Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fréttaskýring 10. apríl 2019
Allt að 87% baktería í hráu kjöti sagðar ónæmar
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Í úttekt The Environmental Working Group (EWG) sem kom út á síðasta ári kemur fram að opinberar rannsóknir á tíðni baktería í stórmörkuðum sýni að tíðni sýklalyfjaónæmra baktería í kjöti sem þar er í boði er stöðugt að aukast.
EWG er óhagnaðardrifin starfsemi í Bandaríkjunum sem hefur það að leiðarljósi að hvetja fólk til að lifa heilsusamlega í heilsusamlegu umhverfi. Það er nú komið á sjötta ár síðan EWG gerði fyrst úttekt á því sem kallað var „innrás ofursýkla í bandarískar stórverslanir“ (Superbugs Invade American Supermarkets).
Reynt að afvegaleiða umræðuna
EWG svipti fyrst hulunni af leyndinni hjá Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) yfir lyfjaónæmum bakteríum í kjöti árið 2013. Síðan hafi yfirvöld farið þess á leit við kjötframleiðendur að þeir hættu misnotkun á sýklalyfjum, en notkunin er samt enn mjög mikil.
Í nýjustu úttekt EWG kom í ljós að ástæða er til að hafa alvarlegar áhyggjur af málinu. Segja skýrsluhöfundar að vegna rannsóknarinnar hafi FDA farið í varnarstöðu og sagt að þó bakteríur mynduðu ónæmi fyrir einu lyfi, þá væri enn til fjöldi sýklalyfja sem gætu unnið á sýkingum af þeirra völdum. Áunnið ónæmi baktería gegn sýklalyfjum getur breiðst ört út þar sem ónæmisgen frá einni örveru geti borist til annarrar og gert fleiri og fleiri sýklalyf óvirk.
Þetta er í fullu samræmi við orð Karls G. Kristinssonar, prófessors við Háskóla Íslands og dr. Lance Price, prófessors við George Washington-háskóla í Bandaríkjunum, sem fram komu á fundi á Hótel Sögu fyrir skömmu.
Skoðaðar rannsóknir á 47.000 sýnum
Í nýjustu úttekt EWG á yfir 47.000 sýnum frá stórmörkuðum sem tekin hafa verið til rannsókna af hálfu opinberra aðila kemur fram aukning á sýklalyfjaónæmum bakteríum í svínakjöti, en hátt hlutfall var þegar fyrir af slíkum bakteríum í fyrri rannsóknum. Tíðni sýklalyfjaónæmra baktería í kalkúna- og kjúklingakjöti er enn mjög mikil en örlítið hefur þó dregið úr henni.
Bent á rangfærslur yfirvalda
Í skýrslunni í fyrra kom í ljós að fátt hafði breyst til batnaðar. Segja skýrsluhöfundar að almenningi sé ómögulegt að komast að þessu með því að lesa skýrslu Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna (FDA) „National Antimicrobial Resistance Monitoring System“, sem byggði á upplýsingum frá 2015. Þar kemur fram að tíðni lyfjaónæmra baktería í kjöti hafi haldist lítil, þ.e. fyrir bakteríur sem valda flestum sýkingum í mannfólki. Þessu er haldið fram þrátt fyrir að 75% af bakteríum sem FDA fann í kjöti í matvöruverslunum 2015 eru enn sýklalyfjaónæmar.
Skýrsluhöfundar EWG segja að yfirvöld taki sýni á hverju ári í matvöruverslunum til að kanna algengi baktería sem geti valdið fæðubornu smiti. Það eigi t.d. við kamfýlóbakteríu, salmonella og E.coli. Það eigi einnig við „enterococcus“ sem finnst gjarnan í meltingarvegi og vísindamenn nota m.a. til að rekja sýklalyfjaónæmar bakteríur.
87% baktería ónæmar fyrir mikilvægum sýklalyfjum
Áttatíu og sjö prósent bakteríanna sem vísindamenn FDA fundu í unnum kalkún eða kalkúnahakki (Groun turkey eða minced turkey) í stórmörkuðum voru ónæmir fyrir tetracyklín sýklalyfi. Það er breiðvirkt sýklalyf og að sögn EWG nú mest notaða sýklalyfið í dýraeldi þrátt fyrir að vera útlistað af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni sem „mjög mikilvæg“ tegund sýklalyfs til að meðhöndla sýkingar í fólki. Það er m.a. notað til að vinna á eyrnasýkingum, berkjubólgu, lungnabólgu og við þvagfærasýkingum í mönnum.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lýsir tetracyklíni sem „eina eða eitt af helstu sýklalyfjunum“ sem fáanlegt er til að meðhöndla alvarlegar bakteríusýkingar hjá fólki. Þá viðurkenna lyfjafyrirtækin að sýklalyfjaónæmi sé orðið útbreitt m.a. vegna mikillar notkunar veikra skammta af tetracyklíni í fóðri dýra.
