Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Brynjólfur Brynjólfsson. Ekki reyndist marktækur munur á tegundafjölbreytni á milli svæðanna í rannsókn hans.
Brynjólfur Brynjólfsson. Ekki reyndist marktækur munur á tegundafjölbreytni á milli svæðanna í rannsókn hans.
Mynd / Aðsend
Fréttir 7. nóvember 2022

Ekki marktækur munur á tegundafjölbreytni

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Þann 10. október varði Brynjólfur Brynjólfsson meistararitgerð sína við Landbúnaðarháskóla Íslands í náttúru- og umhverfisfræði þar sem rannsökuð voru áhrif beitar og friðunar á fjölbreytni mólendisplantna á völdum svæðum í úthaga í samhengi við umhverfisþætti. Ekki reyndist marktækur munur á tegundafjölbreytni á milli svæðanna.

Önnur helsta niðurstaða rannsóknarinnar er sú að tegunda­fjölbreytni fór minnkandi með auknu kolefnis­ og köfnunar­ efnishlutfalli í jarðvegi. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að kolefnis­ og köfnunarefnishlutfall var ögn lægra á beittu svæði. Ekki greindist þó marktækur munur á heildarþekju plantna; tegundaauðgi, tegundajafnræði og tegundafjölbreytni mólendisplantna á milli friðaðs og beitts svæðis.

Hins vegar bar tegunda­samsetningin vott um áhrif sauðfjárbeitar. Af þeim sjö tegundum sem voru með marktækt meiri útbreiðslu á öðru hvoru svæðinu voru fjórar útbreiddari á beitta svæðinu, allt blómjurtir.

Þekja plöntuhópa á samanburðarsvæðunum.

Frumrannsókn úr Eyjafirði

Brynjólfur segir að rannsóknin hafi verið frumrannsókn hans á heimaslóðunum, sem eru Reykhús í Eyjafjarðarsveit. „Rannsóknina þyrfti að endurtaka innan ekki of margra áratuga til að fá áreiðanlegri samanburð á áhrifum beitar og friðunar, eins væri ekki verra að auka beitarþungann.“

Borin voru saman svæði sem lágu milli 220 og 320 metra hæðarlína. Óbeitta svæðið hefur verið friðað fyrir sauðfjárbeit í 43 ár, beitta svæðið hefur verið léttbeitt síðustu tvo til þrjá áratugi.

Smárunnar sækja í sig veðrið

„Einn plöntuhópur, smárunnar, var marktækt útbreiddari á friðuðu svæði. Í ritgerðinni dreg ég þá ályktun að sauðfjárbeitin haldi útbreiðslu þessa plöntuhóps í skefjum. Það kann að vera glannalegt að draga slíka ályktun af frumrannsókn þar sem samanburð frá því fyrir friðun vantar. Engu að síður geri ég það enda þykja flestar tegundir í þessum plöntuhópi alleftirsóttar til beitar, ekki síst þegar líður fram að hausti,“ segir Brynjólfur.

Hann segir að plöntuhópurinn „tré og runnar“ hafi einnig verið útbreiddari á friðuðu svæði en munurinn greindist þó ekki marktækur. „Enda er sá plöntuhópur farinn að breiðast út á beitta svæðinu í seinni tíð þrátt fyrir sauðfjárbeit,“ útskýrir Brynjólfur. „Það er líklegt að munurinn á þessum svæðum hafi verið meiri fyrir um einum til tveimur áratugum, ekki síst með tilliti til þessa plöntuhóps ef marka má hæð runna og trjáa sem er talsvert meiri á friðaða svæðinu. Beitarþungi hefur hins vegar verið lítill í um þrjá áratugi á beitta svæðinu og skýrir það líklega af hverju ekki greindist meiri munur á svæðunum.“

Fjalldalafífill og klukkublóm, sem ásamt maríustakki og brjóstagrasi fannst í marktækt meira magni á beittu svæði.

