Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Morgunn við Avenue des Baobab. Myndir / VH.
Morgunn við Avenue des Baobab. Myndir / VH.
Fréttaskýring 16. maí 2019

Baobab-breiðstræti

Höfundur: Vilmundur Hansen

Flóra Madagaskar er ólík flóru allra annarra landa í heimi og reyndar svo ólík að þar finnast um 12.000 tegundir plantna og um 83% þeirra eiga sér náttúruleg heimkynni á eyjunni og finnast ekki villtar annars staðar. Af öllum þessum fjölda eru baobab-plönturnar við Avenue des Baobab líklega þekktastar.

Á Madagaskar finnast yfir 900 tegundir brönugrasa og um 200 tegundir pálma. Ferðamannapálminn er einstakur vegna blævængslaga blaðbyggingar en nafnið er tilkomið vegna þess að ferðamenn svöluðu þorsta sínum á vatni sem safnaðist fyrir í pollum í blaðöxlum plöntunnar.

Fyrsta baobabið sem ég sá.

Skógareyðing á Madagaskar er ein sú mesta og alvarlegasta í heiminum og vegna eyðingar náttúrulegra skóga eyðast búsvæði innlendra dýra og plantna. Í kjölfar eyðingar innlendu skóganna hefur víða verið plantað innfluttum tegundum eins og Evrópufuru, sem dafnar vel í landinu, og er nú svo komið að víða er litið á hana sem ágangategund.

Hrísgrjón, maís, sykurreyr, yam, taro og vanilla, sem allt eru innfluttar tegundir, eru helstu nytjajurtir innfæddra. Þrjá fyrstu tegundirnar eru ræktaðar til matar en vanilla er helsta útflutningsvara landsins og fáséð á innanlandsmarkaði. Auk þess sem í landinu er ræktaður fjöldi algengra og framandi ávaxta- og grænmetistegunda.

Þykkblöðungar en ekki tré

Ólíkt því sem margir telja og heitin baobab-tré eða apabrauðstré vísa til flokka grasafræðingar baobab ekki sem tré heldur sem þykkblöðunga, reyndar með allra stærstu þykkblöðungum sem vissulega líkjast trjám í útliti.

Þykkblöðungar eru plöntur sem hafa aðlagast þurrum svæðum Afríku á svipaðan hátt og kaktusar aðlagast eyðimerkurloftslagi Mið-Ameríku. Tvær ættir plantna sem hafa þróast á svipaðan hátt til að aðlagast svipuðum umhverfisaðstæðum í tveimur heimsálfum.

Baobab finnst villt á gresjum landa í Afríku sem liggja sunnan Saharaeyðimerkurinnar, eyjunni Madagaskar og í Ástralíu. Í grein Skarphéðins G. Þórissonar, Baobab – apabrauðstré í Afríku, í bókinni Á sprekamó, sem gefin var út árið 2005 til heiðurs Helga Hallgrímssyni á sjötugsafmæli hans, segir að talið sé að baobab-fræ hafi borist sjóleiðina frá Afríku eða Madagaskar til Ástralíu. Þar hafa afkomendur fræsins eða fræjanna þróast sem sértegund.

Fjandans hippi.

Til skamms tíma töldust tegundir innan ættkvíslarinnar Adansonia, en svo kallast ættkvíslin sem baobab tilheyrir á latínu, vera átta en  rannsókn frá 2012 segir tegundirnar vera níu. Sex þeirra, Adansonia grandidieri, A. madagascariensis, A. perrieri, A. rubrostipa A. suarezensis og A. za, eru upprunnar og finnast villtar á Madagaskar og eru fimm þeirra taldar í útrýmingarhættu vegna breytinga á kjörlendi þeirra. Ein tegund, A. gregorii, finnst í Ástralíu. Tegundin A. digitata er algengasta baobab-tegundin á meginlandi Afríku. Árið 2012 var  A. kilima greind sem sértegund sem vex í sunnan- og vestanverðri Afríku. Ekki eru allir sammála þessari greiningu og telja að A. kilima sé einungis staðbrigði af A. digitata.

Latnskt heiti ættkvíslarinnar Adans­onia er til heiðurs franska náttúrufræðingnum Michel Adamson, sem var uppi 1727 til 1806 og fyrstur manna lýsti A. digitata. Heitið baobad kemur úr arabísku, ?? ????? (buhibab), og þýðir faðir margra fræja.

Risastór vatnstankur

Stærð og útlit baobab er ólíkt eftir tegundum. Hæð þeirra er frá 5 og upp í 40 metrar og breidd stofnsins getur náð allt af 47 metrum að ummáli. Baobab-þykkblöðungar vaxa yfirleitt stakir og setja sterkan svip á umhverfið þar sem þeir gnæfa yfir eins og steinrunnir risar.

Plantan fellir smátt og fingurlaga laufið strax að loknu regntímabilinu og stendur lauflaus í allt að níu mánuði á ári. Blóm plöntunnar eru gul eða hvít og með löngum fræflum og frævu og sjá skordýr um frjóvgun þeirra. Aldinin eru talsvert stór og geta náð 1,5 kílóum að þyngd. Að ytra borði eru þau flauelsmjúk viðkomu en að innan full af fræjum og aldinkjöti sem sagt er að sé bragðgott og með sítrónukeim, enda ríkt af C-vítamíni, kolvetnum og steinefnum.

