Fimm verkefni fá styrki upp á 10 milljónir króna
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra hefur úthlutað 10 milljónum króna í styrkvilyrði til atvinnuþróunar og nýsköpunarverkefna á starfssvæði Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Þetta var síðari úthlutun ársins 2015, en áður var úthlutað í júní sl. Tólf umsóknir bárust en fimm verkefni hlutu styrkvilyrði.
Þau verkefni sem hlutu styrk að þessu sinni eru Austurgátt/Fly Europe sem hlaut vilyrði fyrir 3,5 milljónum króna, en verkefnið lýtur að millilandaflugi milli Egilsstaða og London og hefst það næsta vor á vegum Discover the World í samstarfi við Tanni Travel og Fjallasýn Rúnars Óskarssonar ehf. sem er umsækjandi. Markmiðið er að stuðla að millilandaflugi um aðra flugvelli en Keflavík á ársgrundvelli í framtíðinni og efla þannig ferðaþjónustu og atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi.
Hagkvæmni próteinverksmiðju könnuð
Verkefnið Próteinmjöl úr jarðhita fékk vilyrði fyrir þremur milljónum króna, en það felst í að þróa aðferð til að vinna próteinríkt fóðurmjöl úr kolefnisútblæstri frá jarðhitavirkjunum. Umsækjandi er nýsköpunarfyrirtækið Geo-Protein ehf., sem í samstarfi við Landsvirkjun undirbýr og kannar hagkvæmni á uppsetningu tilraunaverksmiðju við Kröfluvirkjun.
Heimaslóð hlýtur kr. 1,5 milljónir í styrkvilyrði. Heimaslóð er tímabundið átaksverkefni um að efla búskap og stuðla að jákvæðri þróun í landbúnaði í Þingeyjarsýslu. Umsækjandi er BSSÞ í samstarfi við BSNÞ, búgreinasamtök í Þingeyjarsýslu, Sparisjóð Suður-Þingeyinga, RML og AÞ.
Fuglahátíð á Húsavík
Twin town bird festival: Vardö-Húsavík hlaut eina milljón króna í styrkvilyrði. Verkefnið snýst um að efna til fuglahátíðar á Húsavík í beinu framhaldi af fuglahátíðinni Gullfest í Varanger í Noregi. Að verkefninu stendur Fuglastígur á Norðausturlandi í samstarfi við Biotope, forsvarsmenn Gullfest og Norðurþing. Markmiðið er að styrkja ímynd Norðausturlands sem fuglaskoðunarsvæði á heimsvísu.
Mýsköpun: Markaðssetning og kynningarátak erlendis hlýtur kr. 1.000.000 styrkvilyrði. Mýsköpun vinnur að því að koma upp þörungaverksmiðju í Mývatnssveit og felst þetta verkefni í því að koma á tengslum við stofnanir og fyrirtæki erlendis sem eru framarlega á því sviði.
Sem fyrr segir bárust tólf umsóknir nú og sótt var um tæplega 27 milljónir til verkefna með áætlaðan heildarkostnað um 67 milljónir, en til ráðstöfunar voru 10 milljónir.