Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Vigdís Tryggvadóttir, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, á fræðslufundinum.
Vigdís Tryggvadóttir, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, á fræðslufundinum.
Mynd / Matvælastofnun
Fréttir 12. desember 2019

Fræðslufundur MAST: Nýjar reglur taka gildi um innflutning á ófrosnum búvörum

Höfundur: smh
Matvælastofnun stóð fyrir opnum fræðslufundi 28. nóvember um breyttar reglur um innflutning á hráu ófrosnu kjöti, ferskum eggjum og ógerilsneyddri mjólk til Íslands frá Evrópska efnahagssvæðinu. 
 
Markmið fundarins var að upplýsa um þær reglur sem taka gildi um áramótin og þær kröfur sem innflutningsaðilar og dreifingaraðilar þurfa að uppfylla. Sérstaklega var farið yfir ákvæði um viðbótartryggingar vegna salmonellu og sérreglur um kampýlóbakter. 
 
Í upphafi ársins samþykkti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimild Íslands til að beita reglum um viðbótartryggingar vegna salmonellu í innfluttu kjúklinga- og kalkúnakjöti og eggjum. Viðbótartrygging vegna salmonellu í innfluttu svína- og nautakjöti var svo samþykkt á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar 25. október síðastliðinn.
 
Engin frystiskylda lengur
 
Vigdís Tryggvadóttir, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, fór fyrst yfir forsögu reglubreytinganna. Það kom fram að lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim var breytt til að heimila þennan innflutning, án leyfis Matvælastofnunar, í kjölfar EFTA-dóms frá því í nóvember 2017. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að innflutningseftirlit á Íslandi með hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk samræmdist ekki samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Eftir lagabreytingu er ekki lengur nein frystiskylda fyrir hrátt kjöt og ekki þarf að sækja um sérstakt leyfi til Matvælastofnunar um innflutning á matvælum frá löndum á Evrópska efnahagssvæðinu.
 
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ásamt Matvælastofnun bjó til aðgerðaráætlun í kjölfar niðurstöðu dómstóla í þeim tilgangi að draga úr líkum á því að sýkingarhætta fyrir neytendur myndi aukast með nýjum reglum. Þingsáætlun um slíka áætlun, um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna, var síðan samþykkt á Alþingi í júní á þessu ári.
 
Strangar vaktanir í landsáætlun
 
Brigitte Brugger, sem einnig er sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, fór yfir kampýlóbakter- og salmonellusmit í kjúklingum á Íslandi og í Evrópu, en þessar bakteríur eru algengastar í kjúklingakjöti. Hún fór yfir eftirlitsáætlanir á Íslandi og Evrópu, þar sem fram kom að Ísland og Noregur væru einu Evrópulöndin sem bæði vöktuðu og gripu til aðgerða þegar vart yrði við kampýlóbaktersmit í kjúklingaeldishópum. Kjötið úr þeim hópum væri fryst. Kampýlóbaktersmit er víða mjög algengt í hráu kjúklingakjöti og hefur verið mest sunnar í Evrópu. Með nýjum innflutningsreglum muni Ísland taka upp breytt eftirlit með smitmagni kampýlóbakter við slátrun hér á landi. 
 
Brigitte sagði að eftirlit með salmonellusmiti í alifuglarækt væri einnig mun meira hér á landi og gripið sé til tafarlausra aðgerða þegar slíkar sýkingar kæmu upp. Eldishópum alifugla væri fargað og sláturhópar strax innkallaðir. Það væri í landsáætlun að vera með strangar vaktanir með það að markmiði að tíðni smita væri undir einu prósenti í allri frumframleiðslu og við slátrun alifugla. Það væri í raun skilyrði þess að Ísland gæti krafist viðbótartrygginga vegna salmonellu, fyrir innflutningi. 
 
Hún sagði til marks um góða stöðu Íslands að hér hefði aldrei greinst afbrigðið Salmonella Enteritidis í varphænum og ekki sé vitað um hópsýkingar vegna salmonellu í eggjum síðustu áratugi.
 
Svínaræktin áhættuþáttur
 
Vigdís talaði stuttlega um salmonellu í tengslum við svínarækt á Íslandi og sagði að litið væri á alla svínaræktina sem hugsanlegan áhættuþátt. Staðan hér á landi væri hins vegar nokkuð góð og með strangri vöktun við slátrun sé dregið verulega úr smithættu í kjöti, auk þess sem hægt sé að grípa til aðgerða áður en varan er komin á markað. 
 
