Fallið frá verðbreytingu til lækkunar á verði nautgripa
Sláturfélag Suðurlands hefur endurmetið forsendur verðlækkunar á nautgripum sem átti að taka gildi 18. janúar næstkomandi og ákveðið að falla frá lækkuninni.
Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, segir að staða á kjötmarkaði sé erfið og miklar birgðir til. „Birgðir af dilkakjöti í lok nóvember voru 900 tonnum meiri en á sama tíma í fyrra. Það eru ekki til opinberar upplýsingar um nautakjötsbirgðir í landinu þar sem afurðastöðvarnar gefa þær ekki upp.“
Hann segir að í heildina sé samdráttur á kjötmarkaði og að heildarneysla á kjöti í landinu hafi minnkað og innflutningur á nautakjöti líka í tengslum við COVID-19.
Steinþór segir að ákvörðun SS um að draga verðbreytinguna til baka byggi á mörgum ólíkum forsendum. „Svona ákvörðun byggir á mörgum ólíkum þáttum eins og rekstrarleg staða, væntingar um þróun á markaði og að sjálfsögðu skipta viðhorf bænda máli líka og svo skipta menn um skoðun ef forsendur breytast. Okkar skoðun núna, eftir að hafa endurmetið forsendurnar, er að falla frá verðbreytingunni,“ segir Steinþór.