EWG komst einnig að því með rannsókn á gögnum að á síðustu fimm árum fannst að meðaltali einn af hverjum fimm stofnum af salmonellu í matvöruverslunum sem var ónæmur fyrir amoxicillini. Það er ein gerð af penicillíni, en það er annar mest notaði lyfjaflokkurinn til blöndunar í fæðu dýra, þrátt fyrir að þau séu talin afar mikilvægt fyrir lækningu á mannfólki.
Amoxicillin er efst á lista yfir sýklalyf sem gefin eru börnum samkvæmt lyfseðli á hverju ári. Árið 2010 fengu meira en 18 milljón börn að minnsta kosti einn lyfseðil sem ávísun fyrir sýklalyfið. Þetta er einnig eitt af fáum lyfjum sem í boði eru til að meðhöndla alvarlega salmonellu-eitrun hjá konum á meðgöngu.
84% af enterococcus-sýklum í svínakjöti var ónæmur fyrir sýklalyfjum
Áttatíu og fjögur prósent af enterococcus faecalis sem fannst í svínakjöti í rannsóknum FDA var ónæmur fyrir tetracyklíni. Um 71 prósent af sýklunum sem finnast á kjúklingi voru ónæmir og 26 prósent af þeim sem fundust á nautakjöti. Tetracyklín eru sagt mest notaða tegund sýklalyfja í dýraeldi.
73% salmonellusýkla í grænmeti er ónæmur fyrir sýklalyfjum
Sjötíu og þrjú prósent salmonellu á grænmeti voru sýklalyfjaþolin árið 2014, sem bendir til þess að meira en 7 af hverjum 10 einstaklingum sem fá salmonellusýkingu t.d. í gegnum of lítið eldaðan kjúkling eða við krossmengun úr meðhöndlun á grænmeti myndi standa frammi fyrir sýkingu sem er ónæm fyrir að minnsta kosti einni tegund sýklalyfja. Tölur benda til að þetta kunni eitthvað að hafa lagast varðandi kalkún frá 2014.
Máttlausar aðgerðir yfirvalda
Árið 2013, þegar EWG lýsti fyrst áhyggjum af þessari þróun, voru engar kröfur af hálfu bandarískra yfirvalda á landsvísu um að nota yrði sýklalyf sparlega í búfé. Seinna á því ári og eftir athugasemdir EWG, lagði Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) fram fyrstu leiðsögn um að lyfjafyrirtæki þyrftu að sýna lit til að draga úr óþarfa notkun sýklalyfja í dýraeldi sem nýtt voru sem vaxtarhvati, svo hægt væri að slátra dýrunum fyrr en ella.
Um 80% baktería í kjöti eru ónæmar fyrir sýklalyfjum
Þrátt fyrir ábendingar og tilmæli yfirvalda eru nærri 80 prósent af bakteríunum sem finnast í kjöti ónæmar fyrir sýklalyfjum. Þótt yfirgnæfandi vísbendingar séu fyrir hendi leyfa yfirvöld flestum framleiðendum að gefa heilbrigðum dýrum afar mikilvæg sýklalyf til að bregðast við streitu dýranna sem alin eru í allt of miklum þéttleika og óhreinindum. Notkunarleiðbeiningar sem þar er stuðst við eru í bága við tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofn-unarinnar WHO og búa beinlínis til sýklalyfjaþolnar bakteríur að mati EWG. Leiðbeiningar FDA eru enn harla máttlausar.
Árið 2016 sýndi rannsókn Pew Charitable Trusts fram á að þrátt fyrir leiðbeiningar frá FDA er vandamálið enn til staðar. Pew Charitable Trusts er leiðandi óhagnaðardrifin rannsóknarstofnun.
Mótstaða gegn sýklalyfjum orðin innbyggð í genamengi baktería
EWG telur að lítil þróun í gerð nýrra sýklalyfja valda áhyggjum. Bakteríur sem hafa nú innbyggt í sitt genamengi mótstöðu gegn sýklalyfjum geti því breiðst hratt út.
Af 14 sýklalyfjum sem FDA prófaði árið 2014 hafði salmonella þróað viðnám við 13 lyfjum. E. coli sýklar höfðu þróað viðnám gegn öllum 14 sýklalyfjunum. Þetta er vegna þess að genið sem veldur ónæmi fyrir sýklalyfjum – til dæmis gegn tetracyklín – getur nú smitast frá ónæmum bakteríum yfir í t.d. salmonellu sem ekki var ónæm fyrir lyfjunum og skapa þannig ónæmar sýkingar.
Yfirvöld taki mikilvæg sýklalyf af verksmiðjubúunum
Eins og er gefur Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna eingöngu út leiðbeiningar með hliðsjón af læknisfræðilegu mikilvægi lyfjanna sem notuð eru. Segja skýrsluhöfundar EWG að stofnunin sé þannig að grafa höfuðið í sand þegar kemur að því að bregðast við því að sýklalyfjaónæmið dreifist á milli bakteríustofna.
