Dræm veiði í ám
Almennt var veiði í laxveiðiám landsins frekar dræm í sumar, að undanskildu norðausturhorninu og í Rangánum.
Flestar árnar fara að loka fyrir veiðar þó einhverjar haldi veiðum áfram fram í október.
Langvarandi þurrkar og vatnsleysi í ám hafa haft mikil áhrif á veiðina og gerðu mönnum erfitt fyrir. Samkvæmt frétt á angling.is töluðu veiðimenn á Vesturlandi jafnvel um hamfarir í þeim efnum en vatnsmeiri ár á Norðurlandi og norðausturhorni komu best út úr þurrkunum.
Í lok ágúst lifnaði þó nokkuð yfir veiðinni með tilkomu vætu og veðrabreytinga. Laxveiði tímabilinu er lokið í Miðfjarðará og veiddust þar 1.334 laxar á 10 stangir samanborið við 1.522 veidda laxa í fyrra. Í Rangánum þrem – Ytri Rangá, Hólsá og Eystri-Rangá – hefur einnig verið lakari veiði heldur en árið áður. Í Eystri-Rangá hafa veiðst í ár 2.347 laxar á 18 stangir en í fyrra veiddust 3.807. Veiðum er þó ekki lokið í Rangánum en þar er veitt til 20. október.
Veiði í Selá, Haffjarðará og Laxá í Aðaldal hefur þó gengið vel og er fjöldi veiddra laxa ívið meiri en árið áður. Í Selá veiddust 1.234 miðað við 1.164 í fyrra. Í Haffjarðará veiddust 905 miðað við 870 í fyrra og veiðst hafa 685 laxar í Laxá í Aðaldal en 402 samanborið árið áður.