Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Karpað um hryggi og hryggjarstykki
Fréttaskýring 19. ágúst 2019

Karpað um hryggi og hryggjarstykki

Höfundur: Vilmundur Hansen

Ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara lagði til við landbúnaðarráðherra 26. júlí að gefinn yrði út tímabundinn innflutningskvóti á lækkuðum tollum til að bregðast við skorti á innlendum lambahryggjum og hryggsneiðum. Tillagan var dregin til baka þar sem við nánari athugun kom í ljós að talsvert var til af hryggjum í landinu. 

Samkvæmt tillögu ráðgjafarn­efndar­innar stóð til að Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra veitti leyfi til að flytja inn lambahryggi og sneiðar á lækkuðum tollum á tímabilinu 29. júlí til 30. ágúst. Vegna fullyrðinga um að nóg væri til af hryggjum hjá sumum afurðastöðvum fól landbúnaðarráðherra ráðgjafar­nefndinni að endurskoða birgða­stöðuna og í framhaldi af því dró hún tillögu sína til baka.

Lög um skort

Svo virðist sem tillagan hafi verið lögð fram þar sem hryggir voru uppseldir hjá Kaupfélagi Skagfirðinga og birgðastaðan lág hjá Norðlenska. Samkvæmt gildandi lögum er það hlutverk ráðgjafarnefndarinnar að meta hvort skortur sé á tiltekinni vöru en til þess að svo sé þurfa tiltekin lagaskilyrði að vera uppfyllt, meðal annars þarf varan að vera fáanleg frá ákveðnum fjölda framleiðenda. Ef skortur er fyrir hendi skal nefndin gera tillögu til ráðherra um úthlutun tollkvóta þannig að heimilt sé að flytja umrædda vöru inn til landsins á lægri tollum.

Skortur lá fyrir að sögn Félags atvinnurekenda

Talsvert var karpað um tillöguna og gerði Félag atvinnurekenda meðal annars athugasemdir við tímabilið sem tollalækkunin átti að ná til og sagði það of stutt til að hægt væri að finna kjöt og flytja það til landsins. Þrátt fyrir það kom síðar í ljós að talsvert magn af hryggjum var á leið til landsins.

Ólafur Stephensen, framkvæmda­stjóri Félags atvinnurekenda, sagði meðal annars á heimasíðu FA að legið hafi fyrir vikum saman að það stefndi í skort á lambahryggjum. Hann sagði einnig að innlendar afurðastöðvar hafi selt lambahryggi til útlanda í stórum stíl, á verði sem væri miklu lægra en það sem innlendri verslun stæði til boða. „Þannig er búinn til skortur.“

Sauðfjárbændur hvöttu til að slátrun yrði flýtt

Í yfirlýsingu sem Landssamtök sauðfjárbænda sendu frá sér vegna málsins hvatti LS sláturleyfishafa til að flýta slátrun og fullyrtu að ekki stæði á sauðfjárbændum að koma með lömb til slátrunar. Þar segir einnig að samkvæmt heimildum LS komi meirihluti erlendu hryggjanna sem átti að flytja inn frá Nýja-Sjálandi og bentu samtökin á að rúmir 17 þúsund kílómetrar væru á milli landanna.

SS átti nóg af hryggjum

Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, sagði í samtali við Bændablaðið vegna hugsanlegs innflutnings að SS ætti nóg af hryggjum. Hann sagði einnig umræðuna um útflutning á hryggjum byggða á misskilningi þar sem 13 rifja klofnir hryggir séu flokkaðir undir sama tollanúmer og hryggir. „Afurðin er tekin af minnstu skrokkunum og er í raun allt önnur vara og innan við helmingur þess sem Íslendingar eiga að venjast og vilja kaupa sem hrygg. Í þetta eru valdir minnstu skrokkarnir sem hafa hryggi og eru varla boðlegir á innanlandsmarkaði.“

Skorturinn endurskoðaður

Við endurskoðun á birgðastöðu hryggja kom í ljós að talsvert var til af hryggjum hjá sumum afurðastöðvum og höfðu afurðastöðvarnar verslað með þá sín á milli. Norðlenska keypti til dæmis hryggi af Fjallalambi á Kópaskeri til að bæta birgðastöðu sína, auk þess sem hugmyndir voru uppi um að SKVH á Hvammstanga myndi hefja slátrun fyrr til að mæta kröfum innanlandsmarkaðar. Nú þegar er hafin slátrun þar á bæ.

Fyrsta ágúst komst ráðgjafar­nefndin að þeirri niðurstöðu að ekki væri lengur fyrir hendi skortur á lambahryggjum. Í framhaldi af því dró Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra innflutningsleyfið til baka og ekkert varð af innflutningi á lambahryggj­unum á lækkuðum tollum. 

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...