Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, og Gunnar Þorgeirsson formaður tóku á móti Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, við setningu Búnaðarþings 2022.
Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, og Gunnar Þorgeirsson formaður tóku á móti Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, við setningu Búnaðarþings 2022.
Mynd / HKr
Fréttir 7. apríl 2022

Fæðuöryggi og mikilvægi íslensks landbúnaðar á allra vörum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Yfirskrift Búnaðarþings 2022, er Framsýnn landbúnaður. Þingið var sett á Hótel Natura 31. mars með setningarræðu Gunnars Þorgeirssonar, formanns samtakanna. Auk Gunnars ávörpuðu forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson inn­viða­ráðherra og Eivind Haalien frá Nyt Norge þingið við setn­inguna.

Yfirskrift Búnaðarþingsins Framsýnn landbúnaður er ætlað að endurspegla þá vegferð Bændasamtakanna með sam­ein­uðum samtökum allra búgreina í landbúnaði.

Alvöru umræður um fæðuöryggi

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, sagði meðal annars í opnunarávarpi sínu, eftir að hafa boðið þinggesti velkomna, að efst á baugi á þinginu að þessu sinni yrði stefnumörkun Bænda­samtakanna og fjármögnun samtak­anna til frambúðar.

„Við vonumst hins vegar einnig eftir alvöru umræðum um fæðuöryggi í kjölfar erinda frá ráðamönnum þjóðarinnar. Aðgerðir til skamms og lengri tíma fyrir landbúnað sem undirstöðuatvinnugrein íslenskrar þjóðar eru nauðsynlegar.“

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, sagði við setningu Búnaðarþings 2022 að íslenskur land­búnaður sé grundvöllur byggð­ar um landið og fjölbreyttra atvinnutækifæra. Atvinnustarfsemin og búseta í sveitum kallar á að við séum samstíga og framsýn.

Gunnar sagði að íslenskur land­búnaður væri grundvöllur byggð­ar um landið og fjölbreyttra atvinnutækifæra. Atvinnustarfsemin og búseta í sveitum kallar á að við séum samstíga og framsýn. „Við viljum góðar samgöngur, fjarskipti, öruggt flutningskerfi raforku. Við þurfum einnig að vera samstíga í umhverfis- og loftslagsmálum og um menntun, rannsóknir og starfsskilyrði atvinnugreinarinnar. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að nú í fyrsta sinn verður á þessu þingi mótuð stefnumörkun fyrir samtökin og greinina og það er mín bjargfasta trú að stjórnvöld munu hafa stefnumörkun samtakanna hér eftir til hliðsjónar í sínum störfum og verkefnum.“

Hann benti á að í samþykktum Bændasamtaka Íslands kæmi skýrt fram að Bændasamtökin séu hagsmunasamtök sem rekin eru í þágu félagsmanna sinna, íslenskra bænda, og að hlutverk þeirra sem eru í forsvari fyrir atvinnugreinina sé að gæta hagsmuna bænda og fylgjast grannt með afkomu þeirra og rekstrarskilyrðum landbúnaðarins.

Undir lok ávarpsins sagði Gunnar: „Framtíð landbúnaðar er björt ef okkur lánast að standa saman um megináherslur íslensks landbúnaðar. Það er í okkar huga, sem stundum landbúnað, að framtíðarsýn stjórnvalda og bænda sé skýr svo við getum fjárfest í greininni til framtíðar.“

Margar áskoranir bíða ykkar

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannes­son, hóf ávarp sitt á því að óska þingfulltrúum og bændum velfarnaðar í starfi sínu og sagði meðal annars „[. . .] við getum mótað eigin samtíð og óráðna framtíð. Þótt við búum flest í borg eða bý mótast sjálfsmynd Íslendinga enn af arfi kynslóðanna, af lífi formæðra okkar og forfeðra til sjávar og sveita. Við viljum flest muna hvar ræturnar liggja. Þetta merkjum við af vinsældum sjónvarpsþátta og lífi í hinum dreifðari byggðum, Landanum, og í hinu víðlesna Bænda­blaði.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sagði að margar áskoranir biðu fulltrúa á Búnaðarþingi, m.a. hvernig við gætum tryggt að íslenskur landbúnaður eflist og dafni. Einnig hvað þurfi að halda í og hvað þurfi að hugsa upp á nýtt.

Ágætu þinggestir, margar áskoranir bíða ykkar og mörg álitaefni. Hvernig fáum við tryggt að íslenskur landbúnaður eflist og dafni, hvað þarf að halda í og hvað þarf að hugsa upp á nýtt? Hvernig eflum við sjálfbærni og vistvæn viðhorf í öllum búgreinum? Þurfum við að huga betur að fæðuöryggi landsins?“

Bændur eru vörslumenn landsins

Næstur til að ávarpa þingið var Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og hóf hann ræðu sína með því að segja að það væri alltaf ánægjulegt að vera viðstaddur Búnaðarþing og að það snerti hann í taugakerfið, enda taugarnar beintengdar þeirri atvinnugrein sem hér er í öndvegi – og sveitum landsins.

