Ekkert veiðibann á döfinni
Veiðibann á grágæs hefur ekki tekið gildi á Íslandi og ekki stendur til að banna slíkar veiðar, þrátt fyrir alþjóðlegt veiðibann sem gekk í gildi þann 1. janúar í gegnum alþjóðasamning sem Ísland er aðili að.
Samkvæmt upplýsingum úr umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu þá gerðu Íslendingar og Bretar fyrirvara við þá breytingu á flokkun tegundarinnar í verndarflokk, sem leiddi til veiðibannsins. Aukinheldur er tegundin stjörnumerkt í samningnum, sem þýðir að þrátt fyrir veiðibann þá eru veiðar heimilaðar svo framarlega sem þær eru sjálfbærar og í samræmi við alþjóðlega stjórnunar- og verndaráætlun.
Vinna við áætlunargerð að hefjast
Í ráðuneytinu er að hefjast vinna við gerð slíkrar áætlunar í samstarfi við Breta. Til að tryggja að veiðar séu áfram heimilaðar meðan á gerð áætlunarinnar stendur var gerður fyrirvari við breytinguna og með því veittur meiri sveigjanleiki.
Umræddur alþjóðasamningur, Agreement on the Conservation of African-Eurasian Migratory Waterbirds (AEWA), er ætlað að vernda afrísk-evrasíska vatnafugla sem eru farfuglar.
Á fundi AEWA síðastliðið haust lögðu fulltrúar Bretlands til að grágæsin yrði stjörnumerkt og fulltrúar Íslands studdu það ásamt Evrópusambandinu.