Apríkósur í silfurskálum, svo eru vel valin orð
Lengi var talið að uppruni apríkósa væri í Armeníu enda á tréð langa ræktunarsögu þar um slóðir. Í dag eru flestir sammála um að aldinið sé komið frá Kína. Áhugafólki um flóru Gamla testamentisins greinir á um hvort aldin sem nefnd eru í ritunum og kölluð epli séu epli eða apríkósur.
Heimsframleiðsla á apríkósum er vaxandi og samkvæmt upplýsingum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna var framleiðslan árið 2017 rúm 4,3 milljón tonn en tæp 3,8 milljón tonn árið 2016.
Innflutningur á apríkósum til Íslands, bæði ferskum og þurrkuðum, árið 2019 var um 52,3 tonn.
Tyrkland var það land sem ræktaði mest af apríkósum 2017, eða um 985 þúsund tonn. Úsbekistan var í öðru sæti með rúm 532 þúsund tonn og Ítalía í því þriðja með rúm 266 þúsund tonn. Alsír, Íran, Pakistan, Spánn, Frakkland, Afganistan, Marokkó og Grikkland fylgdu svo í kjölfarið með ræktun á rúmlega 257 og niður í rúm 106 þúsund tonn.
Heildarinnflutningur, samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands, á apríkósum til Íslands, bæði ferskum og þurrkuðum, árið 2019 var um 52,3 tonn. Þar af voru 12,9 tonn ferskar apríkósur en 39,4 tonn þurrkaðar. Auk þess sem apríkósur eru fluttar inn í formi sulta og grauta.
Af ferskum apríkósum kom mest frá Spáni, rúm 8 tonn, og Ítalíu, rétt rúm 3 tonn. Mest var flutt inn af þurrkuðum apríkósum frá Tyrklandi árið 2019, eða rúm 26 tonn og rúm 10,5 tonn frá Þýskalandi.
Ættkvíslin Prunus og tegundin armeniaca
Vel yfir 400 tegundir trjáa og runna sem eru sígrænir eða lauffellandi tilheyra ættkvíslinni Prunus sem er af rósaætt. Þar á meðal aldintré eins og ferskjur, plómur, kirsuber, perur og apríkósur. Allt eru þetta plöntur sem vaxa villtar á norðurhveli jarðar.
Sú tegund sem mest er ræktuð og almennt ber aldin sem kallast apríkósur er P. armeniaca, en aldin skyldra tegunda eins og P. brigantina, P. mandshurica, P. mume, P. zhengheensis og P. sibirica kallast einnig apríkósur og seldar sem slíkar.
Áhugamenn um flóru Gamla testamentisins eru sumir á því að víða þar sem talað er um epli ritum í þess sé átt við apríkósur.
Apríkósutré eru með trefjarót, 8 til 12 metrar að hæð og um 40 sentímetrar að þvermáli en oft lægri og gildari í ræktun. Blöðin breiðlensulaga, 5 til 9 sentímetrar að lengd en 4 til 8 sentímetrar að breidd, rúnnuð við blaðstilkinn en annars sagtennt og mjókka til endanna. Blómin 2 til 4,5 sentímetrar í þvermál, með 5 hvítum eða bleikleitum krónublóðum. Blómstra snemma á vorin áður en plantan laufgast. Aldinið 2,5 til 4 sentímetrar í þvermál en stærra hjá sumum yrkjum í ræktun, gul og appelsínugul og oft með rauðleitum blæ á þeirri hlið sem snýr að sólinni. Aldinhúðin mjúk og flauelskennt viðkomu og smáhært og aldinkjötið þétt, jafnvel þurrt og sætt á bragðið og kallast steinaldin. Fræið er umlukið harðri og sléttri skel sem oft er með þrjár rákir eftir annarri hliðinni.
Fjöldi ólíkra afbrigða og yrkja sem eru aðlöguð að mismunandi umhverfisaðstæðum og breytileg að stærð, lögun og bragði eru í ræktun. Má þar nefna 'Polonais' og 'Bergeron' sem bæði ilma vel, eru rauðleit og safarík og ræktuð í Frakklandi. Yrki sem eru vinsæl í Bandaríkjunum eru 'Blenheim', 'Wenatchee Moorpark', 'Tilton' og 'Perfection'.
Líftími apríkósutrjáa er um 20 ár.
Apríkósur lagðar til þerris.
