Fjórhjóladrifinn Mitsubishi ASX, lipur og kraftmikill
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson - liklegur@internet.is
Stundum fer ég í leiðangur með vissa tegund bíla í huga til að prufukeyra og var í þannig hugleiðingum að leita að litlum sportlegum fjórhjóladrifnum bíl sem væri brúklegur í nánast alla vegi og vegslóða.
Eftir stutta leit fann ég álitlegan kost í Heklu H/F. Nýr Mitsubishi ASX kom seint á síðasta ári töluvert breyttur frá fyrri bílum með sama nafn.
Lipur í akstri og fínn kraftur
Mitsubishi ASX er gott að keyra, fótapláss með ágætum, útsýni fram á við mjög gott og hliðarspeglar með þeim stærstu (allavega miðað við stærð á bíl, vinur lýsti hliðarspeglunum þannig: „Næstum eins og eyrun á Mikka mús.“
Sætin þægileg og öllum stjórntækjum komið þannig fyrir að aldrei þarf að taka augun af veginum við notkun þeirra.
Þá skilar 2000 rúmsentímetra (cc) bensínvélin 150 hestöflum, einfaldlega mokar bílnum upp í umferðarhraða á mettíma.
Fjöðrunin er góð, sama hvort ekið er á malbiki eða á holóttum malarvegi. Þó er hann ekki alveg gallalaus því umhverfishljóð inni í bílnum mældist yfir þeim hávaða sem ég set viðmiðið, sem er 72db. Samkvæmt mínum mælingum þá mældist hávaðinn inni í bílnum 73,2db. á 90 km hraða.
Hliðarspeglarnir eru þægilega stórir.
Með því að læsa drifinu fær maður „rallígrip“
Fyrir nokkrum árum prófaði ég eins bíl og munurinn er mikill, vélin hefur stækkað úr 1.6 í 2.0 l vél, er nú 150 hestöfl í stað 122 hö og dráttargetan hefur aukist um 100 kg og nú 1300 kg.
ASX kemur með fimm gíra beinskiptingu eða sex þrepa stiglausri CVT (Continuous Variable Transmission) sjálfskiptingu og fæst bæði með fram- og fjórhjóladrifi.
Þegar maður setur fjórhjóladrifna bílinn í gang er hann í sídrifi, en með því að ýta tvisvar á takkann sem er fyrir drifið þá er bíllinn komin í framhjóladrifið. Þar með ætti hann að eyða aðeins minna eldsneyti. Munurinn er það mikill í fjórhjóladrifi og ekki sama hvort það er á malbiki eða malarvegi að persónulega mundi ég alltaf hafa bílinn í fjórhjóladrifinu. Vilji maður hámarksgrip á möl þá læsir maður bílnum í fjórhjóladrifinu og maður er þá komin með „rallígrip“.
Öryggisbúnaður góður og fáir mínusar
Í bílnum er akreinalesari, blindhornsvari, viðvörun ef ekið er of nálægt næsta bíl á undan og ýmis annar öryggisbúnaður.
Þakglugginn kemur vel út (en muna að loka fyrir sólarljós ef það er mikil sól því annars verður óþægilega heitt þegar sest er inn í bílinn. Þessu gleymdi ég og hitinn var óbærilegur eftir upphitun sólarinnar.
Til að vera löglegur í umferð þarf að snúa ljósatakkanum og stilla á ljós til að fá afturljósin á, en þegar maður yfirgefur bílinn segir mælaborðið manni að slökkva ljósin. Þessi skilaboð á að hunsa því þegar maður lokar hurðinni slokkna ljósin eftir nokkrar sekúndur.
Stærsti mínusinn er að í bílinn vantar varadekkið, en undir hleranum er gert ráð fyrir varadekki og því óskiljanlegt að þar sé bara eitthvert hringlaga frauðplast með fullt af litlum hólfum en ekki varadekk.
Með ljósin kveikt allan hringinn má hunsa þessa skipun því ljós slokkna þegar hurðinni er lokað.
Gott verð á skemmtilegum sportlegum jeppling
Uppgefin eyðsla er 6,3–6,5 lítrar á hundrað kílómetra, en ég var ekki í neinum sparakstri þessa rúmlega 100 km sem ég ók bílnum. Samkvæmt aksturstölvu var hann að eyða 9,1 lítra á hundraðið.
Verðið er breytilegt eftir hvort tekinn er Mitsubishi ASX eindrifs eða fjórhjóladrifinn og val á innréttingu. Verðið er frá 3.990.000 og upp í 5.490.000 krónur, sem er verðið á bílnum sem var prófaður.
Fyrir þá sem vilja fræðast meira um Mitsubishi ASX er best að fara inn á vefsíðu Heklu á vefslóðina www.hekla.is eða að hafa beint samband við sölumenn Mitsubishi.
Helstu mál og upplýsingar:
Þyngd 1.498 kg
Hæð 1.640 mm
Breidd 1.770 mm
Lengd 4.350 mm