á heimilinu ættu að hafa ákveðið hlutverk ef upp kemur eldur. Börnum allt niður í 4-5 ára er hægt að kenna brunavarnir, en númer eitt, alltaf byrja á að hringja í 112 og síðan að forða sér út eins fljótt og hægt er.
Á veraldarvefnum er mikið til af kennslumyndböndum hvernig eigi að bregðast við eldsvoða. Svona myndbönd er gott að sýna börnunum sínum og að lokinni sýningu segja frá hvernig þau eigi að bregðast við á þínu heimili.
Sorgleitt að heyra brunafréttir rétt fyrir jól
Fátt finnst mér dapurlegra en að heyra fréttir af fjölskyldum sem missa allt sitt í bruna rétt fyrir jól. Jólin er sá tími sem nánast allir hlakka til, en til að forðast bruna út frá jólatré, aðventuskreytingum eða einhverju öðru, farið varlega með eld.
Það tekur ekki nema um 30 sek. fyrir þurrt jólatré að verða alelda (sjá skjáskot úr forvarnarmyndbandi á 22. sek. á mynd). Fyrir nokkru horfði ég á forvarnarmyndband á fréttasíðunni www.ladbible.com, en þar var sett skeiðklukka í hornið á myndbandinu og eftir 30 sek. var tréð brunnið og það sem var næst trénu byrjað að brenna.
Þar sem að þetta er síðasta Bændablaðið fyrir jól vil ég misnota aðstöðu mína hér og óska lesendum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.