Fá 200 matarskammta daglega frá Reykjavík
Sveitarfélagið Bláskógabyggð hefur gert samning við Matartímann, sem er í eigu Sölufélags garðyrkjumanna, um mat fyrir mötuneytið í Aratungu.
Erfiðlega hefur gengið að ráða matráð í Aratungu að sögn Ástu Stefánsdóttur, sveitarstjóra Bláskógarbyggðar.
„Tækifæri fólust í því að nýta ferðir grænmetisbílsins, sem kemur alla morgna í Reykholt að sækja afurðir til garðyrkjubænda, og fá máltíðir sendar frá Reykjavík.“
Um 200 manns borða í mötuneytinu í Aratungu þegar mest er, börn í leik- og grunnskóla í Reykholti, starfsmenn og eldri borgarar.
Auk þess er nokkuð um að eldri borgarar fái mat sendan heim. Um er að ræða bæði tilbúna rétti, sem starfsfólk sveitarfélagsins sér um að hita og einnig hráefni tilbúið til eldunar á staðnum.