Ragnheiður Björk Halldórsdóttir leiddi vinnu við gerð loftslagsvegvísis bænda fyrir Bændasamtökin. Hún er nú alflutt til Íslands eftir áratug í Þýskalandi og eignaðist sitt fyrsta barn á dögunum.
Ragnheiður Björk Halldórsdóttir leiddi vinnu við gerð loftslagsvegvísis bænda fyrir Bændasamtökin. Hún er nú alflutt til Íslands eftir áratug í Þýskalandi og eignaðist sitt fyrsta barn á dögunum.
Mynd / ghp
Fréttir 13. nóvember 2024

Stefnt að loftslagsvænstu landbúnaðarafurðum heims

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Ragnheiður Björk Halldórsdóttir, iðnaðarverkfræðingur og sjálfbærniráðgjafi, leiddi vinnu við gerð loftslagsvegvísis bænda. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ragnheiður Björk komið víða við á sviði umhverfis- og loftslagsmála bæði hérlendis og erlendis á liðnum árum.

Vægi loftslagsins í öllu þáttum samfélagsins hefur vaxið ört samhliða aukinni vitneskju um orsök og áhrif loftslagsbreytinga. Einstaklingar, fyrirtæki, og stjórnvöld keppast við að finna leiðir í átt að loftslagsvænni rekstri og starfsemi.

Þetta endurspeglast í sífellt ríkara mæli í stjórnkerfinu, þar sem vilji til breytinga er orðinn áþreifanlegur og sett hafa verið lögfest markmið og vísar sem þjóna eiga sem stefnumarkandi fyrir loftslagsvænni heim. Þannig hafa orðið til störf og verkefni fyrir fólk sem hefur þverfaglega þekkingu á umhverfis- og auðlindamálum og ný kynslóð sérfræðinga á þessu sviði er að koma fram.

Ragnheiður Björk er af þessari nýju kynslóð. Hún rekur upphaf sinnar vegferðar á þessu sviði til sumarstarfs hjá Landsvirkjun árið 2012. „Landsvirkjun var meðal þeirra allra fyrstu fyrirtækja á Íslandi til að raunverulega huga að loftslags- og sjálfbærnimálum, ég myndi ganga svo langt að segja að það sé í DNA fyrirtækisins. Þar kviknaði áhuginn.“

Ragnheiður flutti til Þýskalands árið 2014 og kláraði þar meistaragráður í bæði iðnaðarverkfræði og viðskiptafræði með áherslu á stjórnun aðfangakerfa við Tækniháskólann í München. „Þetta var það sem maður myndi kalla learning-by-doing nám, en þar fékk ég tækifæri til að leysa fjölda verkefna fyrir fyrirtæki í Þýskalandi. Má þar sem dæmi nefna bestun á loftslags- og efnahagsáhrifum sendingakerfis fyrir stærstu stafrænu tískuvöruverslun Evrópu, Zalando, og greiningu á uppruna og nýtingu sojabauna fyrir Demeter vottunaraðila. Allt snerist þetta um að besta kerfin út frá fleiri þáttum en efnahagsáhrifum.“

Eftir starfsreynslu bæði hjá BMW og Mercedes Benz Cars hóf Ragnheiður störf hjá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey og síðar SYSTEMIQ. „Ég fann hvernig ég brann fyrir því að vinna í þágu stærri mála og ekki bara horfa á evrur og sent. SYSTEMIQ var mikill brautryðjandi á því sviði og stýrði einungis verkefnum til lykta, sem höfðu raunverulegan loftslagslegan ávinning og kerfislægar breytingar í för með sér. Umhverfið var alltaf kúnni númer eitt. Við gátum því hafnað grænþvottaverkefnum ólíkt flestum öðrum ráðgjafarfyrirtækjum.“

