Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Óskar Magnússon, formaður Landssamtaka landeigenda á Íslandi, segir að í frumvarpsdrögum til breytingar á náttúruverndarlögum nr. 60 frá 2013 reki sig hvað á annars horn.
Óskar Magnússon, formaður Landssamtaka landeigenda á Íslandi, segir að í frumvarpsdrögum til breytingar á náttúruverndarlögum nr. 60 frá 2013 reki sig hvað á annars horn.
Mynd / HKr.
Fréttir 1. apríl 2019

Fólki er freklega misboðið að það er sífellt verið að ganga meira á rétt landeigenda

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Aðalfundur Landssamtaka land­eigenda á Íslandi (LLÍ) var haldinn á Hótel Sögu þann 14. mars síðastliðinn og þar var samþykkt harðorð ályktun um drög að frumvarpi umhverfis- og auðlindaráherra til breytinga á náttúruverndarlögum nr. 60 frá 2013.
 
LLÍ gera alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar og telja að verði þær að lögum muni á ný skapast fullkomið ófremdarástand á fjölsóttum ferðamannastöðum, eignarréttur landeigenda verði fótum troðinn og misskilinn almannaréttur sé gerður rétthærri en stjórnarskrárvarinn eignarréttindi.
 
Stjórn endurkjörin
 
Um 400 manns eru nú í Lands­samtökum landeigenda á Íslandi og hefur farið fjölgandi. Á aðalfundi félagsins var stjórnin endurkjörin, en í henni sitja Óskar Magnússon á Sámsstaðabakka, sem er formaður, Sigurður Jónsson í Eyvindartungu, Guðrún María Valgeirsdóttir í Reykjahlíð, Björn Magnússon að Hólabaki og Örn Bergsson á Hofi í Öræfum og fyrrverandi formaður. Varastjórn skipa þau Snorri H. Jóhannesson, Erlendur Ingvarsson, Þórólfur Sveinsson, Haukur Halldórsson og Elín Líndal. 
 
Fólki er freklega misboðið –  óþarfa breytingar á lögum
 
Óskar Magnússon, formaður félagsins, sagði í samtali við Bændablaðið að í meginatriðum sé verið að breyta tveim atriðum sem sé hreinn óþarfi að breyta. 
 
„Fólki er freklega misboðið því að það sé sífellt verið að ganga meira á rétt landeigenda. Við teljum að það sé ekkert voðalegt ófremdarástand í þessum málum. Við hefðum þó viljað gera greinilegri og skýrari rétt landeigenda til þess að takmarka för um land sitt.
 
Þau ákvæði, sem hefur verið beitt að undanförnu, hafa langleiðina dugað að mestu, þótt nýlega sé fallinn héraðsdómur þar sem réttur landeigenda er fyrir borð borinn. Þar virðist ekki vera nógu sterk ákvæði til að banna hópferðir niður að flugvélaflaki á Sólheimasandi þótt landið sé í einkaeigu og landeigendur stundi sjálfir ferðir þangað niður eftir. Að öðru leyti hafa ekki verið verulegir árekstrar neins staðar á landinu, hvorki þar sem tekið er gjald fyrir inngang, né þar sem tekið er gjald fyrir bílastæði. Hefur þetta verið að leita jafnvægis á undanförnum árum samhliða auknum fjölda ferðamanna. 
 
Það hefur verið aukinn skilningur á því að það þurfi að vera tækifæri til og möguleiki á því að koma upp hinum margfrægu innviðum. Sem eru þá bílastæði, girðingar, stéttir, stígar, pallar, brýr og tröppur og svo framvegis. Allt kostar þetta peninga. Reyndar hefur ríkið gengið þar fram fyrir skjöldu varðandi bílastæðagjöld á Þingvöllum þar sem teknar eru inn gríðarlega miklar tekjur og langt umfram það sem þarf vegna bílastæðanna.“
 
Sérkennilegur greinarmunur 
 
„Í þessari lagabreytingu sem nú er lögð til eru bílastæðin alveg látin í friði, kannski vegna þess að þar er ríkisvaldið að taka sinn stærsta hluta. Hins vegar er gerður mjög sérkennilegur og í raun óskiljanlegur greinarmunur á þjónustu sem felst í að þjónusta bíla annars vegar og selja þeim aðgang og hins vegar þjónustu vegna aðgangs að göngustígum sem lagðir hafa verið og eru í stöðugu viðhaldi. Er sérstaklega tekið fram í þessari lagabreytingu að almennt viðhald svæðis teljist ekki þjónusta sem heimili gjaldtöku. Þar er tilgreind sérstaklega stígagerð, gerð brúa og þess háttar. Eitthvað sem ég hélt einmitt tilheyra nauðsynlegri uppbyggingu innviða sem mikið hefur verið talað um.
 