Fáir voru á ferli þegar sólin kom upp og gríðarlega fallegt að horfa á Baobab-plönturnar í morgunmistrinu og morgunsólinni. 

Baobab dafnar best í þurrum og næringarsnauðum jarðvegi enda rótarkerfið bæði djúpt og víðfeðmt og ná ræturnar rúma tvo metra miður og allt að 50 metra út frá plöntunum. Yfir regntímann safna plönturnar í sig gríðarlegu magni af vatni og er talið að þær allra stærstu geti geymt allt að 120 tonn. Að regntímanum liðum eru plönturnar 80% vatn. Baobab er því nánast eins og stór vatnstankur.

Að utan er plantan með þykkan og fremur sléttan börk. Á sumum plantanna má sjá börkinn í fellingu sem hafa myndast við að plantan leggst eða kýtist saman undan eigin   þunga. Einnig eru dæmi þess að plöntur fall hreinlega saman undan eigin þunga. Að innan er stofninn gerður úr trefjakenndum svampvef. 

Þar sem baobab skilja ekki eftir sig árhringi er erfitt að segja til um aldur plantanna en annars konar aldursgreiningar benda til að baobab geti náð góðum 3000 ára aldri. Yfirleitt eru elstu baobab-plöntur í dag taldar vera milli 1.400 og 1.800 ára gamlar og þar með elstu dulfrævingar sem vitað er um.

Á meginlandi Afríku er baobab stundum kallað tréfíll vegna stærðarinnar.

Avenue des Baobab

Baobab-breiðstæti er rétt rúma 18 kílómetra utan við borginni Morondava sem er á vesturströnd Madagaskar. Nafn sitt dregur staðurinn af því að moldarþjóðvegur liggur í gegnum svæði með um 25 stórvaxnar baobab-plöntur á báðar hliðar sem allar eru af tegundinni A. grandidieri.

Í heimsókn minni til Madagaskar í apríl síðastliðnum heimsótti ég og samferðafólk mitt Baobab-breiðstræti tvisvar sama daginn. Einu sinni við sólarupprás og aftur við sólsetur og voru báðar heimsóknirnar upplifun sem gleymist seint.

Fáir voru á ferli þegar sólin kom upp og gríðarlega fallegt að horfa á baobab-plönturnar í morgunmistrinu og roðanum.

Seinni part dagsins, eftir að hafa skoðar lemúra í þjóðgarði þar sem meðal annars er að finna rannsóknarstöð Skógræktarinnar á Madagaskar, heimsóttum við tvær allsérstæðar baobab-plöntur af tegundinni A. za sem er að finna í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Baobab-breiðstræti. Sérkennilegheit plantnanna er að stofnar þeir hafa snúist saman í vexti og í dag faðma þær hvor aðra. Saga segir að vaxtarlagið sé tákn um ást og drauma tveggja ungmenna sem ekki fengu að eigast. 

Höfundur við Adansonia za í faðmlagi.  Mynd / Skarphéðinn G. Þórisson.

Undir sólsetur var komið aftur á Baobab-breiðstræti og horft á þessar tignarlegu plöntur umvefjast myrki á meðan sólin settist.

Tré á hvolfi

Til eru nokkrar sögur sem ætlað er að skýra hina sérkennilegu lögun baobab-plöntunar, sem margir segja að líkist tré á hvolfi eða með ræturnar upp í loft.

Í áðurnefndri grein Skarphéðins G. Þórissonar segir að landkönnuðurinn og trúboðinn David Livingstone hafi líkt vexti baobab á meginlandi Afríku við risastóra gulrót sem stæði á haus. Þar segir einnig að eitt sinn hafi baobab-tré verið fagurt en gortað sig mjög af því við önnur tré. Hin trén þoldu það illa og kvörtuðu við guð sem refsaði baobab-trénu með því að snúa fræi þess ætíð öfugt. Í annarri sögu segir að trén hafi ekki viljað standa kyrr og því hafi guð rifið þau upp og rekið öfug ofan í jörðina til að kyrrsetja þau. Afrískir búskmenn trúa að guðinn Thora hafi viljað losna við tréð úr garðinum sínum, rifið það upp með rótum og hent því og að það hafi lent öfugt á jörðinni en haldið áfram að lifa þannig.

Greinar baobab eru lauflausar í allt að níu mánuðir á ári.

Sagan segir að þjónar Livingstone, Chunna og Susi, hafi skorið úr honum hjartað og fjarlægt innyflin eftir andlátið og grafið í tinkassa undir baobab skammt frá þeim stað sem hann lést í Tansaníu árið 1873. 

Áletrun með nafni Livingstone og árið sem hann lést var rist í börkinn og er barkaráletrunin í dag varðveitt á safni í London. Mary, eiginkona Livingstone, mun einnig vera grafin undir baobab en þar sem í dag er Móosambík. Hún lést árið 1762 úr malaríu eftir að hafa elt mann sinn til Afríku í von um að finna hann.

