Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Sinnepsakur í Bangladesh, úðaður með skordýraeitri.
Sinnepsakur í Bangladesh, úðaður með skordýraeitri.
Mynd / Shad Arefin Sanchoy - Unsplash
Fréttaskýring 14. mars 2022

Ísland er í 154 sæti af 160 þjóðum með eina allra minnstu eiturefnanotkun á heimsvísu

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Ríflega fjórar milljónir tonna af skordýraeitri, gróðureyðingar­efnum og sveppaeitri hafa verið notaðar í landbúnaði 160 ríkja á ári hverju. Jarðvegsmengun vegna notkunar slíkra efna veldur sívaxandi áhyggjum. Töluvert af þessum efnum endar í korni og öðrum matvælum og í raun veit enginn hvaða langtímaáhrif það hefur á heilsu fólks.

Mikið hefur verið rætt um áhrif efna í plastiðnaði, m.a. ófrjósemi og myndun krabbameina, en markvisst hefur verið reynt að þagga niður áhrif efnanotkunar í landbúnaði. Þá hefur verið sýnt fram á að öflugur svartur markaður þrífst í Evrópu og víðar í viðskiptum með skordýraeitur og ýmis gróðureyðingarefni sem innihalda efni sem hafa verið bönnuð í Evrópu. Þannig er ljóst að opinberar tölur sýna ekki allan sannleikann um notkun hjálparefna í landbúnaði víða um lönd.

Ekkert virðist geta stöðvað þessa þróun sem kynt er undir af sterkum fjármálaöflum. Eini möguleikinn virðist vera stórhertar reglur um notkun eiturefna í landbúnaði samfara öflugri hugarfarsbreytingu neytenda og stóreflingu á lífrænum landbúnaði í heiminum. Á móti er beitt þeirri lífseigu röksemd að ómögulegt sé að fæða alla jarðarbúa án þess að beita öflugum efnahernaði gagnvart jörðinni. Magn margs konar eiturefna hefur haldið áfram að aukast hröðum skrefum frá 1960 með tilheyrandi mengun jarðvegs og grunnvatns. Á sama tíma er verið að taka ræktunarland undir aðra starfsemi í heiminum í stórum stíl að því er sjá má m.a. í skýrslunni Statistical Yearbook FAO 2021. 

Gríðarlegir peningahagsmunir

Eftir miklu er að slægjast því talið er að markaður með hjálparefni í landbúnaði hafi aukist úr 80,27 milljörðum dollara á árinu 2020 í 84,82 milljarða dollara á árinu 2021, þrátt fyrir heimsfaraldur af völdum Covid-19. Það er árs­vöxtur upp á 5,7%. Þá er búist við að markaðurinn með slíkar vörur haldi áfram að vaxa fram til 2025 og verði þá kominn í 109,75 milljarða dollara. Þetta er fyrir utan umtalsverð svartamarkaðsviðskipti með slíkar vörur. Helstu fyrirtæki í framleiðslu á skordýraeitri, gróður- og sveppaeyðingarefnum eru þýski efnarisinn Bayer AG, svissneska fyrirtækið Syngenta AG, BASF SE í Þýskalandi, Dow Chemical Company (TDCC) í Bandaríkjunum og China National Chemical Corporation (Chemchina).

Ísland í betri stöðu en flestar aðrar þjóðir

Líkt og varðandi mikla sýklalyfja­notkun, sem er stórvandamál í verksmiðjubúskap víða um lönd, þá eru Íslendingar samkvæmt alþjóðlegum talnagrunnum að mestu lausir við notkun skordýraeiturs og gróðureyðingarefna í landbúnaði. Ísland er í sjöunda neðsta sæti, eða númer 154 af 160 þjóðum hvað heildarmagn varðar í notkun „hjálparefna“ í landbúnaði. Erum við með 20 grömm á hektara sé það reiknað niður á ræktað land. Hér á landi er hins vegar mest af þessum skordýra- og gróðureyðingarefnum sem flutt eru inn notuð í görðum í þéttbýli og á golfvöllum landsins.