Það rekur sig hvað á annars horn í þessu og alveg óskiljanlegt að það megi búa til bílastæði fyrir mörg hundruð eða þúsundir bíla og rukka fyrir það.  Fólkið sem kemur út úr bílunum og fer síðan inn á eitthvert svæði eða náttúruperlu má hins vegar ekki innheimta af pening til uppbyggingar innviða.“ 
 
Ferðamenn ánægðir
 
Bendir Óskar á uppbyggingu á fjölda staða eins og í Raufarhólshelli, við Kerið í Grímsnesi, á Helgafelli á Snæfellsnesi og víða um land. Sjálfur er hann tengdur rekstrinum í Kerinu, þangað sem koma um 300.000 ferðamenn á ári. Voru eigendur Kersins í raun frumkvöðlar um innheimtu gjalds fyrir aðgengi að náttúruperlu. Olli það nokkru uppnámi hér innanlands á sínum tíma, en Óskar segir að þetta hafi gengið mjög vel og lýsi það sér best í afar góðum umsögnum ferðamanna á vefsíðu TripAdvisor á netinu. Þar fái Kerið gjarnan fjórar stjörnur af fimm mögulegum. Ekki hafi komið fram nein gagnrýni af hálfu notenda á það fyrirkomulag sem þar er viðhaft. Þarna hafi menn tekið þá ákvörðun að rukka ekkert fyrir bílastæðin, en eingöngu fyrir aðgang að Kerinu sjálfu og stígum sem þar eru og séu í stöðugu viðhaldi allt árið um kring. Ef frumvarpsdrögin ná óbreytt fram að ganga, þá verður óheimilt að innheimta aðgöngugjald að Kerinu sjálfu með tilheyrandi þjónustu sem þar er innt af hendi, en heimilt að rukka fyrir bílastæðaafnot.
 
„Mér skilst að ef menn eru með leiðsögumann þá sé það talið þjónusta samkvæmt frumvarpsdrögunum sem rukka megi fyrir. Hins vegar ef menn útbúa bækling, uppdrátt eða leggja göngustíga svo kílómetrum skiptir þá teljist það ekki þjónusta og megi því ekki rukka fyrir slíkt.
 
Svo máttu taka gjald af fólki sem kemur á svæðin svo framarlega að það komi í hópferðabíl og um sé að ræða endurtekna og skipulagða hópferð í atvinnuskyni. Þetta er svo sem ekki alveg fráleit hugsun að það sé einhver munur á einstaklingi eða þeim sem gerir út á land annars. Ef menn horfa hins vegar til þess að á Íslandi eru kannski 50–60 þúsund bílaleigubílar sem gerðir eru út í atvinnuskyni til aksturs um landið, þá horfir málið öðruvísi við. Það geta kannski verið tveir til fimm í hverjum bíl. Óbreyttar lagabreytingar þýða að allur sá fjöldi sem fer á þessum bílum um allt land, borgar hvergi aðgangseyri þrátt fyrir augljósan átroðning á landinu. Það verður aðeins borgað fyrir afnot af bílastæðum.“
 
Eingöngu má rukka fyrir suma rútufarþega en ekki aðra
 
„Það er meira að segja tekið fram í þessum frumvarpsdrögum að það megi ekki rukka einstaka rútu skólafélaga sem eru á ferðalagi, eða skátahóps. Með öðrum orðum, ef skólafélagar eru að fagna t.d. 30 ára útskrift og taka sig saman og leigja eina eða fleiri rútur og fara í einhverja náttúruperlu, þá má ekki rukka fyrir það. Þessir gestir þurfa heldur ekki að spyrja leyfis landeigenda til að fara um hans svæði. Tekið er fram að það sé allt of mikið vesen að hafa upp á landeiganda og stundum séu þeir líka margir. 
 
Hvernig á landeigandi að stýra eða fylgjast með því hvernig samsetning rútuferðamannanna er? Hvaða ástand halda menn að skapist á þeim stöðum þar sem kemur rúta eftir rútu þegar búið verður að skapa flækjustig af þessu tagi sem er ekki fyrir hendi í dag? 
 