Hún nefnir dæmi um verkefni sem hún vann. „Ég var mikið í strategískum og taktískum verkefnum. Allt frá hönnun og uppsetningu alþjóðlegs plastbanka til að byggja upp innviði söfnunarkerfa í þróunarríkjum og flýta tækniþróun við endurvinnslu plasts, yfir í uppsetningu á samhæfðum sáttmála um breytingar í framleiðslu plastumbúða þvert á stærstu neysluvöruframleiðendur heimsins. Síðar færði ég mig út í pólitískari verkefni, eins og uppsetningu leiðtogaleiðbeininga í umboði framkvæmdrstjóra ESB, Ursulu von der Leyen, en einnig skilgreiningu eins konar loftslagsvegvísis, sem meðalstór fyrirtæki í Þýskalandi afhentu nýkjörinni ríkisstjórn haustið 2021. Mínar áherslur hafa alltaf legið í því að auka sjálfbærni og seiglu í rekstri, samhliða því að besta ferla og afkomu fyrirtækja, opinberra aðila, atvinnugreina og annarra sem eftir því sækjast,“ segir Ragnheiður.

Ísland kallar

Fyrir rúmum tveimur árum fékk Ragnheiður símtal frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og hún beðin um að koma að uppsetningu loftslagsvegvísa atvinnulífsins og vera þar brúin milli stjórnvalda og atvinnulífsins sem og ljá verkefninu þekkingu sína á viðfangsefninu. „Ég hafði ákveðið að vinna sjálfstætt á þessum tíma og var farin að skoða markaði um líffræðilega fjölbreytni af miklum móð en þegar símtalið kom frá ráðuneytinu heima gat ég ekki sagt nei.“

Hún segir verkefnið hafa í grunninn snúist um samtal á milli stjórnvalda og ýmissa atvinnugreina, m.a. lífeyrissjóða, ferðaþjónustu, vegasamgangna, sjávarútvegs og álframleiðslu. Loftslagsvegvísar atvinnulífsins og tilheyrandi aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í þeim ellefu atvinnugreinum sem heyra undir SA voru svo kynntir í júní 2023 og segir Ragnheiður að þeir marki mikil straumhvörf í raunveruleikatengingu loftslags- og sjálfbærniáætlana á Íslandi. „Hugmyndin að baki þessari vinnu er byggð á sambærilegu verkefni í Danmörku. Þar lögðu atvinnugreinarnar fram áform um kerfislægar breytingar í þeirri vegferð að draga úr losun, ásamt ábendingum til stjórnvalda um æskilegan stuðning til að hraða vegferðinni. Atvinnugreinunum er því falið að segja hvað er raunhæft, en með því móti verða aðgerðaáætlanir stjórnvalda ekki á skjön við veruleikann. Það er mikilvægt að við höfum í huga að loftslagsmál eiga og munu ávallt borga sig ef rétt er að þeim staðið. Náið samstarf og opið samtal milli samfélags, atvinnulífs og stjórnvalda er grundvallarforsenda slíks árangurs og þýðir því ekkert að skipa fyrir hér.“

Að vinnu við loftslagsvegvísa atvinnulífsins loknum fór Ragnheiður aftur til München og hélt áfram sjálfstæðum ráðgjafarstörfum. Þar sem uppfærslu aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum átti að byggja á loftslagsvegvísunum var hún kölluð aftur til Íslands til að stýra þeirri vinnu.

„Áætlunin þarf að vera lifandi plagg enda mikilvægt að geta brugðist hratt við ef aðgerðir bera ekki árangur og færa áherslur á önnur viðfangsefni. Þetta er ákveðið ítrunarferli og lærdómskúrfa, þar sem Ísland stendur að miklu leyti til frammi fyrir ólíkari áskorunum en önnur Evrópuríki vegna löngu afstaðinna orkuskipta raforku og hitaveitu. Við þurfum að geta sýnt okkur mildi, einnig í opinberum verkefnum sem þessu. Þetta er það nútímastjórnarfar sem krafist er af þeim sem ætla að fara út í þessa vegferð. Áætlunin er því allt annað en yfir gagnrýni hafin, heldur hluti af virku samtali atvinnulífs og stjórnvalda.“

Ragnheiður minnist þess að hafa lokið verkefninu á Valentínusardegi í febrúar síðastliðnum. Þrátt fyrir að hafa liðið vel í München þá hrönnuðust upp spennandi verkefni fyrir Ragnheiði á Íslandi. Eitt þeirra var fyrir Bændasamtök Íslands.