Mælingar skorti hins vegar mjög í allri Evrópu að þessu leyti þegar kemur að öðrum búgreinum en alifuglaeldi.
 
Uppruni kjöts og sýklalyfjaónæmi
 
Þær ræddu einnig um sýklalyfja­ónæmisvandann í Evrópu. Þar kom fram að mikilvægt væri fyrir kjötinnflytjendur að hafa í huga hvar sýklalyfjaónæmi væri algengast þegar þeir keyptu inn kjöt til innflutnings, vegna þess hversu vandinn væri víða orðinn alvarlegur. 
 
Svava Liv Edgarsdóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun, kynnti nýjar reglur um vöktun á kampýlóbakter í alifuglakjöti. Hún sagði að um leið og svokallað leyfisveitingakerfi Matvælastofnunar legðist niður, færðist ábyrgðin yfir á innflutningsaðilana sjálfa. Opinber vöktun verði þó með salmonellu í innfluttum kjötafurðum og eggjum og kampýlóbakter í innfluttu alifuglakjöti.  
 
Sérreglur um kampýlóbakter í ófrosnu alifuglakjöti
 
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur unnið að sérreglum um kampýlóbakter í ófrosnu alifuglakjöti þar sem tilgangurinn er að koma í veg fyrir að fólk sýkist og draga úr líkum á að kampýlóbakter-mengað kjöt berist til landsins. Meiri líkur eru á smiti í ófrosnu kjöti sem er framleitt í löndum þar sem smit í kjúklingahópum er algengt, því með frystingu fækkar kampýlóbakter bakteríum verulega. Til að mega setja ferskt ófrosið kjöt á markað verða innflutningsaðilar að krefjast niðurstaðna greininga áður en vöru er dreift á markað þar sem staðfest er að kampýlóbakter hafi ekki greinst í kjötinu.
 
Viðbótartryggingar fyrir salmonellu
 
Héðinn Friðjónsson, sérfræðingur hjá Matvælastofnun, greindi frá reglum sem Ísland var heimilt að setja vegna viðbótartrygginga fyrir salmonellu í kjöti og eggjum. Hann sagði að reglurnar eigi eingöngu við um ferskt kjöt, það sem ekki hafi fengið aðra meðhöndlun en kælingu. Í stuttu máli felast þær í því að fyrir ferskt alifugla-, nauta- og svínakjöt þarf að fylgja viðskiptaskjal frá sendanda afurðanna þar sem allar uppruna- og rekjanleikjaupplýsingar er að finna – og staðfesting á neikvæðum niðurstöðum salmonellugreininga. Komi afurðirnar frá landi sem er með sambærilegar viðbótartryggingar, eins og Svíþjóð, Finnlandi eða Noregi, þarf ekki staðfestingu á þessu.
 
Tíðni eftirlits tekur mið af áhættu og frammistöðu
 
Loks flutti Dóra S. Gunnarsdóttir erindi um eftirlit, þvingunarúrræði og viðurlög varðandi nýjar reglur um þennan innflutning. Hún áréttaði að ábyrgð yrði hjá innflutningsaðilum en eftirlitið hjá opinberum aðilum, sem felst í skoðun skjala, sýnatökum til sannprófunar á niðurstöðum greininga og sýnatökum til sannprófunar á öryggi kjöts. Matvælastofnun teldist þannig eftirlitsaðili ef innflutningsaðilinn er matvælafyrirtæki, en heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga ef innflutningsaðilinn er heildsali eða dreifingaraðili. Tíðni eftirlits tekur mið af áhættu og frammistöðu innflutningsaðila. 
 
Ýmis þvingunarúrræði eru heimil ef ekki er rétt staðið að málum við innflutning. Hægt er að taka vöru af markaði, stöðva dreifingu og innkalla frá neytendum. Við ítrekuð brot er hægt að stöðva starfsemi að hluta til eða öllu leyti. Auk þess sem hægt er að beita dagsektum til að knýja á um úrbætur.
 
Í Matvælalögum sem voru innleidd í sumar eru heimildir til stjórnvaldssekta varðandi brot gegn ákvæðum um kampýlóbakter og taka þær mið af alvarleika brots; en þær geta verið á bilinu 25 þúsund krónur til 25 milljóna króna. 
 
Dóra sagði að í aðgerðaráætlun stjórnvalda væri kveðið á um aukið eftirlit fjóra fyrstu mánuðina eftir að nýju reglurnar hafa tekið gildi. Þetta verði mótunartímabil til að slípa til aðferðir og þjálfa starfsmenn. 
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...