Saga og útbreiðsla
Uppruni apríkósa var lengi talinn vera í Armeníu enda á tréð langa ræktunarsögu þar um slóðir og fjöldi yrkja mikill. Belgíski baróninn de Poerderlé skrifaði um 1770 að heiti trésins sé kennt við Armeníuhluta Asíu þaðan sem það er upprunnið og að þaðan hafi það borist til Evrópu og kallast aldin þess armeníuplóma.
Fornleifarannsóknir í garði musterisins í Garni í Armeníu, sem var reist á fyrstu öld fyrir Krist og talið helgað sólguðinum Mihr og er í grísk-rómverskum stíl, sýna að þar voru ræktaðar apríkósur.
Mannvistarleifar við Shengavit búsetukjarnann í Armeníu sem er frá því um 3000 fyrir Krist benda til að þar hafi verið ræktaðar apríkósur og að þær hafi verið hluti af daglegri fæðu fólksins sem þar lifði. Aðrar heimildir benda til að ræktun apríkósa sé upprunnin á Indlandi.
Sovéski grasafræðingurinn Nikolai Vavilov, uppi 1887 til 1943, hélt því hins vegar fram að uppruni apríkósa væri í Kína og þar hafi ræktun þeirra verið stunduð frá því rúmlega árið 3000 fyrir upphaf okkar tímatals. Flestir sem láta sér þetta varða í dag eru sammála honum um að apríkósur hafi borist frá Kína til norðurhéraða Indlands og Mið-Asíu.
Egyptar til forna þekktu og ræktuðu apríkósur og þar eru þær mikið þurrkaðar og notaðar til að sæta mat og í drykk sem kallast amar al-din.
Líklegast er talið að apríkósutré hafi borist til Grikklands í kjölfar landvinninga Alexanders mikla, uppi 356 til 323 fyrir Krist, í Persíu og dreifst út þaðan til landa við Miðjarðarhaf og Rónar og frá Róm bárust apríkósur norður um Evrópu.
Apríkósutré voru ræktuð á Englandi á 17. öld og unnin úr þeim olía til lækninga á æxlum, bólgum og sárum á maga og meltingarfærum og almennt var litið á aldinið sem lostaörvandi.
Vitað er að breskir og spænskir landnemar í Nýja heiminum fluttu með sér apríkósufræ og græðlinga yfir Atlantshafsála og að yrki sem í dag eru í ræktun í Kaliforníu og víðar í Bandaríkjum Norður-Ameríku eru langflest komin af spænskum græðlingum.
Uppruna heitisins apríkósa er að finna í latneska orðinu praecoia sem þýðir snemmblómstrandi.
Nafnaspeki
Fyrstu skráðu heimildir um að apríkósur komi frá Armeníu er að finna í riti svissneska grasafræðingsins Gaspar Bauhin, uppi 1560 til 1624. Umrætt rit, sem kallast Pinax Theatri Botanic, kom út árið 1623. Í ritinu er að finna lýsingu og flokkun á um 6.000 plöntum og þar kallar hann apríkósur Mala armeniaca eða epli frá Armeníu.
Sænski grasafræðingurinn Carl von Linnaeus, uppi 1707 til 1778, gaf apríkósutrjám latneska heitið Prunus armeniaca í góðri trú um að uppruni þeirra væri í Armeníu í bók sinni Species Plantarum frá 1753.
Þýðing latneska ættkvíslarheitisins Prunus er óþekkt og talið að það sé lánsorð úr phrygian sem er útdautt tungumál sem var talað í Mið-Asíu og skylt frumgrísku. Tegundaheitið armeniaca þýðir að plantan komi frá Armeníu og í samræmi við það að Evrópumenn töldu hana þaðan komna. Það má því segja að apríkósur hafi lengi siglt undir fölsku flaggi á latínu.
Enska heitið apricot var borið fram abrecock á 16. öld og kemur úr miðaldafrönsku, aubercot sem síðar var borið fram abricot. Til Frakklands er talið að aldinið hafi borist frá Spáni undir heitinu albaricoque eða a(l)bercoc eins og það kallast á katalónsku.
Sennilegast er að Márar hafi komið með apríkósur til Andalúsíu á Spáni frá Marokkó en Arabar kalla þær ??????????? eða al-barquq sem þeir tóku úr býsatískri grísku βερικοκκ?? eða berikokkía og þýðir apríkósutré. Gríska heitið mun svo vera komið úr latínu, praecocia, sem þýðir snemmblómstrandi.
