Fólk er hvatt til að fara saman í sturtu
Þurrkar undanfarnar vikur hafa gengið svo á vatnsból Sydney í Ástralíu að borgaryfirvöld hafa gripið til þess að skammta vatn. Vatnsbirgðir eru þær minnstu frá 1940, eða 53,5% af því sem er í meðalári.
Vegna vatnsskorts hafa yfirvöld beðið fólk að draga úr vökvun grasflata, að fylla ekki sundlaugar og fara saman í sturtu til að spara vatn. Hitar hafa verið miklir í Ástralíu undanfarnar vikur og er talið að hitinn eigi eftir að aukast enn meira á næstunni.
Yfirvöld í Sydney segja nauðsynlegt að draga úr vatnsnotkuninni til að koma í veg fyrir vatnsskort seinna á árinu þar sem veðurfræðingar spá minni úrkomu í ár en í meðalári.