Það þýðir þá jafnframt að matvæli sem hér eru framleidd ættu að innihalda minna af skaðlegum efnum en matvæli flestra annarra þjóða í heiminum. 

Kína og Bandaríkin nota mest 

Samkvæmt tölfræðivöktun Worldo­meter um eitur- og hjálparefna­notkun í landbúnaði í 160 löndum var mest notað af slíkum efnum í Kína 2017, eða 1.763.000 tonn, og næstmest í Bandaríkjunum, eða 407.779 tonn. Gríðarleg aukning hefur verið í notkun slíkra efna í Kína frá 1991, en mest var notkunin 2014, eða  rúmlega 1,8 milljónir tonna. Mun lengri hefð er fyrir slíkri efnanotkun í Bandaríkjunum og hefur hún að meðaltali haldist nokkuð stöðug frá 1991 þó hún hafi verið mest 1999, eða nær 434 þúsund tonn. Frá 2012 hefur magnið verið nær óbreytt nær 408 þúsund tonnum í Bandaríkjunum eftir töluverðan samdrátt í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Árið 2009 var heildarmagnið í Bandaríkjunum komið niður í 358 þúsund tonn, sem var það minnsta frá 1991, en síðan fór notkunin að aukast á ný.

Meira að segja í Úkraínu sem státar af einhverjum besta jarðvegi í heimi til ræktunar, svörtu moldinni, er notkun eiturefna gríðarleg. Er landið þar í sjötta sæti með 78.201 tonn, eða 2,3 kg á hvern hektara ræktarlands.

Worldometer sótti grunngögn sín í tölur frá FAOSTAT, The State of Food Insecurity in the World – FAO, United Nations Population Division, United Nations Statistics Division og World Bank. Í töflunni eru gögnin teiknuð upp til ársloka 2017. Síðan virðist notkunin hafa aukist á flestum stöðum í það minnsta til 2020. 

Svartur markaður, svik og prettir

Fyrir utan opinberar tölur um notkun eiturefna í landbúnaði þykir sannað að gríðarlegur svartur markaður er með slíkar vörur í Evrópu og víðar um lönd. Í grein á vefsíðu Euractiv í júní á síðasta ári var greint frá eftirliti Europol með ólöglegri notkun hjálparefna í landbúnaði. Frá janúar til apríl í fyrra gerði Europol upptæk 1.203 tonn af ólöglegum hjálparefnum til landbúnaðarnota. Þessi árangur var afrakstur af sérstakri aðgerð Europol sem nefnd var „Silver Axe“ og stóð yfir frá 13. janúar til 25. apríl 2021. Fór aðgerðin fram í samvinnu lögregluembætta í 35 löndum, þar á meðal í 27 ríkjum Evrópusambandsins.

Var aðgerðinni beint gegn ólöglegum innflutningi, svindli og ólöglegum viðskiptum með skordýraeitur og ýmiss konar gróðureyðingarefni. Í aðgerðunum var tilkynnt um 763 brot á lögum og fundust efni í 258 tilvikum. Leiddi þetta til handtöku á 12 einstaklingum. Sannað þótti að blekkingum hafði verið beitt varðandi 100 tonn af slíkum efnum þar sem merkingum hafði verið breytt fyrir sölu og voru 82 tonn til viðbótar til rannsóknar af sömu ástæðu.

