Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fjöldi breytinga sem bændur þurfa að kynna sér
Fréttir 12. janúar 2017

Fjöldi breytinga sem bændur þurfa að kynna sér

Höfundur: Vilmundur Hansen

Um áramótin tóku í gildi margar breytingar á reglugerðum í tengslum við nýju búvörusamningana og rammasamning ríkis og bænda. Reglugerðarbreytingarnar hafa talsverð áhrif á útgreiðslur stuðningsgreiðslna til bænda og margt sem þeir þurfa að kynna sér í framhaldi af þeim.

Jón Baldur Lorange, framkvæmdastjóri Búnaðarstofu Matvælastofnunar, segir að breytingarnar taki til nánast allra greina í landbúnaði en minnst í garðyrkju.

„Samhliða reglugerðabreytingunum, sem varð að gera vegna nýrra búvörusamninga, er búið að einfalda þær, færa viðauka inn í reglugerðirnar sjálfar með kaflaskiptingu eftir efnisflokkum, og gera þær heildstæðari og ítarlegri en áður var. Reglugerðirnar skiptast í reglugerð um stuðning í nautgriparækt, stuðning í sauðfjárrækt, stuðning í garðyrkju og reglugerð um almennan stuðning í landbúnaði.

Búvörusamningarnir sem tóku gildi um áramót fela í sér umtalsverðar breytingar á landbúnaðarstefnu stjórnvalda og það  endurspeglast í þeim reglugerðum sem hafa tekið gildi og hefur talsverð áhrif  á útgreiðslur stuðningsgreiðslna til bænda og margt sem þeir þurfa að kynna sér í framhaldi af þeim.“

Fyrstu breytingar þegar í framkvæmd

Jón Baldur segir að starfsfólk Búnaðarstofu Matvælastofnunar sé þessa dagana að innleiða nýju búvörusamningana og reglugerðabreytingarnar sem þeim fylgja. Það sé þó umfangsmikið verkefni, enda um að ræða fjórar reglugerðir ásamt breytingarreglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, alls um 40 blaðsíður, sem að mestu varða verkefni Matvælastofnunar.

„Fyrstu áhrif breytinganna voru 2. janúar þegar Matvælastofnun greiddi út beingreiðslur í mjólk og daginn eftir þegar við greiddum út gripagreiðslur til kúabænda. Gripagreiðslur hækkuðu töluvert um áramótin vegna hærra framlags miðað við árið á undan. Þá komu til breytingar á því hvað teljast vera árskýr. Nú er aðeins greitt fyrir mjólkurkýr og holdakýr sem borið hafa a.m.k. annað hvert ár. Við það fækkaði heildarfjölda árskúa í útreikningi.  Fjöldi mjólkurkúa sem greitt var fyrir eftir 1. janúar var 25.169 en var í desember á síðasta ári 27.429. Fjöldi holdakúa sem greiðslur fást fyrir í janúar  var 1.308 árskýr en voru í desember 2016 tæplega 1.600. Gripagreiðslur fyrir  hverja mjólkurkú er núna 3.911 krónur en var 1.974 krónur. Fyrir hverja holdakú var nú greitt 9.076 krónur en var áður tæplega 4.000 krónur.
Árskúm sem greitt er fyrir hefur því fækkað en greiðslur fyrir hverja  árskú aftur á móti hækkað.“

Innlausn á greiðslumarki

Matvælastofnun auglýsti innlausnarvirði greiðslumarks í sauðfé á heimasíðu sinni þann 6. janúar síðastliðinn, Innlausnarvirðið er 12.480 krónur fyrir hvert ærgildi, núvirt andvirði beingreiðslna tveggja næstu almanaksára. Handhafi greiðslumarks getur óskað eftir innlausn á greiðslumarki sínu í sauðfé með því að fylla út rafrænt eyðublað á þjónustugátt Matvælastofnunar eigi síðar en 20. janúar á því ári sem innlausn á að fara fram, og fær það greitt eigi síðar en 15. febrúar á innlausnarári.

Ríkinu er einnig skylt að innleysa mjólkurkvóta af bændum vilji þeir selja hann. Innlausnardagar fyrir mjólk eru fjórum sinnum á ári, tveir fyrri hluta ársins og tveir á seinni hluta þess og verður sá fyrsti 1. mars næstkomandi og er innlausnarverðið 138 krónur á lítra árið 2017, tvöfalt núvirt andvirði greiðslna út á greiðslumark út gildistíma samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar. Matvælastofnun annast innlausn og sölu greiðslumarks.

Jón Baldur segir að eftir að Matvælastofnun hafi innleyst til sín greiðslumarkið eigi stofnunin að annast  úthlutun þess aftur til þeirra kúabænda sem óska eftir að kaupa greiðslumark. Unnið sé samkvæmt ákveðnum reglum sem settar eru í 10. gr. reglugerðar um stuðning við nautgriparækt nr. 1150/2016 þar sem m.a. komi fram að greiðslumarkið sé boðið á sama verði og ríkið greiddi fyrir það og þá njóti nýliðar og þeir sem framleiddu mjólk a.m.k. 10% umfram greiðslumark á árunum 2013–2015 forgangs að kaupum sbr. nánari útfærslu í reglugerð.

„Þessi tilhögun kemur í staðinn fyrir kvótamarkaði fyrir mjólk sem var lagður niður með nýjum búvörusamningum, en síðasti kvótamarkaður var haldinn 1. nóvember á síðasta ári. “

Skilyrði fyrir greiðslum

„Annað sem einnig hefur tekið gildi og skiptir miklu máli fyrir alla bændur er hvaða skilyrði menn verða að uppfylla til að njóta stuðnings frá ríkinu.

