Ekki öll sagan sögð í verðkönnun ASÍ
Alþýðusamband Íslands hefur birt könnun þar sem verð á 18 tilgreindum matvörum er borið saman í höfuðborgum Norðurlandanna í desember síðastliðnum. Um er að ræða algengar matar og drykkjarvörur og kemur þar fram að vörukarfan sé hvergi dýrari en hér á Íslandi. Samanburðurinn umreiknar verðið í íslenskar krónur á þeim tíma sem könnunin var gerð.
Talsvert hefur verið fjallað um könnunina í fréttum í dag og einkum er þá ráðist að tollvernd landbúnaðarvara.
Taka verður tillit til fleiri þátta
Sindri Sigurgeirsson formaður BÍ segir að könnun ASÍ segi vissulega ákveðna sögu en taka verði tillit til fleiri þátta. „Ég hefði viljað sjá svona kannanir gerðar oftar en á 12 ára fresti, 2006 og 2018. Í bæði skiptin er gengi krónunnar sterkt, en staðan gjörbreyttist í millitíðinni. Það er ekki deilt um að verðlag á Íslandi er hátt á flestum vörum samanborið við önnur Evrópulönd, en það er kaupmátturinn sem skiptir mestu. Hvað færðu fyrir þínar ráðstöfunartekjur og hvað þarftu að nota stóran hluta af ráðstöfunartekjum til að kaupa í matinn. Þar stöndum við vel á Íslandi. Við þurfum aðeins að nota 10,6% ráðstöfunartekna til matarkaupa og erum þar í 6. sæti af 32 löndum í Evrópu skv. nýjustu tölum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat.
Það er þetta sem segir til um raunveruleg lífskjör. Vissulega nýtur landbúnaður ákveðinnar tollverndar og verð á framleiðslu hans er ekki yfir gagnrýni hafið, en það er þá eðlilegt að bera saman líka verð á vörum sem bera enga tolla, eins og fötum, skóm, raftækjum og fleiru. Það má allt skoða í gögnum Eurostat og þar eru verðin oftar en ekki hæst á Íslandi. Spaghetti er heldur ekki tollað svo ekki verður þeim kennt um mikinn verðmun þar. Skoðum þetta bara allt. Það er hið sanngjarna í málinu. Matvælaverð er meira en tvöfalt lægra í Rúmeníu en á Íslandi skv. samanburði Eurostat, en þrátt fyrir það þurfa heimili þar í landi að verja meira en tvöfalt hærri hluta af ráðstöfunartekjum sínum til matarkaupa en þau íslensku,“ segir Sindri.
Hlutfall útgjalda neytenda til kaupa á matvörum. Hagstofa ESB, Eurostat, metur hlutfall útgjalda neytenda til kaupa á matvörum. Meðfylgjandi tafla sýnir hlutfall útgjalda til kaupa á matvörum á Evrópska Efnahagssvæðinu auk Sviss árið 2018.