Dýrin í Slakka komin í sumarskapið
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Dýragarðurinn Slakki í Laugarási í Biskupstungum var opnaður fyrir gesti í maí og verður bæði úti- og innisvæðið opið fram í september. Þar hafa börn Helga Sveinbjörnssonar, sem stofnaði Slakka, nú tekið við rekstrinum.
Helgi segir að það sé vissulega léttir að börnin hafi nú tekið við keflinu. Þetta hafi oft verið erfitt en börnin séu full af áhuga og krafti og með margvíslegar hugmyndir um að efla starfsemina, ekki síst yfir vetrartímann.
Mikið er um að fjölskyldufólk heimsæki Slakka á sumrin, enda öll umgjörðin mjög skemmtileg. Þar er margt forvitnilegt að skoða og líka hefur verið hægt að fara þar í mínígolf og pútt. Þá er einnig hægt að fara í pool (billiard) og hafa það huggulegt við barinn.
Elsta dóttirin, Gunnur Ösp Jónsdóttir, og hennar maður, Matthías Líndal Jónsson, seldu íbúð sína á höfuðborgarsvæðinu og fluttust austur til að taka við rekstrinum. Síðan taka hálfsystkini Gunnar Aspar, þau Rannveig Góa Helgadóttir og Egill Óli Helgason líka þátt í rekstrinum auk þess sem pabbinn er þeim að sjálfsögðu innan handar. Þess má geta að opið er alla daga frá klukkan 11 til 18.