Mest spennandi atvinnugrein dagsins í dag

Síðustu misseri hefur Ragnheiður leitt vinnu við gerð loftslagsvegvísis bænda, í takt við loftslagsvegvísa annarra atvinnugreina. Hún segist brenna sérstaklega fyrir landbúnað sem starfsgrein í samhengi loftslagsmála.

„Landbúnaður er undirstaða lífs okkar og starfs. Grunnþörf mannsins er að nærast og matvæli eitt það mikilvægasta í okkar lífi. Þetta er því undirstöðuatvinnugrein sem stuðlar að fæðuöryggi, sem loftslagsvegferðin má ekki ógna. Fyrir okkur sem lifum og hrærumst í sjálfbærni- og loftslagsmálum myndi ég segja að landbúnaður sé mest spennandi atvinnugreinin í dag. Möguleikarnir eru óteljandi.“ Ragnheiður segir að sama skapi að áskoranirnar séu sérstaklega krefjandi: „Nær öll losun sem fellur á ábyrgð landbúnaðartengdrar starfsemi, eða 96 prósent hennar, er vegna lífrænna ferla. Búfé þarf að borða, anda og gera þarfir sínar og framleiðslan sem slík er samansafn lífrænna ferla.“

Til að draga verulega úr losun lífrænna ferla sé þó ekki hægt að grípa til þess að minnka framleiðsluna án þess að það komi niður á afkomu bænda eða fæðuöryggi landsmanna. „Það þýðir að verkefnið snýst einna helst um að hámarka afrakstur og afkomu atvinnugreinarinnar. Við þurfum að ná fram meiri framleiðni, þ.e. nýta landið okkar betur til ræktunar, nýta aðföngin betur, hámarka næringargildi í afurðum og afköst hverrar framleiddrar einingar.“

Afleiðing þess að bæta framleiðni búrekstursins mun skila sér í vasa bænda. „Því þegar við bestum alla anga búreksturs, aukum við sjálfkrafa arðsemi og afkomu býlanna okkar á sama tíma og gæði afurðanna aukast,“ segir Ragnheiður og flissar en það er augljóst að hún hefur tekið ástfóstri við landbúnaðinn.

„Þarna kemur inn verkfræðiblætið í mér. Iðnaðarverkfræði er ekkert annað en bestunarverkfræði – að taka ferla og reyna að ná því besta úr þeim út frá einhverjum breytum og það er nákvæmlega það sem við þurfum að gera í landbúnaði. Ávinningurinn getur verið svo margþættur. Það er það sem er svo spennandi.“

Mæla losun á framleiðslueiningu

Kolefnisfótspor landbúnaðar er, sem fyrr segir, að mestu vegna lífrænnar losunar sem hlýst af framleiðslu matvæla. Þar sem markmiðið er ekki að draga úr framleiðslu matvæla hér á landi þurfi að nálgast losun frá landbúnaði út frá afurðaeiningum í stað heildar losunartalna, en slíkt gæti leitt til aukins kolefnisleka til annarra landa.

„Við viljum reikna losun út frá afurðum og fylgjast með því til að sjá hvort við séum raunverulega að standa okkur illa eða ekki án þess að það komi niður á afkomu bænda eða fæðuöryggi í landinu. Út frá því fannst okkur mikilvægt að setja fram þá stefnu að atvinnugreinin stefndi að því að framleiða loftslagsvænstu afurðir í heimi,“ segir Ragnheiður.

Í loftslagsvísi landbúnaðarins má finna upplýsingar um uppsprettu og umfang losunar og lagðar eru til lausnir sem sporna gegn losuninni, minnka hana eða betrumbæta nýtingu þannig að losun á hverja framleiðslueiningu dragist saman.

