Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Íslenskur repjuakur. Í gögnum frá The New York Times kemur fram að aukning á uppskerumagni á repju hefur verið svipuð í Vestur-Evrópu og Kanada frá 1995 – þegar erfðabreytt afbrigði repju voru kynnt til sögunnar.
Íslenskur repjuakur. Í gögnum frá The New York Times kemur fram að aukning á uppskerumagni á repju hefur verið svipuð í Vestur-Evrópu og Kanada frá 1995 – þegar erfðabreytt afbrigði repju voru kynnt til sögunnar.
Mynd / HKr.
Fréttir 12. desember 2016

Enginn marktækur ávinningur umfram hefðbundna ræktun

Höfundur: smh
Efasemdir eru um að árangurinn af ræktun á erfðabreyttum plöntuafbrigðum standist þær væntingar sem lagt var upp með. Í rannsókn sem Danny Hakim, blaðamaður The New York Times, hefur nýlega gert kemur í ljós að slík plöntuafbrigði hafa ekki aukið uppskerumagn í Bandaríkjunum og Kanada umfram það sem búast má við af hefðbundnum yrkjum. Þá hefur ekki  dregið úr eiturefnanotkun (e. pesticides) í landbúnaði með slík plöntuafbrigði þegar á heildina er litið.
 
Fyrirheit sem gefin voru um ávinninginn af erfðabreyttum plöntuafbrigðum voru tvenns konar. Annars vegar að með því að gera plönturnar ónæmar fyrir illgresiseyðum og ýmsum skaðvöldum, myndu þær verða svo öflugar að ekki væri hægt að sniðganga þær í þeirri baráttu að brauðfæða hinn sívaxandi fólksfjölda heimsins. Þá voru fyrirheit gefin um að færri tegundir eiturefna þyrfti að nota í ræktun á erfðabreyttum afbrigðum.
 
Fyrirheitin innistæðulaus
 
Raunar kemur í ljós þegar gögn eru skoðuð að á þessum 20 árum, sem liðin eru frá því að Bandaríkin og Kanada kynntu þessar erfðabreyttu ræktunartegundir til sögunnar, að fyrirheitin voru innistæðulaus. Í samantekt blaðsins, sem unnin er úr gögnum frá Sameinuðu þjóðunum, kemur fram að Bandaríkin og Kanada hafa ekki notið neins ávinnings af hinum erfðabreyttu ræktunarafbrigðum í uppskerumagni. Eru dæmi tekin um ræktun á maís, repju og rauðrófum (sugar beet).
 
Til að fá marktækan samanburð var árangurinn vestan hafs borinn saman við hefðbundinn nútímalegan landbúnað í Vestur-Evrópu, eins og stundaður er í Þýskalandi og Frakklandi. Auk gagna frá Sameinuðu þjóðunum er vísað til nýlegrar skýrslu National Academy of Sciences þar sem sams konar niðurstöður koma fram.
 
Á þessu 20 ára tímabili hefur notkun á illgresiseyðum aukist í Bandaríkjunum, jafnvel þótt undirstöðunytjajurtir eins og maís, sojabaunir og bómull, hafi færst yfir í erfðabreytt afbrigði. Bandaríkin hafa í raun ekki haldið í við Frakkland, sem framleiðir mest evrópskra þjóða af slíkum nytjajurtum, í því að draga úr notkun eiturefna í slíkum landbúnaði. Tölur frá United States Geological Survey sýna að frá því að erfðabreyttu plöntuafbrigðin maís, bómull og sojabaunir voru kynnt til sögunnar í Bandaríkjunum hefur notkun á eiturefnum, sem drepa sveppi og skordýr, dregist saman um þriðjung. Hins vegar hefur notkun á illgresiseyðum, sem mun meira er notað af, aukist um 21 prósent. Í Frakklandi hefur hins vegar notkun á sveppa- og skordýraeitri dregist saman um 65 prósent á sama tíma og illgresiseyðanotkun um 36 prósent.
 
