Fjallskil
Búnaðarþing hefur samþykkt ályktun um að sveitarstjórnir á landinu öllu gæti þess að fara eftir og framfylgja öllum ákvæðum sem að þeim snúa í lögum nr. 6/1986 um afréttarmálefni og fjallskil þannig að fjallskil verði fullnægjandi í hverju sveitarfélagi.
Stjórn BÍ er falið að kanna hvar á landinu fjallskilum er helst ábótavant og hlutist til um að sveitarfélög sem þar eiga hlut að máli framfylgi skyldum sínum með tillögum til úrbóta.
Stjórn BÍ vinni í samstarfi við búnaðarsambönd eða búgreinafélög að því að fá upplýsingar á landsvísu fyrir haustið. Þar sem ábótavant er verði sveitarfélögum send áskorun um úrbætur.
Í greinargerð með ályktuninni segir að víða um land eru heimtur ekki nægilega góðar, og verið að heimta fé fram eftir vetri. Með fækkun íbúa í sveitum er þekking á smalamennsku að minnka og auk þess hafa sum sveitarfélög fækkað dagsverkum við smölun. Þetta leiðir til vandræða.