Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Hekluskógar. Fræsöfnun af birki haustið 2024 í skógi sem gróðursettur var haustið 2007 á uppgrædda vikra.
Hekluskógar. Fræsöfnun af birki haustið 2024 í skógi sem gróðursettur var haustið 2007 á uppgrædda vikra.
Á faglegum nótum 13. nóvember 2024

Náttúruperlur í umsjá Lands og skógar

Höfundur: Hreinn Óskarsson, Gústav Magnús Ásbjörnsson og Pétur Halldórsson.

Land og skógur er ný ríkisstofnun sem til varð við sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í ársbyrjun 2024.

Hlutverk stofnunarinnar er meðal annars skógrækt, endurheimt og varðveisla birkiskóga og landgræðsla um land allt. Alls er vel á annað hundrað svæða um allt land í umsjá stofnunarinnar, samtals hátt í þrjú prósent landsins að flatarmáli. Mörg þessara svæða eru skógi vaxin og eru því þjóðskógar samkvæmt lögum. Þjóðskógar eru ekki aðeins mikilvægir fyrir náttúruna og umhverfið heldur einnig fyrir landsmenn alla og ferðafólk. Mörg þessara svæða eru rómuð sem útivistarsvæði í náttúru landsins, hvert með sína sérstöðu og sögu.

Þau skógar- og landgræðslusvæði sem eru í umsjá Lands og skógar bera áratuga starfi starfsfólks gömlu stofnananna, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar, gott vitni. Víðast var þar áður illa farið og jafnvel örfoka land. Með því að græða upp land hefur tekist að rækta upp myndarlega skóga um land allt og endurheimta birkiskóga og önnur vistkerfi sem höfðu glatast. Þessi vistkerfi veita okkur margvíslega þjónustu, svo sem að binda kolefni, nýtast til útivistar og draga úr jarðvegsrofi. Þau eru einnig mikilvæg búsvæði fyrir fuglategundir og hafa almenn jákvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni.

Meðal þessara svæða eru sum vinsælustu útivistarsvæði landsins. Fólk nýtir þau til almennrar útivistar, svo sem gönguferða, hjólaferða og útreiða. Þá eru skógarnir skjólgóð, róleg og friðsæl svæði þar sem hægt er að njóta náttúrunnar og slaka á.

Dæmi um náttúruperlur sem eru í umsjá Lands og skógar eru Þórsmörk og Goðaland. Þórsmerkursvæðið er landsvæði sem tekið var til beitarfriðunar og skógverndar að tilstuðlan bænda í Fljótshlíð og kirknanna í Odda og á Breiðabólstað. Hófst verkefnið árið 1920. Skógrækt ríkisins girti svæðið af og græddi upp í samvinnu við Landgræðsluna, einstaklinga og ferðafélög á svæðinu. Svæðið er vinsælt útivistarsvæði þar sem saman blandast birkiskógar og fjölbreytt stórbrotið landslag í skjóli jökla. Þar sem áður voru litlar birkitorfur á um 200 hektara svæði, umluktar örfoka landi, eru nú nokkuð samfelldir birkiskógar sem ná yfir hátt í 1.500 hektara. Helstu verkefni Lands og skógar á svæðinu eru að viðhalda og byggja upp gönguleiðir á svæðinu sem er í dag ein af fallegri og vinsælli útivistarperlum landsins.

Miklar breytingar hafa orðið á gróðurfari á Þórsmerkursvæðinu síðustu áratugi. Fyrri myndin er tekin af Einari Guðjohnsen árið 1966 og sú yngri er frá 2018 tekin af Hreini Óskarssyni.

Annað svæði sem vert er að nefna eru Dimmuborgir sem voru afhentar ríkissjóði til eignar og umráða árið 1942 með sérstökum samningi landeigenda jarðanna Kálfa- og Geiteyjarstrandar. Sandgræðsla ríkisins, síðar Landgræðsla ríkisins, girti landið af og hafði umsjón með svæðinu um áratuga skeið. Í dag er umsjá svæðisins í höndum Lands og skógar í samvinnu við Umhverfisstofnun, en Dimmuborgir eru friðlýstar sem náttúruvætti. Eftir að landið varð friðað fyrir beit og sandfok stöðvað óx upp skógur á svæðinu sem blandast á sérstæðan hátt við hraunmyndanir sem eru einstakar á heimsvísu. Svæðið er afar fjölsótt og hafa verið lagðar vandaðar gönguleiðir um svæðið.

Í Dimmuborgum er einstakt samspil uppvaxandi birkiskógar og sérstakra hraunmyndana í 2300 ára gömlu hrauni.

Þessi svæði væru án efa ekki þær útivistarperlur sem þau eru í dag án aðgerða í landgræðslu og skógrækt. Jarðvegs- og gróðureyðing var það alvarleg þegar þau komust í umsjá ríkisins að við nytum þeirra ekki í dag ef ekkert hefði verið að gert.

Land og skógur vinnur að endurheimt vistkerfa og ræktun nýrra skóga á ýmsum stöðum á landinu. Sum svæðanna eru lítt þekkt, en munu án efa verða vinsælli til útivistar samfara auknum árangri. Eitt stærsta verkefnið kallast Hekluskógar og er þar unnið að endurheimt birkiskóga á um einu prósenti Íslands. Svæðið er í nágrenni Heklu og teygir sig allt frá Hellu í suðri upp í Hrauneyjar í norðri. Þar hefur birki verið gróðursett í lundi og stuðlað að útbreiðslu birkiskóga á svæðinu með uppgræðslu lands. Hólasandur norðan Mývatnssveitar er annar eyðisandur þar sem unnið hefur verið að endurheimt vistkerfa og skóga á síðustu áratugum, fyrst með uppgræðslu og svo með gróðursetningu birkis og annarra tegunda. Straumshraun í nágrenni Hafnarfjarðar, Hvítsstaðir á Mýrum, Arnaldsstaðir í Fljótsdal og Langekra við Odda á Rangárvöllum eru dæmi um lítt þekkt svæði í umsjá Lands og skógar sem engu að síður eru opin almenningi, jafnvel þótt gönguleiðir og merkingar þeirra séu skammt á veg komnar. Sumir kjósa að sækja slík svæði heim og njóta útivistar á fáförnum slóðum frekar en á þeim fjölmennari, en meðal þessara svæða gætu hæglega verið náttúruperlur framtíðarinnar.

Svæðin í umsjá Lands og skógar eru ómetanlegur þáttur í verndun náttúru á Íslandi. Þau eru mikilvæg fyrir líffræðilega fjölbreytni, jarðvegsvernd, vatnsvernd og loftslagsmál. Með því að vernda og þróa gróðurfar þessara svæða og aðgengi að þeim tryggjum við að komandi kynslóðir geti notið þeirra engu síður en við sem nú lifum.

Skylt efni: Land og skógar

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...