Félag eyfirskra kúbænda gagnrýnir harðlega framgöngu landbúnaðarráðherra
Stjórn Félags eyfirskra kúabænda (FEK) hefur sent frá sér tilkynningu þar sem framganga Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra, í vegferð hennar að breyttum búvörulögum, er gagnrýnd harðlega.
„Á fjölmennum aðalfundi FEK í Hlíðarbæ á dögunum fullyrti Þorgerður að samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga myndi fjalla efnislega um þau atriði sem hún hefur nú sett inn í drög að nýju frumvarpi til breytinga á búvörulögum. Engar greiningar liggja fyrir um hvaða áhrif boðaðar breytingar munu hafa á verðþróun mjólkurafurða en ljóst er að jafn róttæk stefnubreyting og hér er um að ræða mun hafa afleiðingar inn í verðlagningu þeirra og mögulega hækka verð til neytenda. Stjórn Félags eyfirskra kúabænda harmar að ráðherra skuli ekki standa við orð sín og velji að sniðganga vilja alþingis og taka þessi efnisatriði út úr endurskoðunar vinnu samráðshópsins. Ennfremur telur stjórn FEK ámælisvert að ráðherrann vilji ekki hafa samráð við forystu bænda um fyrirhugaðar breytingar, líkt og hún hefur áður sagt.
FEK skorar á önnur undirfélög Landsambands Kúabænda að taka afstöðu til málsins,“ segir í tilkynningunni.