Ítalir kalla aldinið albicocca, Þjóðverjar echte aprikose og Finnar aprikoosi, Svíar, Norðmenn, Danir og Færeyingar segja aprikos. Á íslensku kallast bæði tréð og aldinið apríkósa en einnig þekkist heitið eiraldin.
Apríkósur eru viðkvæmar og eru því tíndar af trjánum með höndum.
Ræktun
Apríkósur þrífast best í svölu og þurru loftslagi og geta myndað aldin í suðurhlíðum Himalajafjalla upp í 3.000 metra hæð og í vetrardvala þola hraustar plöntur allt að -30° á Celsíus. Tré í ræktun geta verið óstabíl þegar kemur að blómgun og aldinmyndun og eiga það til að taka sér frí og sleppa því að blómgast eitt og eitt ár. Frost á vorin eru samt hættulegust fyrir ræktendur þar sem trén eru snemmblómstrandi og geta blómin hæglega skemmst í vor- og næturfrostum.
Trén dafna best í kalkríkum, pH 6.0 til 7.0, grýttum og þurrum jarðvegi en þola ill að þorna í langan tíma.
Áburðargjöf getur einnig verið vandamál þar sem tré eru kresin á jarðveg og þola illa mikinn áburð eða ónákvæma áburðargjöf hvort sem áburðurinn er lífrænn eða kemískur.
Til að viðhalda yrkjum í ræktun eru apríkósugreinar ágræddar á rótarstofna. Sum yrki eru sjálffrjóvgandi en önnur ekki og þarf því að planta tveimur yrkjum saman til að blóminn frjóvgist.
Líkt og í annarri stórræktun herja ýmsar óværur, skordýr, bakteríur og sveppir, á apríkósur sem mætt er með ýmiss konar efna- eða lífrænum vörnum.
Næringarinnihald og nytjar
Í 100 grömmum af ferskum apríkósum eru 48 kaloríur og í þeim eru 11% kolvetni, 1% prótein, tæplega 1% fita og 86% vatn. Apríkósur eru ríkar af A- og C-vítamínum, auk járns og kalí.
Ferskar apríkósur eru safaríkar og sætar en þær geymast ekki vel og þær því þurrkaðar, sultaðar eða niðursoðnar til geymslu.
Apríkósur úr dós voru vinsæll sunnudagseftirréttur Íslendinga á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.
Tyrkland er stærsti útflytjandi þurrkaðra apríkósa í heiminum. Til að auka geymsluþol þurrkaðra apríkósa eru þær úðaðar með brennisteinsdíoxið, SO2, sem er eitruð gastegund sem kallast E220 í innihaldslýsingunni. Brennisteinstvíoxið eykur appelsínugulan litinn á þurrkuðum apríkósum og eru því lífrænar þurrkaðar apríkósur dekkri á litinn. Neysla á mikið af þurrkuðum apríkósum sem hafa verið úðaðar með brennisteinsdíoxið getur valdið höfuðverk og meltingartruflunum.
Í fræi apríkósa er að finna mikið af trefjum, járni og í litlu magni eiturefni sem kallast amygdalin og líkist blásýru og því ekki ráðlagt að borða fræin í miklu magni í einu. Úr fræjunum er unnin olía sem notuð er til að gefa líkjörnum amaretto og amarettikexi og -brauði bragð. Auk þess sem til eru afbrigði af apríkósutrjám sem mynda sætkennd fræ sem eru borðuð líkt og möndlur.
Apríkósur og menning
Kínverjar tengja apríkósur við menntun og lækningar. Samkvæmt frásögn kínverska heimspekingsins Chuang Tzu, uppi á fjörðu öld fyrir Krist, talaði Konfúsíus, uppi 551 til 479 fyrir Krist, til lærisveina sinna í lundi umkringdum apríkósutrjám. Fræ apríkósa eru mikið notuð í kínverskum lækningum og er sagt að læknirinn Dong Feng, sem var uppi á annarri öld eftir Krist, hafi ekki farið fram á aðra greiðslu fyrir störf sín en að ef sjúklingum batnaði að þeir gróðursettu apríkósutré í trjálundinn hans.
Áhugamenn um flóru Gamla testamentisins eru sumir á því að víða þar sem talað er um epli í ritum þess sé átt við apríkósur. Helstu rökin fyrir þessu eru að epli á ritunartíma Gamla testamentisins hafi verið ólík nútíma eplum, sem eru stór, safarík og sæt, verið lítil, hörð og römm á bragðið og ekki mikið í ræktun.
