Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Kínversk skip. Kína ber höfuð og herðar yfir aðrar fiskveiðiþjóðir. Kínverjar veiddu um 15,5 milljónir tonna af fiski árið 2016, eða tæp 17% af heildinni.
Kínversk skip. Kína ber höfuð og herðar yfir aðrar fiskveiðiþjóðir. Kínverjar veiddu um 15,5 milljónir tonna af fiski árið 2016, eða tæp 17% af heildinni.
Fréttaskýring 27. desember 2019

Helmingur af fiskneyslu heims kemur frá fiskeldi

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Fiskur gegnir mikilvægu og vaxandi hlutverki í fæðuöflun jarðarbúa. Heimsaflinn hefur verið nokkuð stöðugur um langt árabil en hlutur fiskeldis eykst jafnt og þétt. Eldið var komið í 47% af heildarframboði í fyrra og stefnir í tæp 49% í ár.

Alþjóðamatvælastofnunin (FAO) heldur utan um tölur um heimsframboð á fiski. Í skýrslu frá FAO sem út kom fyrr á þessu ári segir að heimurinn hafi haft til ráðstöfunar 178 milljónir tonna af fiski á árinu 2018. Er það um 2,2% aukning frá árinu 2017. Svona til að setja þessar tölur í samhengi þá veiddu Íslendingar tæpar 1,3 milljónir tonna af fiski árið 2018. Heimsframboðið árið 2018 skiptist þannig að 94,5 milljónir tonna koma frá hefðbundnum fiskveiðum og 83,2 milljónir tonna frá fiskeldi.

Vatnakarpi og skyldar tegundir skipa efsta sætið í fiskeldi. Framleiðslan nam samanlagt um 28,3 milljónum tonna 2017 sem er gríðarlegt magn.

Í þessari grein verður gluggað í nokkrar tölur FAO um fiskveiðar og fiskeldi, svo sem heildarmagn og hverning skipting er milli landa og einstakra tegunda o.fl. Nýjar tölur liggja ekki fyrir í öllum tilvikum og því er ýmist verið að fjalla um árin 2018, 2017 eða 2016.

Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess að orðið „fiskur“ í skýrslu FAO er til einföldunar gjarnan notað sem safnheiti yfir ýmsar aðrar tegundir en fisk, svo sem rækjur, krabba, skeljar o.fl. Veiðar á sjávarspendýrum eru ekki inni í þessum tölum.

Hátt verð og mikil verðmæti

Samkvæmt tölum FAO var aflaverðmæti veiða og verðmæti eldis í heiminum metið á um 362 milljarða dollara árið 2016, eða tæpa 45 þúsund milljarða íslenskra króna. Þar af var verðmæti eldis 232 milljarðar dollara, tæpir 29 þúsund íslenskir milljarðar.

Vegna mikillar eftirspurnar var verð á fiskafurðum hátt árin 2017 og 2018. Í skýrslu FAO er birt þróun vísitölu fiskverðs síðustu áratuga. Hún fór í hæstu hæðir frá upphafi mælinga í mars í fyrra en lækkaði lítillega þegar leið á árið. Verðþróunin á síðasta ári var þó ekki öll á einn veg, verð á eldisfiski lækkaði að meðaltali en verð á villtum fiski hækkaði.

Verð í byrjun árs 2019 var enn hátt í sögulegu samhengi. Viðskiptastríð milli Kína og Bandaríkjanna og Brexit hafa skapað óvissu um viðskipti með fisk í heiminum á þessu ári.

Eldisfiskur 53%

Megnið af heimsframboði á fiski fór til manneldis, eða um 88% af heild árið 2018. Restin fór í framleiðslu á fiskimjöli eða var ráðstafað á annan veg.

Fiskneysla í heiminum hefur aukist gríðarlega. Árið 1961 sporðrenndi hver maður einungis 9 kílóum að meðaltali en neyslan er nú komin í 20,4 kíló á mann á ári. Neyslan hefur því meira en tvöfaldast á þessu tímabili.

