Fjölhæfir afkvæmafeður
Spuni frá Vesturkoti á flest afkvæmi í keppnishluta Landsmóts hestamanna í ár.
Alls koma 15 afkvæmi hans fram í gæðinga eða íþróttahluta mótsins. Stáli frá Kjarri á næstflest afkvæmi, fjórtán talsins. Þá er Arður frá Brautarholti einnig atkvæðamikill gæðingafaðir, en þrettán afkvæmi hans eru skráð til leiks. Loki frá Selfossi á einnig þrettán afkvæmi á mótinu en auk þess mun hann sjálfur spreyta sig í B flokki gæðinga.
Ellefu afkvæmi Óms frá Kvistum mæta í keppnisbrautina og tíu afkvæmi heiðursverðlaunastóðhestsins Álfs frá Selfossi. Trymbill frá Stóra Ási á einnig tíu afkvæmi í hópi keppnishesta og mun sjálfur koma fram í gæðingaskeiði.
Sex mætir stóðhestar eiga átta afkvæmi í keppnishluta mótsins, þeir Arion frá Eystra-Fróðholti, Framherji frá Flagbjarnarholti, Gaumur frá Auðsholtshjáleigu, Hágangur frá Narfastöðum, Hrannar frá Flugumýri II og Hróður frá Refsstöðum.