Eitt hundraðasta tölublað
Garðyrkjufélag Íslands er eitt af allra elstu félögum landsins, stofnað árið 1885. Frá 1895 hefur félagið gefið út Garðyrkjuritið með hléum. Fyrir stuttu kom út 100. árgangur þessa merka rits.
Björk Þorleifsdóttir, ritstjóri ritsins, segir að í tilefni 100 ára útgáfusögu Garðyrkjuritsins hafi hún flett í gömlum árgöngum og það hafi vissulega komið henni á óvart hversu klassískt efnið í gömlu blöðunum er. „Efni blaðsins að þessu sinni er ekki síður fjölbreytt og fróðlegt og það ætti að höfða til bæði áhuga- og fagfólks í garðyrkju og ræktun.“
Björk Þorleifsdóttir, ritstjóri Garðyrkjuritsins.
Meðal efnis að þessu sinni er ávarp Bjarkar ritstjóra og Ómars Valdimarssonar, formanns félagsins. Meðal höfunda að þessu sinni eru Tómas Atli Ponzi, sem segir frá tilraunum með ný tómataafbrigði, Jóhann Pálsson, Ásta Þorleifsdóttir og Vilhjálmur Lúðvíksson fjalla um rósir auk þess sem Hafsteinn Hafliðason segir frá rósinni 'Harison´s Yellow', Kálfafellsrófunni og fjölskyldunni á Kálfafelli. Kristján Friðbertsson, sem er bráðskemmtilegur penni, rekur ævintýri rifsþélunar og segir sögu fingurbjargablóma.