Það gæti hæglega komið upp dæmi þar sem koma t.d. 700 kórfélagar úr Norræna kórasambandinu. Þeir leigja 15 rútur og geta farið óhindrað inn á hvaða land sem er, án þess að þurfa að spyrja landeigendur leyfis, né borga krónu fyrir átroðning á landinu.“  
 
Í ályktun aðalfundar LLÍ er meðal annars bent á eftirtalin atriði:
 
Hin forni almannaréttur tók til frjálsrar farar gangandi manna um eignarlönd annarra og var ekki annað en umferðarréttur í vegalausu landi. Rétturinn var undantekningarheimild frá ótvíræðum eignarrétti og til þess gerður að greiða för á milli tveggja staða á tímum þegar samgöngur voru með öðru sniði en nú er. Vegfarendum bar að hlíta ströngum undantekningum og greiða bætur eða sæta öðrum viðurlögum ef ekki væri að þessum reglum farið. Um þetta liggja fyrir fjölmargar lögfræðilegar fræðigreinar sem vart teljast umdeildar. Samtök landeigenda eru ekki mótfallinn þessum forna almannarétti. Þvert á móti styðja þau þennan umferðarrétt almennings eins og hann hefur verið túlkaðir frá tímum Jónsbókar.
 
Breytingartillögurnar gera ráð fyrir að landeigenda sé ekki lengur heimilt að takmarka eða banna för um land sitt nema við sérstakar aðstæður og aldrei með gjaldtöku fyrir aðgang. Hins vegar er heimilt að taka gjald fyrir bílastæði og gerð þeirra. Sérstaklega er tekið fram ólögmætt sé að taka gjald vegna viðhalds ferðmannasvæða og hnykkt á því að lagning stígs eða bygging göngubrúa eða slíkra mannvirkja, feli ekki í sér þjónustu. LLÍ telja þessa afmörkun ólögmæta. Ekki fær staðist að gjald megi taka fyrir að búa til malarstæði fyrir bifreiðar en að ekki megi taka gjald fyrir mannvirki til verndar náttúrunni svo sem malarstíga, tröppur, útsýnispalla, brýr og stiga. Hér er sönnunarbyrði snúið við og lagt að herða landeiganda að sýna fram á að beita megi takmörkunum. Allt mat er lagt í hendur stjórnvalda. Ljóst er að alla hugsun vantar í framsetningu þessa ákvæðis.
 
Gjaldtaka er einungis heimil ef um er að ræða endurteknar hópferðir í atvinnuskyni. Þannig er ekki heimilt að taka gjald fyrir hópferð sem talin er koma í eitt sinn og ekki í atvinnuskyni, t.d. ferð gamalla skólafélaga á tiltekið eignarland jafnvel þótt saman færu hundruð manna á mörgum rútum.
 
LLÍ benda á, að engin leið verður að reka ferðmannastaði með þeim takmörkunum sem fram eru settar. Rekstaraðili eða landeigandi getur aldrei vitað hvort rúta sem kemur á staðinn er komin í fyrsta sinn eða er hluti af endurteknu ferðaskipulagi. Viðamikið eftirlitskerfi, starfsfólk og umstang, þarf til þess að komast á snoðir um það hvort viðkomandi gestir komu á eigin vegum, í rútu sem aðeins kom einu sinni, eða í rútu sem stundar endurteknar ferðir á sama staðinn.
 
Landeigandi sem kýs að verja náttúruna með stígum, pöllum, tröppum, og öðrum viðlíka mannvirkjum á þess engan kost að fá kostnað sinn bættan. Bílastæði hafa forgang, náttúran ekki. Náttúrverndarlög hafa snúist upp í andstæðu sína. 
 
Landssamtök landeigenda á Íslandi mótmæla skerðingu stjórnarskrárvarins eignarréttar landeigenda með tilefnislausri lagasetningu sem mun ein­ungis skapa árekstra upp­námsástand við stóra og smáa ferðmannastaði og verða náttúruvernd til skaða.
 
Óttast hraðkeyrslu frumvarpsins gegnum Alþingi
 
Óskar Magnússon segist óttast að knýja eigi frumvarpið með hraði í gegnum afgreiðslu Alþingis. Skella því inn í þingið fyrir 31. mars til þess að það komist á málaskrá vorþingsins. 
 
„Það er viss hætta á að menn fái ekki mikil tækifæri til að velta fyrir sér þeim tugum athugasemda sem bárust við frumvarpsdrögunum. Það er ekki líklegt að menn fái mikinn tíma til að liggja mikið yfir því,“ segir Óskar Magnússon. 
 
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...