Fjósið í Flatey á Mýrum opnað ferðamönnum smátt og smátt
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Eitt stærsta fjós landsins, ef ekki það stærsta, verður opnað ferðamönnum smátt og smátt. Það er í Flatey á Mýrum sem er í eigu útgerðarfyrirtækisins Skinneyjar Þinganes á Höfn í Hornafirði.
Fjósið er aðdráttarafl fyrir ferðafólk og mjög aðgengilegt með svölum sem snúa að fjósinu með góðri sýn yfir það. Byggingaframkvæmdir fyrir móttöku og veitingasölu ganga vel en móttaka á ferðafólki hefst á næstu vikum með aðstöðu fyrir þrjú ferðaþjónustufyrirtæki. Það eru Ice Guide (kajakferðir /íshellar), Glacier Journey (jeppa- og sleðaferðir) og Ice Explorers (jeppaferðir). Veitingasalan og aðstaðan fyrir ferðamenn til að skoða fjósið verður ekki opnuð alveg strax.
Þá stendur til að fara í repjurækt og skógrækt á jörðinni. Um 240 kýr eru á búinu þar sem fjórir róbótar sjá um að mjólka kýrnar.