Í Ástralíu segja innfæddir að trjánum rigni af himnum og að efri hlutinn, sem er þyngri, stingist því í jörðina.

Litli prinsinn

Baobab, eða öllu heldur baobab-tré, koma við sögu í bókinni Litli prinsinn eftir Frakkann Antoine de Saint-Exupéry, sem kom fyrst út árið 1943. Í sögunni segir prinsinn frá baobab-trjám sem eru alltaf á mörkum þess að yfirtaka heimaplánetu hans hvað sem hann eyðir miklum tíma í að uppræta þau. Prinsinn segir að það verði að ná trjánum á meðan þau eru ung því að nái þau að vaxa og dafna hafi rætur þeirra skelfileg áhrif á jarðveginn á litlu stjörnunni hans og geti jafnvel klofið hana í tvennt. Prinsinn óskar þess helst að eignast kindur sem geti bitið baobab-tré en hræðist  um leið að féð muni einnig bíta þyrnirunnana sem eru rósirnar hans. Sögumaður, sem er brotlentur flugmaður, segir prinsinum að því miður muni sauðfé ekki ráða við fullvaxin baobab-tré þar sem þau séu eins og stórar kirkjur að stærð og reyndar það stór að heil hjörð fíla gæti kannski étið eitt slíkt tré. Litla prinsinum kemur þá til hugar að ef til vill megi stafla upp fílum hver ofan á öðrum og auka þannig fjölda þeirra til að eyða trjánum en áttar sig fljótt á því að best sé að eyða trjánum á meðan þau eru lítil og helst áður en þau spíra.

Ýmsar greiningar hafa verið gerðar á hlutverki baobab-trjánna í sögunni og telja flestir að þau tákni ill öfl eða illar og skaðlegar hugsanir sem verður að uppræta strax áður en þær ná að skjóta rótum. Vert er að geta þess að höfundur bókarinnar var flugmaður í seinni heimsstyrjöldinni og segja sumir að illu baobab-trén í sögunni séu táknmynd nasisma.

Innfæddir á leiðinni á markað.

Baobab-nytjar

Auk þess sem fuglar gera sér hreiður í greinum baobab-þykkblöðunga hýsa plönturnar heilu vistkerfin sem rúma meðal annars sveppi, leðurblökur, kamelljón, snáka og fjöldann allan af skordýrum.

Mannfólkið nýtir laufblöðin í salat og soðið er sagt að laufið bragðist svipað og spínat og það er nýtt til lækninga. Aldinkjötið er étið beint úr aldininu. Aldinið er soðið í mauk og það notað til að búa til ís sem kallast gelado de múcua. Það er einnig þurrkað og mulið í duft sem er sagt vera fullt af vítamínum. Börkurinn er trefjaríkur og notaður til vefnaðar í reipi, körfur, klæði og höfuðföt.

Fræ A. grandidieri og A. za þykja góð fersk og ristuð og eru stundum pressuð í jurtaolíu. Í Tansaníu eru mulin fræ, A. digitata, blönduð með sykurreyr til að flýta fyrir gerjun við bjórgerð.

Innfæddir í Ástralíu vefja rótartrefjar, A. gregorii, í spotta og nýta aldinið í skrautmuni og fræolíuna í rakakrem. Auk þess sem vinna má litarefni úr plöntunum.

Í títtnefndri grein Skarphéðins S. Þórissonar segir að sum stór baobab séu hol að innan og önnur holuð af mönnum. Rými er nýtt sem geymslur, salerni, heimili, fangelsi, verslanir og veitingahús. Í Sambíu er að finna tré sem getur hýst 40 manns. Því er líka trúað að ekkert geti grandað þeim sem fela sig inni í holu baobab og því konum og börnum troðið í holur í trjánum þegar hætta steðjar að.

Gömul baobab drepast vegna veðurfarsbreytinga

Nokkur af elstu baobab í Afríku hafa drepist síðustu árin. Talið er að trén, sem eru milli 1.100 og 2.500 ára gömul, hafi drepist vegna veðurfarsbreytinga í kjölfar hlýnunar jarðar.

Síðustu tólf ár hafa níu af þrettán elstu plöntunum drepist eða drepist að hluta. Óvenjulegt er að svo mörg gömul baobab drepist á svo skömmum tíma og er talið að ástæða þess séu veðurfarsbreytingar af manna völdum.

Á árunum 2005 til 2017 var safnað upplýsingum um sextíu elstu og stærstu baobab-plöntur í Afríku og þær mældar og skoðaðar í bak og fyrir. Tilgangur rannsóknanna var meðal annars að komast að því hvernig plönturnar ná eins háum eldri og raun ber vitni.

Til þessa hafa baobab-plönturnar staðið af sér aldalangan ágang dýra og lifað af skógarelda og langa þurrka án þess að láta á sjá. Núverðandi veðurfarsbreytingar vegna hlýnunar jarða virðist ætla að vera þeim um megn. Baobab gæti því áður en langt er um liðið bæst á minningarlista yfir útdauðar tegundir af mannavöldum.

 

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...