Aftur á móti hafi apríkósur verið vel þekkt aldin á söguslóðum Gamla testamentisins á ritunartíma þess og eigi því lýsingar eins og í Orðskviðunum 25:11, „Gullepli í silfurskálum“ og í Ljóðaljóðunum 2:3, „Sem eplatré í kjarrviði ber elskhugi minn af sveinunum. Í skugga hans uni ég og ávextir hans eru gómsætir“, fremur við safaríkar apríkósur en hörð epli.
Samkvæmt grískum goðsögnum fólst ein af tólf þrautum Heraklesar í að sækja gullepli Vesturdísarinnar.
Gulleplanna var gætt af hundrað höfðuðum dreka og fleiri vættum við norðurenda heimsins. Samkvæmt goðsögunni leysti Herakles Prómeþeif úr fjötrum á leið sinni að gulleplunum. Í þakklætisskyni vísaði Prómeþeifur honum leiðina til Atlasar risa sem ber himnahvelfinguna á öxlum sér. Herakles hafði verkaskipti við Atlas og tók himnahvelfinguna á herðar sér en risinn fór að sækja eplin. Þegar Atlas kom úr þeirri för ætlaði hann að nota tækifærið og koma byrði sinni fyrir fullt og allt á Herakles. Heraklesi tókst þó með kænsku að blekkja risann með því að biðja hann að standa undir himnunum á meðan hann setti á sig hlíf svo hann meiddist ekki á herðunum af því að bera himininn uppi. Atlas sá ekki við þessu og tók Herakles gulleplin og fór sína leið.
Sambærilega sögu er að finna í norrænni goðafræði þegar Iðunni og gulleplum er stolið af jötninum Þjassa og goðið farið að eldast. Til að endurheimta Iðunni og gulleplin fékk Loki lánaðan valsham Freyju og flaug til hallar Þjassa. Þar breytti hann Iðunni í hnetu og flaug af stað með hana í klónum. Þjassi jötunn tók hins vegar eftir því og elti þau í arnarham en þegar Loki flaug inn yfir Ásgarð kveiktu æsirnir í spónahrúgu svo að vængir Þjassa sviðnuðu er hann flaug yfir eldinn og hann féll til jarðar. Æsirnir drápu hann og glöddust yfir að hin dýrmætu epli væru komin aftur til Ásgarðs og þeim var tryggð eilíf æska á ný.
Líkt og með gullepli Gamla testamentisins eru leiddar að því líkur að gullepli Vesturdísarinnar hafi verið apríkósur en ekki epli. Aftur á móti er óvíst af hvaða tré gullepli Iðunnar eru upprunin.
Apríkósur í blóma eru tákn annars mánaðar kínverska ársins og þjóðaraldin Armeníu. Blóm plöntunnar er á tungumáli blómanna sögð standa fyrir efa og eða tákna skaut kvenna.
Af einhverjum ástæðum hefur sú þjóðtrú fest í sessi meðal bandarískra landgönguliða að því fylgi ógæfa að borða apríkósur eða hafa þær á sér og á það sérstaklega við nálægt skriðdrekum. Sögur af þessu tagi eru þekktar meðal landgönguliða frá því bæði í seinni heimsstyrjöldinni og í Víetnamstríðinu og í sumum tilfellum er heitið á apríkósu nafnavíti sem ekki má nefna á nafn og þær kallaðar kósur, forboðna aldinið eða ávöxtur A.
Apríkósur á Íslandi
Fyrstu merki um innflutning á apríkósum til Íslands er að finna í auglýsingu frá Jóhannesi Hansen kaupmanni sem auglýsir ýmsar gerðir að kryddpækluðum aldinum til sölu í blöðunum Nýja öldin og Fjallkonunni í desember 1897. Meðal aldinanna eru ananas, perur, jarðarber, ferskjur og apríkósur.
Árið 1905 auglýsir Thomsens Magasín „alls konar sælgætisvörur“ eins og praline, confeet gráfíkjur, krakmöndlur og þurrkaðar apríkósur til sölu.
Á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar eru apríkósur talsvert auglýstar til sölu ásamt öðrum nýlenduvörum en svo virðast þær hverfa af markaði á fimmta áratugnum og þá líklega í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar.
Í dag er hægt að fá ferskar, þurrkaðar og apríkósur í grautum í verslunum allt árið.
Apríkósuvín.