Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Þurrkaður kolmunni á fiskmarkaði í Nígeríu árið 2012. Mynd /Sigurjón Arason.
Þurrkaður kolmunni á fiskmarkaði í Nígeríu árið 2012. Mynd /Sigurjón Arason.
Fréttaskýring 9. mars 2020

Kolmunninn er með mest veiddu fisktegundum í heimi

Höfundur: Kjartan Stefámsson

Kolmunni er mikilvægt hráefni fyrir fiskmjölsiðnaðinn hér á landi. Árið 2018 voru kolmunnaafurðir tæp 5% af útflutningsverðmæti sjávarafurða.

Kolmunni ratar ekki oft í fréttir af sjávarútvegi en hann er einn af fimm uppsjávarfiskistofnum sem veiddir eru af íslenskum skipum. Hinir eru loðna, norsk-íslensk síld, íslensk sumargotssíld og makríll.

Ólíkt hinum stofnunum er kolmunni nær eingöngu veiddur sem hráefni fyrir fiskmjölsverksmiðjur en takmarkað til manneldis. Loðnan var reyndar hér í eina tíð mikilvægasta hráefnið í fiskmjölsvinnslu en í seinni tíð hefur kvótinn verið það lítill að flest árin dugir hann rétt til þess að sinna mörkuðum fyrir loðnuafurðir til manneldis. Í fyrra var loðnubrestur og það sama verður upp á teningnum í ár.

Kolmunni.

Ljótur fiskur á plani

Nafn sitt fær kolmunninn af því að hann er svartur um munninn. Færeyingar kalla þennan fisk svartkjaft en enska heitið er blue whiting.

Kolmunni var lítt þekktur fiskur hér við land lengi vel. Undir lok síldarævintýrisins á sjöunda áratug síðustu aldar þurfti að sækja síldina langt út í haf. Þá fór að bera á svipljótum fiski sem meðafla sem reyndist vera kolmunni. Greinarhöfundur vann þá á síldarplani á Siglufirði og sá þennan framandi fisk í fyrsta sinn, gráan og slepjulegan með stór augu, og þótti lítið um. Kolmunnanum var safnað saman og hent í gúanó.

Frændi þorsksins

Kolmunni er af þorskfiskaætt. Hann getur orðið allt að 50 sentímetrar á lengd en er oftast 25 til 40 sentímetrar. Hann heldur sig mest í úthafinu, miðsævis eða í uppsjónum á 200 til 400 metra dýpi. Aðal hrygningarsvæðið í Norðaustur-Atlantshafi er við landgrunnsbrúnirnar norðvestan og vestan við Bretlandseyjar. Hann hrygnir þar í febrúar. Kolmunninn hrygnir í smærri stíl suðvestur af Íslandi, við Færeyjar og í norsku fjörðunum.

Eftir hrygningu fer hrygningar­stofninn í ætisgöngur norður í höf. Torfurnar fara fram hjá Færeyjum, um hafið milli Íslands og Noregs og jafnvel allt norður í Barentshaf. Fiskarnir halda síðan sömu leið til baka þegar haustið gengur í garð.

Ofarlega á heimslista

Kolmunni er meðal mest veiddu fisktegunda í heiminum. Árið 2017 var hann í 5. sæti á heimslistanum með um 1,6 milljónir tonna og í 2. sæti yfir fisktegundir veiddar í Norður-Atlantshafi.

Veiðar á kolmunna í Norðaustur-Atlantshafi hófust þó ekki að neinu marki fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar. Íslendingar fóru snemma að reyna við kolmunnann en með litlum árangri fyrst í stað. Hæst fór aflinn þá í 35 þúsund tonn árið 1978. Finna þurfti réttu veiðarfærin en flottrollið reyndist best. Einnig skorti skipin vélarafl til þessara veiða í upphafi.

Á níunda og tíunda áratug lágu veiðar Íslendinga niðri nær samfellt í 10 ár. Árið 1998 tóku þær kipp og fóru í 160 þúsund tonn árið eftir. Hæst fór veiði íslenskra skipa í rétt rúm 500 þúsund tonn árið 2003.

Mest fór heildarveiði allra þjóða á kolmunna í tæp 2,4 milljónir tonna árið 2004.

Norðmenn veiða mest

Árið 2018 var heildarveiði á kolmunna rétt rúmar 1,7 milljónir tonna. Norðmenn veiddu mest allra þjóða eða rúm 438 þúsund tonn, Færeyingar komu þar á eftir með tæp 350 þúsund tonn og Íslendingar voru í þriðja sæti með tæp 293 þúsund tonn, eða um 17% af heildinni.

Alþjóðahafrannsóknaráðið lagði til að hámarksafli kolmunna árið 2020 væri rúm 1.162 þúsund tonn. Strandríkin Noregur, Færeyjar, Ísland og ESB hafa komist að samkomulagi um að hlíta þessari ráðgjöf.

