Framlögum til nýliðunar í landbúnaði var úthlutað í fyrsta sinn í fyrra
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Nýliðunarstuðningur var veittur í fyrsta skipti á árinu 2017, sbr. IV. kafla reglugerðar nr. 1240/2016 um almennan stuðning við landbúnað. Nýliðunarstuðningur er veittur til fjárfestinga í búrekstri.
Framlögum til frumbýlinga var úthlutað á árinu 2017 í samræmi við bráðabirgðaákvæði í reglugerð nr. 1151/2016 um stuðning við sauðfjárrækt. Samþykktar umsóknir voru 47 talsins alls að upphæð 22.199.922 kr. og var þetta í síðasta skipti sem framlaginu var úthlutað þar sem ákvæðið er fallið úr gildi.
Í nýjum búvörusamningum taka við framlög til nýliðunar í landbúnaði óháð búgrein. Markmið stuðningsins er að aðstoða nýliða við að hefja búskap og auðvelda ættliðaskipti í landbúnaði. Heildarfjárhæð nýliðunarstuðnings skv. fjárlögum 2017 var 129.731.765. 40 umsóknir bárust og fengu 24 aðilar úthlutun skv. vinnureglum sem Matvælastofnun setti sér um forgangsröðun í samræmi við ákvæði reglugerðar. Fjórum umsóknum var hafnað.