Eftirspurn mun minni en framboð
Haldinn var tilboðsmarkaður með greiðslumark í mjólk þann 1. nóvember. Í annað sinn í röð er á markaði mun minni eftirspurn en framboð.
Greiðslumark sem viðskipti ná til eftir opnun tilboða nam 1.048.500 lítrum, en heildarmagn greiðslumarks sem boðið var fram í sölutilboðum var 3.287.023 lítrar.
Matvælaráðuneytinu bárust 47 gild tilboð um kaup og sölutilboð voru 26. Í tilkynningu úr ráðuneytinu kemur fram að í gildi sé ákvörðun ráðherra um að hámarksverð skuli vera þrefalt afurðastöðvaverð, sem við lok tilboðsfrests var 389 krónur á lítrann. Við opnun tilboða hafi komið fram jafnvægisverðið 300 krónur á lítrann.
Fjöldi kauptilboða undir jafnvægisverði var 16, en fjöldi sölu- tilboða yfir jafnvægisverði var 17. Greiðslumark sem óskað var eftir var 1.600.500 lítrar. Heildarandvirði þess greiðslumarks sem viðskipti náðu til nam 314.550.000 krónum.
Seljendur með tilboð á jafnvægisverði eða lægra voru níu og selja 70,4 prósent af sínu framboðna magni, en kaupendur með tilboð á jafnvægisverði eða hærra eru 31 og fá allt það magn sem sóst var eftir.
Í tilkynningunni kemur fram að sala greiðslumarks fari nú fram samkvæmt gildum tilboðum.
Matvælaráðuneytið muni senda öllum tilboðsgjöfum upplýsingar um afgreiðslu tilboða og gera breytingar á skráningu greiðslumarks þegar uppgjör hefur farið fram. Upplýsingar um greiðslumark sitt geta bændur nálgast í Afurð.