Félagasamtök vilja kaupa barna- og leikskólann á Eiðum
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Bæjarráð Fljótsdalshéraðs hefur falið bæjarstjóra að ræða við tvö félagasamtök í Eiðaþinghá sem vilja kaupa gamla barna- og leikskólann á Eiðum. Félagasamtökin eru Búnaðarfélag Eiðaþinghár og Kvenfélag Eiðaþinghár. Tilboð félaganna tveggja í skólahúsnæðið nemur 23 milljónum króna.
Farið var yfir drög að kaupsamningi við félögin á fundi bæjarráðs á dögunum en jafnframt voru lögð fram drög að samningi um afnot af íþróttasvæðinu á Eiðum sem og drög að samningi um fjarvarmaveituna sem staðsett er í húsnæði barnaskólans og lok starfsemi hennar.
Á fundinum var bæjarstjóra veitt umboð til að ganga frá og undirrita samningana með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.
Afnot af íþróttavelli gegn því að hirða hann
Í tilboði búnaðarfélagsins og kvenfélagsins er einnig óskað eftir afnotum af íþróttavellinum sem fyrir er á Eiðum gegn því að félögin sjái um að hirða hann. Völlurinn hefur verið í eigu sveitarfélagsins um árabil, en í umsjá UÍA. Félögin tvö hafa hug á að reka ferðaþjónustu í hluta húsanna sem fyrir eru á staðnum og nýta það að auki sem félagsaðstöðu fyrir nærsamfélagið.