Bændur þurfa að vera skráðir eigendur eða leigjendur á lögbýli og stunda landbúnað á lögbýlinu. Atvinnuflokkunarnúmer verður að vera rétt samkvæmt skattskýrslu og virðisaukaskattsnúmer verður að vera virkt. Hjón geta hér eftir einnig skipt greiðslum jafnt á milli sín, sem er nýmæli í þessum samningum.

Auk þess er skilyrði að bændur séu þátttakendur í afurðaskýrsluhaldi í nautgriparækt, sauðfjárrækt eða jarðrækt, eftir því sem við á, og standi skil á fullnægjandi afurðaskýrsluhaldi í þar til gerðu skýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands. Í reglugerðum eru tilgreindar þær upplýsingar sem bændur þurfa að skila og skiladagsetningar og einnig eru ákvæði um með hvaða hætti stuðningsgreiðslum er frestað eða jafnvel felldar niður, ef bændur sem þiggja stuðning frá ríkinu, standa ekki skil á lögbundnu skýrsluhaldi.“

Skýrsluhaldskerfin eru Fjárvís í sauðfjárrækt, Huppa í nautgriparækt og Jörð í jarðrækt.

Bændur sem hafa tekið þátt í afurðaskýrsluhaldi eru ekki að finna fyrir miklum breytingum, en vissulega eru hér auknar kröfur á þá, sem það hafa ekki gert. Rétt er að undirstrika að ekki er nóg að skila inn hjarðbók samkvæmt reglugerð um merkingar búfjár nr. 916/2012, heldur þarf að hefja þátttöku í afurðaskýrslu­haldinu frá og með áramótum, og á það jafnt við um bændur sem eru í mjólkur- og kjötframleiðslu. Þá er enn fremur skilyrði fyrir greiðslum að hafa skilað inn fullnægjandi haustskýrslu, forðagæsluskýrslu, árið á undan, til að njóta stuðningsgreiðslna árið eftir. 

Nýtt kjötflokkunarkerfi í nautgriparækt

„Annað sem er nýtt í sambandi við nautgriparæktina er að um áramótin tók í gildi svokallað EUROP-gæðaflokkunarkerfi. Sláturhús eiga að skila inn sláturupplýsingum til Matvælastofnunar í samræmi við þetta nýja kerfi frá og með áramótum. Nýja flokkunarkerfinu fylgir ný tegund stuðningsgreiðslu fyrir nautgripabændur, sláturálag, sem er út á nautakjöt þar sem lágmarksþyngd grips er 250 kg, nautakjöt falli ekki í EUROP gæðaflokk P og P-, og að gripur sé yngri en 30 mánaða gamall.

Matvælastofnun skal ráðstafa greiðslum til framleiðenda í fjórum jöfnum hlutum í maí, ágúst, nóvember ár hvert og febrúar árið á eftir og skipta þeir með sér greiðslum úr ¼ hluta heildarframlaga hvers árs, eins og segir í reglugerð um stuðning við nautgriparækt.“

Gæðastýring í sauðfjárrækt

„Hvað gæðastýringu í sauðfjárrækt varðar þá er núna bannað að nota erfðabreytt fóður í sauðfjárrækt og skal skrá alla fóðurnotkun og kaup í rafræna gæðastýringarhandbók búsins, sem Matvælastofnun ber að hafa eftirlit með.

Annað sem líka er nýtt fyrir sauðfjárræktina er að Matvælastofnun skal útbúa rafræna gæðahandbók sem bændur eiga að færa í skráningaskyldar upplýsingar. Það hefur í för með sér að gæðastýringarmöppurnar, sem bændur hafa verið að handskrifa í, falla úr gildi. Aðeins þeir sem skila inn fullnægjandi rafrænni gæðahandbók vegna framleiðsluársins 2017 uppfylla þá skilyrði gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu og eiga rétt á gæðastýringargreiðslu.

Dagsetningar á skiladögum vor- og haustbóka skýrsluhaldsins í sauðfjárrækt er einnig að breytast og eru núna 20. ágúst fyrir vorbók og 12. desember fyrir haustbók. Bið ég bændur að hafa þetta í huga.“

Ársáætlun um heildargreiðslur allra framleiðenda

„Fyrir 15. febrúar ár hvert ber Matvælastofnun að gera  ársáætlun um heildarframlög til hvers sauðfjárbónda. Heildargreiðslur taka til beingreiðslna, gæðastýringargreiðslna, greiðslna fyrir ullarnýtingu og greiðslna vegna svæðisbundins stuðnings. Fyrir þann tíma þarf að liggja fyrir hvort bændur hafi uppfyllt skilyrði um afurðaskýrsluhaldið árið á undan, hvort þeir hafi uppfyllt öll skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, hafi skilað haustskýrslu í Bústofni og uppfylli skilyrði reglugerðar um merkingar búfjár.

Allar greiðslurnar verða sem sagt settar saman í einn pott og hann greiddur út í jöfnum greiðslum mánaðarlega á tólf mánuðum og síðan er heildaruppgjör í febrúar árið eftir,“ segir Jón Baldur Lorange, framkvæmdastjóri Búnaðarstofu Matvælastofnunar.

Nánari upplýsingar um lög og reglugerðir í tengslum við búvörusamningana má nálgast á heimasíðu Matvælastofnunar undir lög og reglugerðir. Jafnframt er búið að setja rafræn eyðublöð/umsóknir í tengslum við framkvæmd samninganna í þjónustugátt MAST.

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...