Flugið í ESB-löndum 2018 samsvarar því að hver einasti íbúi hafi farið í tvær flugferðir
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Þrátt fyrir allt tal og kröfur um nauðsyn þess að berjast gegn losun gróðurhúsalofttegunda og mikinn fjölda alls konar ráðstefna og funda þar sem þau mál ber á góma, þá fer flugfarþegum í löndum Evrópusambandsins ört fjölgandi. Á árinu 2018 samsvaraði farþegafjöldinn í ESB-löndum því að hver einasti íbúi Evrópusambandsins hafi farið í tvær flugferðir það ár og rúmlega það.
Árið 2010 voru flugfarþegar í löndum Evrópusambandsins 776 milljónir samkvæmt tölum Eurostat, en fóru yfir milljarð árið 2017. Á árinu 2018 fjölgaði þeim enn og voru þá 1.106 milljónir talsins en íbúarnir um 513 milljónir. Nam fjölgun farþega um 6% frá 2017 og hefur flugfarþegum í ESB-löndunum fjölgað frá 2010 um 43%. Af heildar farþegafjöldanum voru 46% að fljúga milli flugvalla í ESB-löndunum og 37% til og frá öðrum löndum í Evrópu. Um 16% farþeganna var að fljúga til og frá öðrum heimsálfum, eða rétt rúmlega sjötti hver farþegi.
Yfir 10 milljónir flugfarþega á Íslandi og langmesta fjölgunin innan Evrópu
Í gögnum Eurostat kemur líka fram að um þrjá millilandaflugvelli á Íslandi, þ.e. Keflavík, Akureyri og Reykjavík, hafi farið 10.166.000 farþegar 2018 sem var 22,3% aukning frá 2017. Það var jafnframt langmesta aukning farþega í löndum innan Evrópu, en af þessum fjölda voru rúmlega 9,8 milljónir í flugi milli landa.
Langflestir fara um Heathrow-flugvöll í London
Annasamasti flugvöllur Evrópu er Heathrow í London en um hann fóru 80 milljónir farþega á síðasta ári. Þar var aukningin 3% frá 2017 til 2018, en um 48 milljónir af þessum farþegum flugu á leiðum innan Evrópu. Næst kom Charles de Gaulle-flugvöllur í París með 72 milljónir farþega og 4% aukningu, þá Schiphol-flugvöllur í Amsterdam í Hollandi með 71 milljón farþega og 4% aukningu, Frankfurt Main-flugvöllurinn í þýskalandi var þá með 69 milljónir farþega og 8% aukningu og í fimmta sæti var Barajes-flugvöllur í Madrid á Spáni með 56 milljónir farþega og 9% aukningu á milli ára.
Næst þar á eftir kom El Prat-flugvöllur í Barselóna á Spáni með 50 milljónir farþega og 6% aukningu á milli ára. Því næst flugvöllurinn í München með 46 milljónir fraþega og 4% aukningu. Þá kom Gatwick í London með 46 milljónir farþega og 1% aukningu. Síðan Liumicino flugvöllur í Róm með 43 milljónir farþega og 5% aukningu. Í tíunda sæti var svo Orly-flugvöllur í París með 33 milljónir farþega og aukningu á milli ára upp á 3%.
Miðað við þetta kemur ekki á óvart að Bretland var með flesta flugfarþega á síðasta ári, eða um 272 milljónir. Næst kom Þýskaland með 222 milljónir, Spánn var með 221 milljón, Frakkland með 162 milljónir og Ítalía var í fimmta sæti með 153 milljónir flugfarþega.
Af 30 umferðarmestu flugvöllum í ESB-ríkjunum státuðu allir nema flugvöllurinn í Hamborg og Düsseldorf af aukningu flugfarþega á milli áranna 2017 til 2018. Í Hamborg fækkaði um 2% og um 1% í Düsseldorf.
Mesta fjölgun flugfarþega innan ESB var í Búdapest
Mesta fjölgun flugfarþega í ESB-löndum milli ára var um Liszt Ferenc flugvöll í Búdapest í Ungverjalandi, en þar fjölgaði farþegum um 14%. Þá fjölgaði farþegum á Chopina-flugvelli í Varsjá í Póllandi um 13%. Á flugvöllunum Eleftherios Venizelos í Aþenu í Grikklandi, Schwechat-flugvelli í Vín í Austurríki og á Vantaa-flugvelli í Helskinki í Finnlandi fjölgaði farþegum um 11% á síðasta ári. Þá fjölgaði farþegum um 10% á Malpensa-flugvelli í Mílanó á Ítalíu. Eins fjölgaði um 9% á Ruzyne-flugvelli í Prag í Tékklandi, Lisboa-flugvelli í Lisabon í Portúgal og á Barajas-flugvelli í Madrid á Spáni.