Europol telur að meginuppspretta ólöglegra hjálparefna fyrir landbúnað sé í Asíu. Hins vegar er bent á að mjög vaxandi viðskipti séu með slík efni í netsölu. Ganga þessi efni undir ýmsum nöfnum og innihalda oftar en ekki efni sem búið er að banna í löndum Evrópusambandsins. Þannig upplýsti búlgarski rannsóknarblaðamaðurinn Valia Ahchieva um notkun ólöglegra efna í fyrra undir nafninu Mocap. Það innihélt efni sem bönnuð höfðu verið af Evrópusambandinu, en voru samt í notkun og meira að segja niðurgreidd af landbúnaðarráðuneyti Búlgaríu. Allt var þetta gert undir „European Green deal“ samningi sem gerir ráð fyrir að ESB verði loftslagshlutlaust fyrir árið 2050 og Evrópuþingmenn heita kjósendum sínum að þeir muni fá öruggan og hollan mat. Þetta hefur líka verið kallað  „græn bjartsýni“ í erfiðleikum við að finna frjóan jarðveg í sumum aðildarríkjum, þar sem Búlgaría er sagt gott dæmi.

Mjög mikil notkun eiturefna og annarra hjálparefna í okkar helstu viðskiptalöndum

Ísland kaupir mikið af korn­vöru, ávöxtum og grænmeti til mann­eldis frá Bandaríkjunum þar sem notkun „hjálparefna“ nemur að meðaltali um 2,5 kg á hektara, eða 125 sinnum meira en á Íslandi. Geta má þess að notkun skordýraeiturs í landbúnaði er hvergi meiri en í ávaxtarækt. Þá kaupa Íslendingar mikið af kjötvörum, ávöxtum,  grænmeti og víni frá Spáni þar sem notkunin nemur 3,6 kg á hektara, eða 180 sinnum meira en á Íslandi. Við fáum líka margvíslegar landbúnaðarvörur frá Frakklandi þar sem notkun fyrrgreindra efna er jafn mikil á hektara og á Spáni. Frá Þýskalandi fáum við m.a. kjöt og fjölda annarra landbúnaðarafurða en þar er efnanotkunin 4 kg á hektara, eða 200 sinnum meiri en á Íslandi. Ýmsar vörur fáum við einnig frá Ítalíu þar sem efnanotkunin er 6,1 kg á hektara, eða 305 sinnum meiri en á Íslandi.

Danmörk notar mest allra Norðurlandanna af hjálparefnum

Sé litið á Norðurlöndin, þá er notkunin langminnst á Íslandi, bæði í heildarmagni og reiknað á hektara ræktaðs lands. Noregur kemst næst okkur, en er samt með 40 sinnum meiri notkun á hektara. Sem fyrr segir er Ísland með 2,5 tonn og 20 grömm á hektara á meðan Danmörk er með mesta notkun Norðurlandaþjóða, eða 2.630 tonn og 1,1 kg á hektara. Svíþjóð er með 1.524 tonn og 0,6 kg á hektara. Finnland er með 1.372 tonn og 0,6 kg á hektara. Þá kemur Noregur með 671 tonn og 0,8 kg á hektara. 

Langmest notkun á hektara á Maldíveyjum 

Miðað við notkun á hektara ræktaðs lands er notkunin hins­ vegar hlut­fallslega langmest á Maldív­eyjum, eða 52,6 kg á hektara, á meðan Kína er með 13,1 kg á hektara og Bandaríkin með 2,5 kg.

Ísland er í 154. sæti af 160 löndum í notkun eitur- og hjálparefna með 2,54 tonn, eða 0,02 kg (20 grömm)  á hektara sé því deilt niður á ræktað land.

Önnur lönd sem nota mikið af skordýraeitri og gróðureyðingar­efnum á hvern hektara ræktaðs lands, eða yfir 10 kg, eru Trínidad og Tóbagó með 24,9 kg á hektara, Kosta Ríka með 22,5 kg á hektara, Ekvador með 13,9 kg á hektara, Taívan með 13,5 kg á hektara, Ísrael með 12,6 kg á hektara, Suður-Kórea með 12,4 kg á hektara, Japan með 11,8 kg á hektara og Gvatemala með 10 kg á hektara.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...