Skrefagjald innleitt
Ísafjarðarbær hefur ákveðið að innheimta svokallað skrefagjald vegna sorphirðu.
Heimilt er að leggja það á íbúa í þeim tilfellum þar sem draga þarf sorpílát meira en tíu metra að lóðarmörkum til losunar í hirðubíl. Frá þessu er greint á vef sveitarfélagsins.
Þetta nýja gjald var samþykkt af bæjarstjórn í september 2023, en ákveðið var að gefa íbúum færi á að grípa til ráðstafana í sumar. Tilgangur breytinganna er að bæta aðstæður sorphirðufólks og gera losunina skilvirkari.
Gjaldið samsvarar 50 prósent álagi á sorphirðugjald hvers íláts. Kostnaður við hefðbundið 240 lítra ílát hækkar því úr 25.700 krónum á ári í 38.550 krónur. Sveitarfélagið vill jafnframt vekja athygli á samþykktum sem varða aðgengi að sorpílátum. Í þeim segir meðal annars að ekki megi staðsetja ílát sem eru 40 kíló eða þyngri þannig að sorphirðufólk þurfi að fara með þau um tröppur eða mikinn hæðarmun á lóð.