Fé kemur vænt af fjalli
Trausti Hjálmarsson, formaður deildar sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands, segir að fé sitt komi vænt af fjalli.
Bændablaðið náði tali af honum í smalamennsku, en hann er sauðfjárbóndi í Austurhlíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og réttar í Biskupstungnaréttum.
„Mér sýnist fé hér almennt koma vænt af fjalli, það lítur út fyrir að vera í góðu meðallagi,“ segir Trausti. Hann hafði ekki haft fregnir af fé í öðrum landshlutum en vonaði að sumarið hefði farið vel með fé og það kæmi vel út í öllum landshlutum.
Aðspurður hvernig gengi að manna göngurnar sagði hann að það gengi vel. „Það er alltaf ásókn í þetta af fólki sem hefur gaman af að koma og taka þátt í þeirri upplifun sem göngurnar eru, að vera úti í náttúrunni og smala fé heim af fjalli.“
Að sama skapi segir Trausti það alltaf vera jafn vinsælt meðal almennings að mæta í réttir. „Í fyrra var fyrsta árið eftir að Covidhömlum var aflétt og mæting í réttir meðal almennings var góð. Ég held að það verði lítið gefið eftir í ár. Við vonumst allavega til þess að sem flestir mæti og gleðjist með okkur.
Ég óska sauðfjárbændum öllum alls hins besta og vona að sumarið hafi farið vel með féð.“