Einangra þurrkaþolið gen í byggi
Eftir fimm ára rannsóknir hefur vísindamönnum við Heriot-Watt háskóla í Edinborg tekist að einangra gen í byggi sem eykur þurrkaþol plöntunnar. Skoskir viskíframleiðendur eru hæstánægðir með niðurstöður rannsóknanna.
Fundur gensins eykur líkur á að með hjálp erfðatækni verði hægt að kynbæta byggplöntur til að þola betur þurrka og auka þannig framboð á matvælum í kjölfar hlýnunar jarðar.
Eftir fimm ára rannsóknir hefur tekist að greina genið sem veldur því hversu þurrkþolnar byggplöntur eru.
Genið sem kallast HvMYB1 er eitt af 39 þúsund genum í byggplöntunni og leit að einu sérhæfðu geni eins og að leita að nál í heystakki. Rannsóknir sýna að plöntur þar sem genið eða virkni þess er áberandi eru þolnari fyrir þurrki en annað bygg. Niðurstöður rannsóknanna voru birtar í Journal of Plant Physiology and Biochemistry.
Þeir sem að rannsóknunum standa eru bjartsýnir á að fundur gensins geti haft mikil og jákvæð áhrif á matvælaframleiðslu í framtíðinni þar sem hlýnun jarðar veldur síauknum þurrkum og samdrætti í uppskeru á svæðum þar sem bygg er ræktað í stórum stíl.
Talsmaður viskíframleiðenda í Skotlandi sagði að niðurstöður rannsóknanna væri mikið fagnaðarefni þar sem um 90% af öllu byggi sem notað væri til viskíframleiðslu í Skotlandi kæmi frá svæðum sem þegar væru farin að kenna á auknum þurrkum hlýnunar jarðar.