Fiskneysla á mann skiptist þannig að 9,5 kíló koma frá veiðum en 10,9 kíló koma frá eldi. Eldisfiskur er þannig kominn í 53% af fiskneyslu jarðarbúa. Ráðstöfun á fiski til mjölframleiðslu minnkar hlutdeild veiðanna í fiskneyslunni.

Ekki liggja fyrir nýlegar tölur um fiskneyslu Íslendinga. Oft er vitnað til könnunar sem gerð var fyrir allnokkrum árum sem sýndi að neyslan væri 46 grömm á dag sem gera tæp 17 kíló á mann á ári. Samkvæmt því er fiskneysla hjá fiskveiðiþjóðinni Íslandi undir meðaltali í heiminum.

Ansjósur við Perú eru alla jafna mest veidda tegundin í heiminum. Samkvæmt opinberum tölum í Perú nam veiðin 6 milljónum tonna árið 2018.

Ansjósur oftast í fyrsta sæti

Þótt FAO hafi birt gögn um áætlaðan heildarafla á árinu 2018 þá þarf að fara til ársins 2016 til að fá nánari upplýsingar um skiptingu afla á einstakar tegundir og veiðiþjóðir.

Ansjósa við Perú hefur um langt árabil verið mest veidda fisktegund í heiminum. Hún lenti þó í öðru sæti á heimslistanum 2016, með tæp 3,2 milljónir tonna, vegna slæms ástands stofnsins af völdum veðurfyrirbærisins El Nino. Það ár var alaskaufsi í fyrsta sæti með tæp 3,5 milljónir tonna. Í þriðja sæti var randatúnfiskur með rúm 2,8 milljónir tonna. Þetta er sá túnfiskur sem við kaupum aðallega í dósum.
Ansjósustofninn rétti úr kútnum, að minnsta kosti um stundarsakir. Samkvæmt opinberum tölum í Perú nam veiðin 6 milljónum tonna árið 2018, sú mesta á sex árum.

Ef við horfum á tegundir sem Íslendingar þekkja best þá veiddust rúmar 1,6 milljónir tonna af síld í heiminum, þar af  tæpar 1,5 milljónir tonna í Norðaustur-Atlantshafi. Þorskur skilaði rúmum 1,3 milljónum tonna.

Kínverjar veiða mest

Kína ber höfuð og herðar yfir aðrar fiskveiðiþjóðir. Kínverjar veiddu um 15,5 milljónir tonna af fiski árið 2016, eða tæp 17% af heildinni. Indónesía er í öðru sæti með tæp 6,2 milljónir tonna. Bandaríkin verma þriðja sætið með um 4,9 milljónir tonna. Perú er ekki í þrem efstu sætum þetta árið vegna ansjósubrests, eins og fyrr er sagt. Þess má geta að Ísland var í 18. sæti á heimslistanum árið 2016, með tæp 1,1 milljón tonna eða um 1,2% af heimsaflanum.

Gríðarlegt magn af vatnakarpa

Kína er einnig langstærsta landið í eldi á fiski, með yfir helming framleiðslunnar.
Ljúkum þessari yfirferð um heimsframboð á fiski með því að líta á framleiðslu á helstu tegundum í fiskeldi á árinu 2017.

Í nokkrum efstu sætunum eru tegundir sem Íslendingar þekkja vart nema af afspurn. Vatnakarpi og skyldar tegundir skipa efsta sætið. Framleiðsla á vatnakarpa, sem er ferskvatnsfiskur, nam samanlagt um 28,3 milljónum tonna sem er gríðarlegt magn. Tilapia er í öðru sæti með 5,9 milljónir tonna. Ostrur eru í þriðja sæti með 5,7 milljónir tonna.

Rækjur eru í 8. sæti með 5,5 milljónir tonna og lax og silungur koma næst á eftir með alls 3,5 milljónir tonna. Um er að ræða hlýsjávarrækjur sem Íslendingar þekkja sem risarækjur.
Spáð er aukinni eftirspurn eftir fiski í framtíðinni og til að anna þeirri eftirspurn þarf að efla fiskeldið enn frekar.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...