„Landbúnaður er ein af grund­vallar­atvinnugreinum lands­ins. Hann hefur eins og annað í þjóðlífinu gengið í gegnum mikið breytingaskeið – raunar má segja að öll tilvera okkar sé eilíft breytingaskeið – og hefur íslenskur landbúnaður orðið stöðugt fjölbreyttari eftir því sem samfélagið hefur orðið fjölbreyttara.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviða­ráðherra sagði m.a. í sinni ræðu að þegar fæðuöryggi ber á góma þá hafi sumir glott og litið á allt tal um fæðuöryggi sem hræðsluáróður.

Landbúnaður er og hefur verið grundvöllur byggðanna hringinn í kringum landið og bændurnir mikilvægustu vörslumenn landsins okkar.“

Því næst ræddi Sigurður um þá óstöðugu tíma sem við lifum á og sagði í framhaldinu: „Mér hefur í gegnum tíðina verið tíðrætt um fæðuöryggi. Ég hef orðið var við það að þegar fæðuöryggi ber á góma þá hafa sumir glott og litið á allt tal um fæðuöryggi sem hræðsluáróður til þess að bæta kjör bænda – eins og það væri nú eitt og sér hræðilegt að sjá kjör bænda vænkast.

Ég held að í heimsfaraldrinum hafi fleirum orðið ljóst að um alvöru vandamál er að ræða, orðið ljóst að t.a.m. vaxandi sýkla­lyfja­ónæmi getur, líkt og þessi agnarsmáa veira, haft lamandi og ófyrirsjáanleg áhrif á allan heiminn.“ [. . .] „Landbúnaðurinn stendur, eins og aðrar greinar, frammi fyrir tækifærum og áskorunum sem tengjast loftslagsmálum. Landbúnaðurinn er mikilvægur hluti af því að við uppfyllum þau markmið sem við höfum sett okkur.“

Fæðuöryggi er grundvöllur sjálfstæðra þjóða

Svandís Svavarsdóttir matvæla­ráðherra sagði meðal annars í sínu ávarpi að: „Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar er mikið nesti fyrir mig sem matvælaráðherra um hvert skal stefna í landbúnaðarmálum. Við viljum setja metnaðarfull markmið um að auka hlutfall hollra og næringarríkra matvæla. Um að auka sjálfbærni og fæðuöryggi. Um hvernig við styrkjum og fjölgum stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar. Sýn þessarar ríkisstjórnar er að efla landbúnaðinn.“

Því næst ræddi hún um núverandi stöðu í heimsmálunum og sagði að núverandi staða sýndi að fæðuöryggi er grundvöllur sjálfstæðra þjóða.

Svandís Svavarsdóttir matvæla­ráðherra sagði meðal annars í sínu ávarpi að ríkisstjórnin vilji setja metnaðarfull markmið um að auka hlutfall hollra og næringarríkra matvæla og að auka sjálfbærni og fæðuöryggi þjóðarinnar.

„Á tímum sem þessum er land­búnaðurinn miðlægur í að takast á við breyttar aðstæður. Landbúnaðurinn hér á landi sér þjóðinni fyrir mestu því kjöti og mjólkurvörum sem við neytum en sóknarfæri eru víðar. Við þurfum að spyrja okkur hvað við getum gert meira. Grænmetið, kornið og áburðurinn.

Landbúnaðurinn er of mikilvægur til þess að vera í vörn. Hann verður að vera í sókn og hefur til þess alla burði.

Til þess að meira verði framleitt þarf að vera efnahagslegur grundvöllur. Það þarf að vera afkoma, það þarf að vera hægt að lifa með reisn af því að framleiða mat. Þar eru víða sóknarfæri og búgreinarnar standa misjafnlega. Í því samfélagi jafnaðar sem við viljum skapa verða kjör bænda að standast samanburð.“ [. . .]

„Við munum setja okkur metnaðarfull markmið í því að auka fæðuöryggi með því að auka framleiðslu á korni hér á landi. Ég hef þá trú að til þess að við náum árangri í loftslagsmálum þurfa stuðningskerfin að verðlauna árangur. Þannig virkjum við búvit bænda til þess að ná árangri betur en með boðum og bönnum. Við þurfum græn skref í átt að fæðuöryggi.“

Reynslan af Nyt Norge góð

Síðastur til að ávarpa Búnaðarþing við setningu þess var Norðmaðurinn Eivind Haalien frá Nyt Norge, sem er norskt upprunamerki fyrir þarlend matvæli, líkt og Staðfest íslenskt er ætlað að vera fyrir íslensk matvæli.
Í erindi sínu fór Eivind yfir sögu merkisins Nyt Norge, hugmyndina að baki því, fjármögnun, markaðs­setningu og reynslu. Í dag er merkið notað af 120 fyrirtækjum á 4.600 landbúnaðarvörur.

Að sögn Eivind hefur reynsla af Nyt Norge verið mjög góð og sífellt fleiri aðilar sem kjósa að nota merkið og hann segist ekki efast um að svo verði einnig með Staðfest íslenskt.

Eivind Haalien frá Nyt Norge ávarpaði Búnaðarþing og kynnti sögu upprunamerkinga matvæla í Noregi.

Skylt efni: Búnaðarþing 2022

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...