Vísbendingar um skaðsemi eiturefnanna
 
Í umfjöllun blaðsins er tekið fram að flest haldbær vísindaleg gögn bendi til að neysla á erfðabreyttum matvælum sé skaðlaus. Hins vegar sé sjónum vísindamanna æ meira beint að hugsanlegum skaðlegum áhrifum af neyslu á eiturefnum sem notuð eru í landbúnaði, sem talið er að geti valdið krabbameinum og þroskahömlun í miðtaugakerfi barna. 
 
Hakim segir í grein sinni að framleiðendur erfðabreyttra ræktunarafbrigða njóti góðs af því að selja bæði fræin og eitrið sem bændur þurfa að nota þegar þeir gangast inn á að rækta þessi erfðabreyttu afbrigði.  Þetta fyrirkomulag leiði til gríðarlegs fjárhagslegs ávinnings fyrir stærstu fyrirtækin á þessu sviði í ljósi þess að notkun á illgresiseyðum virðist fara sífellt vaxandi í erfðabreyttri ræktun.
 
Robert T. Fraley, yfirmaður tæknimála hjá líftæknifyrirtækinu Monsanto, var inntur eftir áliti á niðurstöðum rannsóknar Hakim. Í svari hans kemur fram að blaðamaður hafi handvalið gögn í þeim tilgangi að sverta ímynd tækninnar. Bændur væru útsjónarsamir rekstraraðilar og þeir færu ekki að borga fyrir tækni sem þeir væru ekki vissir um hvort hefði mikinn ávinning í för með sér. Verkfæri líftækninnar hefði aukið uppskerumagn gríðarlega. Í yfirlýsingu frá Monsanto um notkun á illgresiseyðum, sem var birt með umfjöllun Hakim, kemur fram að þó það geti verið að slík notkun hafi aukist á sumum svæðum, þar sem bændur fylgja bestu leiðbeiningum til að halda illgresi niðri, hefur notkunin á öðrum svæðum staðið í stað eða dregist saman.
 
Hakim segir að erfðabreytt ræktunarafbrigði geti í sumum tilfellum gagnast vel. Oft sé vitnað til rannsókna Matin Qaim, við Georg-August háskólann í Göttingen í Þýskalandi, sem sýni það. Einkum hafi Qaim bent á mikinn ávinning af afbrigðum sem væru ónæm fyrir skordýrum (e. insect resistant) og eru notuð í þróunarlöndum – aðallega Indlandi. Hakim hefur eftir Qaim að hann efist þó um að erfðabreytt ræktun í Evrópu myndi hafa mikinn ávinning í för með sér. Varðandi erfðabreytt ræktunarafbrigði, sem eru ónæm gagnvart illgresiseyðum, segir Qaim, í viðtali við Hakim, að hann líti ekki á slík afbrigði sem einhver tækniundur sem ekki sé hægt að lifa án.
 
Monsanto segir erfðabreytta ræktun hluta af lausn vandans
 
Í bréfi til blaðsins, þann 11. nóvember síðastliðinn, segir Fraley enn fremur að ástæða þess að um 20 milljónir bænda um allan heim hafi fjárfest í þessari tækni sé að þeir hafi náð betri árangri með henni.
Umfangsmiklar óháðar rannsóknir hafi sýnt fram á ávinning bænda sem nota erfðabreytt ræktunarafbrigði. Hann felist í betri stjórn á illgresi og meindýrum í ræktuninni, dregið hafi úr notkun á skordýraeitri, dregið hafi úr jarðvegseyðingu og jarðvegur orðið heilbrigðari – auk þess sem uppskera hafi aukist. Á þeim 20 árum sem erfðabreytt ræktun hafi verið stunduð hefur uppskerumagn sojabauna aukist um 28 prósent og maís um nærri 32 prósent. Erfðabreytt ræktun er að mati Fraley mikilvægt tæki fyrir nútímalegan og sjálfbæran landbúnað. Þar sem búist sé við að fólksfjöldi í heiminum nái tíu milljörðum árið 2050 hafi bændur not fyrir alla hjálp sem er í boði til að hægt verði að framleiða meiri mat með sjálfbærum hætti. Erfðabreytt ræktun sé nauðsynlegur hluti af lausn vandans. 

Skylt efni: Erfðabreytt ræktun

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...