Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ráphænur í eins konar kojubúi með opnum varpkössum á mörgum hæðum.  Hænurnar hafi mikið hreyfifrelsi en eru samt verndaðar í lokuðum húsum. Þéttbýlið má þó ekki vera of mikið samkvæmt reglugerðum.
Ráphænur í eins konar kojubúi með opnum varpkössum á mörgum hæðum. Hænurnar hafi mikið hreyfifrelsi en eru samt verndaðar í lokuðum húsum. Þéttbýlið má þó ekki vera of mikið samkvæmt reglugerðum.
Fréttir 29. júní 2018

Framleiðsla „ráphænsnaeggja“ í Bretlandi í hættu vegna offramleiðslu

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Framleiðsla á eggjum frá frjálsum hænum, eða „ráphænsnum“, í Bretlandi (free range – frjálsar  ráfandi hænur sem ekki eru í lokuðum varpkössum), er nú talin í hættu vegna offramleiðslu og verðfalls á eggjum.

Í heild voru framleiddar 3,9 milljónir askja af slíkum „ráphænsnaeggjum“ á fyrsta ársfjórðungi 2018. Var framleiðslan 3,5 milljónir askja á sama tíma 2017, um 3,2 milljónir 2016 og 2,9 milljónir askja á fyrsta ársfjórðungi 2015.

Á sama tíma hefur smásöluverð á 12 eggja öskjum fallið úr 98,8 pens á fyrsta ársfjórðungi 2015, í 82,7 pens á sama tíma 2018 að því er fram kemur í Farmers Weekly.

Eldi hænsna í algjöru frelsi getur skapað erfiðleika við varnir gegn hættulegum sjúkdómum.

Frjálsar hænur eða ráphænsni?

Ekki hefur verið til neitt eitt orð á íslensku sem fangar hugtakið „free range“ hænsnabú. Notað hefur verið orðið frjálsar hænur, sem er ekki alls kostar rétt, þar sem þær eru yfirleitt í lokuðum húsum vegna smithættu. Blaðamaður leyfir sér hér að nota nýyrðið „ráphænur“ til að fanga hugtakið í von um að það móðgi ekki fiðurféð. Enda geta hænurnar rápað óheftar um húsin. Síðan má þá jafnvel tala um ráphænsnabú, ráphænsnaegg og kojubú til að lýsa því sem um er rætt í frétt Farmers Weekly.

Íslenskt ráphænsnabú í Eyjafirði

Grænegg á Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd í Eyjafirði er ágætt íslenskt dæmi um ráphænsnabú af þessum toga. Þar er nýbúið að taka í notkun nýtt og glæsilegt hátæknivætt hænsnabú með varpaðstöðu á einni hæð. Þar er allt meira og minna sjálfvirkt svo mannshöndin þarf lítið að koma þar nærri. Þar eru engin lokuð varpbúr, en húsin sjálf eru samt lokuð og smithætta í lágmarki.

Smithætta fylgir fullu frelsi

Hugtakið „frjálsar hænur“ má trúlega helst nota yfir búskap þar sem hænurnar geta farið um algjörlega frjálsar út úr húsum og í útigöngu út í náttúruna. Slíkur búskapur þekkist vissulega víða um lönd. Hann hefur þó þann stóra galla að erfitt getur verið og nær ómögulegt að fyrirbyggja sjúkdóma sem fuglarnir geta m.a. fengið úr jarðvegi eins og salmonellu og camphylobakter. Slíkir sjúkdómar geta smitast í menn við neyslu á smituðum eggjum og alifuglakjöti. Fuglaflensa er svo annar vandi sem þar er við að glíma.

Hafa íslenskir alifuglabændur einmitt náð mjög góðum árangri í að verjast slíkum sjúkdómum með eldi í lokuðum húsum og hefur það vakið athygli m.a. í Bretlandi.

Offramleiðsla og verðfall

Í blaðinu er vitnað í Robert Gooch, framkvæmdastjóra samtaka breskra ráphænsnaeggjaframleiðenda (British Free Range Egg Producers Association - BFREPA), sem segir að eggjabúin hafi verið að stækka á síðustu þrem árum. Auk þess sem nýir framleiðendur hafi verið að koma inn á markaðinn. Þetta þýði að nú væri komið að þeim punkti að hætta yrði á offramleiðslu og verðfalli síðar á þessu ári.

„Á síðustu þrem árum hefur „ráphænsnaiðnaðurinn“ verið að vaxa um 10% á ári, en heildar eggjaneyslan hefur einungis aukist um 3%,“ sagði Dooch.

Ráphænsnabú á einni hæð eða kojubú

Hann segir að eigendur smásöluverslana hafi lýst því yfir í fyrra að þeir myndu hætta sölu búrhænsnaeggja árið 2025. Í viðræðum BFREPA við smásala hafi komið fram að þeir hygðust skipta úr búrhænsnaeggjum yfir í egg sem framleidd væru að mestu í hlöðu- eða kojubúum (barn systems). Það væri ódýrari framleiðsla en við eldi á einni hæð, en hjálpaði kaupmönnum samt að skaffa gæðaegg.

Munurinn á hlöðu- eða kojubúum og ráphænsnabúum eða „free range“ á einni hæð er einkum sá að í kojubúunum er varpkössum hlaðið upp í margar hæðir, eins konar kojur, en eru samt ekki lokaðir þannig að hænur geta ráfað um húsið. Þetta fyrirkomulag gefur betri nýtingu á hvern fermetra en hægt er að ná í búum með varpkössum á einni hæð. Þessar kojustæður eru aftur á móti dýrar og hugsanlega er erfiðara að koma við sjálfvirkni í slíkum búum þegar kemur að þrifum.

Ráphænsnabú á einni hæð ódýrust í uppsetningu

Robert Gooch segir að framleið­endur hafi einkum laðast að ráphænsnabúunum á einni hæð vegna þess að þau væru mun ódýrari í uppsetningu en aðrar gerðir varphænsnabúa. Það væri þó mikilvægt að bændur tækju sjálfstæðar ákvarðanir og fengju ráðgjöf þegar kæmi að fjármögnun. 

Tap á eggjaframleiðslunni

Samkvæmt nýjustu tölum BFREPA er framlegð í kjúklingabúum eitt pund á hvern fugl (um 141 króna) fyrir utan fjármagnskostnað og afskriftir. Leiga og afskriftir gera það hins vegar að verkum að það er tap á framleiðslunni sem nemur 3,04 pundum, eða um 429 krónum á hvern fugl.

Þrátt fyrir þetta er ráphænsna­eggjaframleiðslan enn að aukast og segir Gooch engan vafa leika á að neytendum líki þessi framleiðslumáti betur en búrhænsnaeldisegg.

„Spurningin  er hvernig við getum tryggt að ekki verði offramleiðsla og að vöxtur í greininni verði í takt við eftirspurn hverju sinni,“ segir Robert Gooch.

Skylt efni: hænur | ráphænur

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...