„Við teljum að ónæmi bakteríu gegn einu sýklalyfi sé einni ofurbakteríu of mikið. Neytendur ættu ekki að þurfa að bíða eftir víðtækri útbreiðslu fjölónæmra baktería svo FDA þóknist að grípa til aðgerða til að vernda neytendur. Það er kominn tími til að yfirvöld í Bandaríkjunum taki öll mikilvæg sýklalyf út úr rekstri verksmiðjubúanna.“
WHO hvetur bændur til að hætta vaxtarhvetjandi sýklalyfjanotkun
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) gaf út leiðbeiningar haustið 2017 sem hvetja bændur til að stöðva venjubundna notkun sýklalyfja í dýrum sem eru ekki veik.
WHO stofnunin, sem er hluti af stofnanakerfi Sameinuðu þjóðanna, er áhyggjufull yfir að ofnotkun sé að skapa ofursýkla (superbugs) – sem eru banvænar bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum sem notuð eru til að meðhöndla sýkingar í mönnum.
WHO segir að mótefni gegn sýklalyfjum sé „eitt af stærstu ógnum við heilsu manna á heimsvísu, matvælaöryggi og alla þróun í dag. Það leiði til lengri sjúkrahúsavistar, hærri lækningakostnaðar og fleiri dauðsfalla af sýkingum eins og lungnabólgu, berklum og salmonellu-eitrun.
Stofnunin hvetur bændur til að hætta að fæða heilbrigð dýr á fyrirbyggjandi og vaxtarhvetjandi hátt með læknisfræðilega mikilvægum sýklalyfjum. Þeir eigi aðeins að nota slík lyf til að meðhöndla sjúk dýr, ekki til að auka vöxt eða koma fyrirfram í veg fyrir mögulegar sýkingar. WHO segir einnig að bændur ættu aldrei að nota sýklalyf sem mest þörf er á til að meðhöndla fólk fyrir dýr.
Milljónir sýkjast árlega af ofursýklum
Í Bandaríkjunum leiðir ofnotkun sýklalyfja í matvælum til aukinnar myndunar ofursýkla sem veldur að minnsta kosti tveim milljónum sýkinga á ári sem erfitt er að meðhöndla og miklum fjölda dauðsfalla samkvæmt gögnum Centers for Disease Control and Prevention. Um það bil ein af hverjum fimm sýkingum af þessum toga stafar af bakteríum í mat og dýrum.
Börn eru næmari fyrir þessum sýkingum en fullorðnir. Börn 5 ára og yngri eru 9 prósent af íbúum heims og verða fyrir um 40 prósent af fæðubornum sjúkdómum.
Þrátt fyrir sannanir um sýkingar sem stafa af völdum ofnotkunar sýklalyfja hafa bandarísk yfirvöld ekki gefið út haldbærar reglur eða skipanir um sýklalyfjanotkun í matvælaframleiðslu í matvælum. Þess í stað eru einungis gefin út tilmæli sem bændum er í sjálfs vald sett hvort þeir fari eftir eða ekki.
Leiðbeiningarnar leyfa áfram að notuð séu sýklalyf reglulega, m.a. í fóður hjá heilbrigðum dýrum.
Kalifornía gerir auknar kröfur til verslana um upplýsingagjöf
Kalifornía hefur verið leiðandi af ríkjum Bandaríkjanna í þessum málum. Árið 2015 samþykkti ríkið löggjöf um að banna notkun lyfjafræðilega mikilvægra sýklalyfja á heilbrigðum dýrum sem alin eru upp í Kaliforníu. Þau má einungis nota ef dýralæknar hafa mælt fyrir um það. Í október 2017 gaf San Francisco-borg út reglur sem krefja stórar matvöruverslanir til að tilkynna hvernig sýklalyfjanotkun sé háttað við framleiðslu á öllum vörum sem þar eru á boðstólum, þ.m.t. við framleiðslu á vörum frá öðrum ríkjum. Kjöt og önnur matvara verður samt ekki merkt sérstaklega í verslunum með tilliti til sýklalyfjameðferðar dýra eða grænmetis, heldur mun borgin gera slík gögn opinber á heimasíðu sinni.
Þetta hefur leitt til aukinnar meðvitundar neytenda um málið. Eru því æ fleiri matvælafyrirtæki farin að taka upp þá stefnu til að draga úr sýklalyfjameðferð við matvælaframleiðslu. Viðmiðunarreglur WHO gætu því ekki aðeins ýtt við bændum til að endurbæta starfshætti þeirra. Heldur einnig orðið til að hvetja fleiri fyrirtæki til að móta stefnu sem hjálpað getur fólki að verja sig gegn sýklalyfjaónæmum bakteríum.