Evrópskir bændur uggandi
Mikil aukning á innflutningi á kjúklingakjöti og eggjum frá Úkraínu til landa Evrópusambandsins veldur evrópskum bændum áhyggjum.
Á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2023 var 94% meira alifuglakjöt sent frá Úkraínu til Evrópu en árinu áður. Umfangið nam rúmum 32.000 tonnum. Í frétt miðilsins Poultry World er þó sagt að eggjaútflutningur Úkraínu til Evrópusambandsins skyggi á kjötið. Aukningin þar er vel yfir 1000% á fyrstu tveimur mánuðum ársins.
Þessi mikla aukning hefur vakið umræður meðal evrópskra alifuglasamtaka sem segja að óhóflegur útflutningur á úkraínsku alifuglakjöti og eggjum geti ógnað staðbundinni framleiðslu.
„Vandamálið er að úkraínskir framleiðendur þurfa ekki að fara að gæða- og dýravelferðarstöðlum sem gilda í Evrópusambandinu. Fyrir vikið geta þeir framleitt mun ódýrar en við,“ er haft eftir Pawel Podstawka, formanni framkvæmdanefndar The Poultry Meat Promotion Fund. Undir þetta tekur Dariusz Goszczynski, forseti alifuglaframleiðenda í Póllandi, í fregn Poultry World og bendir á að næstum allur innflutningur á alifuglakjöti komi frá einu úkraínsku fyrirtæki, MHP.
„Frá júní 2022 hafa 700 vörubílar hlaðnir kjöti farið inn í Evrópusambandið í hverjum mánuði. Sumir þeirra fóru til Hollands, þar sem þetta fyrirtæki er með verksmiðjur sínar og eftir endurpakkningu var kjötinu dreift um ESB á verði sem var óframkvæmanlegt fyrir okkur,“ er haft eftir honum. Goszczynski tekur verðdæmi og segir að úkraínskar kjúklingabringur séu á markaði fyrir 13-14 pólsk zloty (pln) fyrir kíló, sem jafngildir 400-450 krónum, þegar pólskir framleiðendur ná ekki upp í kostnað ef verðið er undir 19 pln, eða um 600 kr.
Samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi Svavarssyni, formanni búgreinadeildar alifuglabænda, telst lágmarksverð fyrir heilan ferskan fugl um 800 kr/kg til að framleiðsla standa undir kostnaði hér á landi. Hreinar ferskar bringur í hefðbundnum búðapakkningum þurfa að kosta að lágmarki 2.000 kr/kg í heildsölu til að framleiðslan borgi sig.
Flutt voru inn rúm 120 tonn af úkraínsku kjúklingakjöti á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Meðalkílóaverð á því var 543 krónur samkvæmt tölum Hagstofunnar.