Framúrskarandi ungur Íslendingur 2021
Þórunn Eva G. Pálsdóttir hlaut nýlega titilinn „Framúrskarandi ungur Íslendingur 2021“. Það var hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem afhenti verðlaunin, ásamt Ríkeyju Jónu Eiríksdóttur, landsforseta JCI, en samtökin veita verðlaunin á hverju ári.
Þórunn var tilnefnd fyrir framlag sitt til barna, heimsfriðar og mannréttinda. Um 300 tilnefningar bárust til JCI vegna kjörsins. Verðlaunin eru bæði hvatning fyrir þessa framúrskarandi einstaklinga til áframhaldandi starfa og á sama tíma innblástur og hvatning til okkar allra að leggja okkar af mörkum til að byggja betra samfélag. Þórunn Eva skrifaði bókina „Mia fær lyfjabrunn“, en hugmyndin að bókinni varð til þegar hún var að gera lokaverkefnið sitt í sjúkraliðanáminu v
orið 2019. Lokaverkefnið fékk hæstu einkunn og hvatti kennari Þórunnar að láta verða af þessari bók.
„Það er mikil þörf fyrir bætta fræðslu í samfélaginu okkar almennt og er hún alls ekki minni innan veggja spítalans og fyrir litla fólkið okkar þar. Það eru alltaf nokkur börn á ári sem þurfa að fá lyfjabrunn og eru ástæðurnar misjafnar. Stór hluti þessara barna eru börn sem greinst hafa með krabbamein en það eru einnig börn með hjartasjúkdóma, Cystic Fibrosis, blóðsjúkdóma, meðfædda ónæmisgalla og meltingar-sjúkdóma sem þurfa að fá lyfjabrunn svo dæmi séu tekin,“ segir m.a. í tilkynningu um verðlaunin. Þórunn Eva á barn sem er með lyfjabrunn og þekkir því ferlið vel.