Fáar tegundir vantaði alveg

Þegar Brynjólfur er spurður um þær plöntutegundir sem voru með meiri útbreiðslu á öðru hvoru svæðinu segir hann að blómjurtirnar fjalldalafífill, klukkublóm, maríustakkur og brjóstagras hafi verið marktækt útbreiddari á beitta svæðinu. Þær þrjár sem voru marktækt útbreiddari á friðaða svæðinu voru hins vegar krækilyng (smárunni), axhæra (hálfgras) og klóelfting (byrkningur).

„Bróðurpartur tegunda sem þykja eftirsóttar af sauðfé var útbreiddari á friðaða svæðinu en meirihluti tegunda sem þykja lítt eftirsóttar af sauðfé voru útbreiddari á beitta svæðinu. Það gefur til kynna áhrif af sauðfjárbeit. Flestar tegundir fundust þó á báðum svæðum og fáar vantaði alveg á öðru hvoru svæði,“ segir Brynjólfur.

Krækilyng, sem var marktækt útbreiddara á friðaða svæðinu ásamt axhæru (hálfgras) og klóelftingu (byrkningur).

Smjörgras, blágresi og hrútaber

Að sögn Brynjólfs fundust allra eftirsóttustu beitarplönturnar, eins og smjörgras, blágresi og hrútaber, ekki á beittu svæði en þær fundust á fáeinum stöðum á friðuðu svæði. Ekki greindist tölfræðileg marktækni þar sökum þess hve fátíðar þær voru.

„Hið sama gilti um tegundir sem fundust eingöngu á beittu svæði en ekki friðuðu, þetta voru sjaldgæfari tegundir eins og jakobsfífill, hagavorblóm – og lygilegt en satt, ein sjálfsáin stafafura í 300 metra hæð yfir sjávarmáli. Þessi fundur fannst mér það athyglisverður að ég ákvað að gera litla rannsókn á útbreiðslu sjálfsáinnar stafafuru í Hörgárdal og Öxnadal í sumar, með styrk frá Nýsköpunarsjóði en það er önnur saga. Mér sýndist þó að sauðfjárbeit þar næði að halda niðri útbreiðslunni þar sem hún var til staðar, enda er það engin tilviljun að menn girða skógræktarsvæði af með tilliti til þessa,“ segir Brynjólfur.

Friðun getur leitt til tegundafækkunar háplantna

Þegar Brynjólfur er spurður að því hvernig niðurstöðurnar muni nýtast, til dæmis varðandi skipulag landnýtingar og beitarstjórnun, segir hann að það muni tíminn leiða í ljós. „Eftir því sem ég best veit er verið að gera sams konar rannsóknir hér og hvar um landið um þessar mundir, nokkrir doktorsnemar eru í því, held ég. Það verður forvitnilegt að sjá niðurstöðurnar þar. Fyrri rannsóknir hafa einkum beinst að áhrifum friðunar gagnvart sauðfjárbeit og það hefur verið sýnt fram á að hún getur leitt til tegundafækkunar háplantna, einkum þar sem trjágróður vex upp.

Rétt er að taka fram að ég hef í sjálfu sér ekkert mikið á móti trjágróðri. Í minni rannsókn voru jarðvegssýni einnig skoðuð og fannst ágætt samband milli hlutfalls kolefnis og köfnunarefnis í jarðvegi og tegundafjölbreytni plantna. Tegundafjölbreytnin minnkaði eftir því sem hlutfall kolefnis og köfnunarefnis jókst. Jafnframt var þetta hlutfall örlítið lægra á beitta svæðinu en því friðaða.

Það væri forvitnilegt að fá fleiri rannsóknir á þessum þætti; hvort sauðfjárbeit geti að einhverju leyti stillt af jarðvegseiginleika með tegundavali sínu og haft þannig áhrif á tegundafjölbreytni plantna. Hvur veit? Einnig þarf að rannsaka hvernig og hvort sauðfjárbeit geti nýst í hálfvöxnum skógi til að viðhalda tegundafjölbreytni háplantna. Slíkt tekur tíma og það er því langbest að byrja strax.“

Skylt efni: mólendisplöntur

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...