Í loftslagsvísinum er gengið út frá hlutverki landbúnaðar í fæðuöryggi. „Helsta hlutverk landbúnaðar á Íslandi er að tryggja fæðu- og matvælaöryggi, svo við séum allavega að einhverju leyti sjálfstæð ef allt fer í bál og brand. Við lifum á óróatímum.. Við sáum alveg hversu viðkvæmt alþjóðlega matvælakerfið er þegar Rússar réðust inn í Úkraínu og verð á korni og áburði hækkaði. Þeim mun háðari sem við erum heimsvirðiskeðju matvæla, því verra fyrir ríkisbúið og þjóðaröryggið.“

Hún bendir á þá staðreynd að landbúnaður sé sú atvinnugrein sem finnur áþreifanlega fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Því sé í lófa lagt að fá bændur sjálfa til að benda á vænlegar aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum og það sé einmitt gert í loftslagsvísinum.

„Við megum ekki gleyma því að engin áttar sig betur á hvernig á að fara með náttúruna en þeir sem raunverulega vinna með náttúrunni og það eru bændur sem eru að nýta jarðirnar okkar. Bændur eru sérfræðingarnir í náttúrunni okkar. Við eigum að hlusta á þeirra reynslu og finna lausnir með þeim.“

Þrjátíu prósenta samdráttur nú þegar

Að baki aðgerðapakkanum liggja greiningar og gögn, meðal annars frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ). Ragnheiður nefnir sérstaklega Loftslagsvænan landbúnað og rekstrarverkefni RML.

„Við búum að ótrúlega mikilvægum þekkingarbanka. Því er ákveðin vegferð þegar búin að eiga sér stað. Við púsluðum þessu saman og fengum út aðgerðir sem jafnvel hafa þegar sýnt fram á árangur í afkomu býla, eins og í Loftslagsvænum landbúnaði. Sumar aðgerðirnar geta sýnt fljótt fram á árangur meðan aðrar taka lengri tíma, sumar kalla á miklar fjárfestingar sem munu einfaldlega ekki vera hagkvæmar meðan aðrar geta borgað sig á stuttum tíma. En við erum alltaf að miða við árangur í loftslagsbókhaldi sem Ísland er skuldbundið að standa skil á gagnvart ESB því annað gæti orðið dýrkeypt fyrir ríkiskassann. Spurningin er því hvernig við ætlum að verja skattfénu. Borgar sig að ná ekki markmiðum að fullu og þurfa að brúa bilið með kaupum á auknum losunarheimildum, eða er hagkvæmara að nýta hluta skattfjár í hagkvæmar en jafnframt loftslagsvænar fjárfestingar?“ segir Ragnheiður. Þetta séu spurningar sem hið opinbera þurfi að kljást við.

Hún bendir á að nú þegar hafi losun gróðurhúsalofttegunda á hverja afurðaeiningu dregist saman um þrjátíu prósent frá árinu 2005. „Sagan sýnir því að landbúnaður á Íslandi er megnugur um að sýna árangur og framleiða loftslagsvænni afurðir en ella. Af hverju ekki að halda þeirri vegferð áfram?“

Kynning á loftslagsvegvísi landbúnaðarins átti að fara fram í október en hefur verið slegið á frest fram yfir kosningar. Ragnheiður Björk segir Bændasamtökin vera komin langleiðina með skilgreiningu og fjármögnun tengdra aðgerðapakka í samvinnu við matvælaráðuneytið. Vonast sé til að samvinna sú haldi áfram sem skyldi, enda forsenda árangurs beggja aðila í loftslagsvegferðinni.

„Það er von okkar að með birtingu vegvísisins haldi greinin sinni vegferð áfram í þá átt að framleiða loftslagsvænstu afurðir í heimi og að útbreiðsla þátttöku aukist til muna þvert á stéttina.“

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...