Framleiddu úrvalsmjólk allt árið
Þrjátíu og fimm mjólkurframleiðendur á starfssvæði Auðhumlu fengu greitt fyrir úrvalsmjólk alla mánuði síðasta árs.
Þetta er svipaður fjöldi og hefur verið undanfarin ár, en árið 2022 náðu þrjátíu og sex kúabændur þessum árangri. Að stórum hluta eru sömu bændur sem framleiddu úrvalsmjólk alla tólf mánuðina í fyrra og árið á undan. Samtals framleiddu þessir 35 aðilar tæpa ellefu milljón lítra úrvalsmjólkur. Frá þessu er greint í frétt á heimasíðu Auðhumlu, þar sem bændurnir eru taldir upp. Auðhumla er samvinnufélag í eigu mjólkurframleiðenda og móðurfélag Mjólkursamsölunnar, með 80% eignarhlut. Starfssvæði Auðhumlu nær til alls landsins nema Skagafjarðar.