Hins vegar hefur ekki náðst frekar en svo oft áður að semja um skiptingu heildarkvótans á milli strandríkja. Ísland hefur einhliða gefið út 188.530 tonna heildaraflamark í kolmunna fyrir árið 2020.

Fá skip og risastórir farmar

Á síðasta ári veiddu Íslendingar rúm 268 þúsund tonn af kolmunna. Aflahæsta skipið var Víkingur AK, sem Brim gerir út, með tæp 28 þúsund tonn. Tiltölulega fá skip stunda kolmunnaveiðar. Tíu hæstu skipin veiddu samtals rúm 213 þúsund tonn eða um 80% af heildinni.

Þess má geta að uppsjávarfloti Íslendinga er nú mjög öflugur og burðargeta skipanna mikil. Þetta kemur sér vel við kolmunnaveiðar, einkum þegar sækja þarf á fjarlæg mið. Beitir NK landaði í Neskaupstað á síðasta ári 3.212 tonnum af kolmunna og er það stærsti farmur sem íslenskt fiskiskip hefur komið með að landi. 

Þrjár útgerðir með 75% kvótans

Kolmunni er meðal þeirra fisktegunda þar sem mjög mikil samþjöppun hefur orðið í kvóta. Kvótahæsta skipið í ár er Jón Kjartansson SU 311 með tæp 42 þúsund tonn.

Ef litið er á einstakar útgerðir eða sjávarútvegsfyrirtæki þá eru skip Síldarvinnslunnar með mestan kvóta, eða 30% af heild, Eskja kemur þar á eftir með rúm 23% og Brim er í þriðja sæti með 21%. Þrjú útgerðarfélög ráða þannig yfir rétt tæpum 75% af kolmunnakvótanum.

Mest veitt í færeyskri landhelgi

Íslensk skip veiða kolmunnakvóta sinn aðallega í færeyskri landhelgi. Kolmunninn er bæði veiddur þar þegar hann fer í ætisgöngur norður á bóginn og þegar hann kemur til baka feitur og pattaralegur á leið á hrygningarslóðir. Einnig geta íslensk skip veitt kolmunna á alþjóðlegu hafsvæði vestur af Írlandi en þar eru veður oft válynd í febrúar og byrjun mars.

Að sjálfsögðu er veitt í íslenskri lögsögu. Á árunum 1997 til 2005 voru um 61% aflans veidd innan íslenskrar lögsögu. Mikil breyting hefur orðið síðan þá og nú eru aðeins 12% til 14% aflans veidd á Íslandsmiðum. Ástæðan er einkum sú að skipin hafa verið upptekin við makrílveiðar þegar kolmunni er innan okkar lögsögu.

Tæp 5% af útflutningsverðmæti

Kolmunni er mikilvægur fiskur í íslenskum sjávarútvegi. Aflaverðmæti þeirra 293 þúsund tonna sem veiddust árið 2018 námu tæpum 6,4 milljörðum króna. Erlend skip lönduðu hér auk þess rúmum 38 þúsund tonnum af kolmunna sem tekin voru til vinnslu.

Hlutur kolmunna í útflutningsverðmætum sjávararfurða árið 2018 var um 4,8%, eða 11,6 milljarðar af tæplega 240 milljarða útflutningi sjávarafurða í heild.

Kolmunna er aðallega landað til fiskmjölsverksmiðja og afurðirnar eru þar af leiðandi mjöl og lýsi.

Kolmunninn er hvítfiskur og hentar vel til manneldisvinnslu. Þótt megnið af heimsafla í kolmunna fari í vinnslu á fiskmjöli sinna sumar þjóðir manneldisvinnslu ágætlega, svo sem Frakkar, Hollendingar og Írar.

Færeyingar hafa einnig látið til sín taka á þessu sviði sum árin. Kolmunninn er þá ýmist frystur um borð í veiðiskipum, heill eða flakaður. Einnig er unnið úr honum svokallað surimi, sem er endurbættur fiskmarningur. Þar sem stutt er á miðin er kolmunna líka landað ferskum til manneldisvinnslu.
Eins og besti harðfiskur

Hér á landi hafa nánast frá fyrstu tíð verið gerðar margvíslegar tilraunir til að vinna kolmunna til manneldis. Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá MATÍS, hefur stjórnað eða komið að flestum þessara verkefna. Of langt mál er að fara yfir þá sögu hér en stiklað verður á stóru. Í byrjun áttunda áratugarins hannaði Sigurjón klefa til að þurrka kolmunna fyrir fiskverkanda í Hafnarfirði. Næsta verkefni var þurrkverksmiðja á Laugum í Þingeyjarsýslu, en þar hefur kolmunni æ síðan verið þurrkaður, í einhverjum mæli.

Í verkefnum Sigurjóns hefur kolmunninn bæði verið þurrkaður heill og seldur sem skreið til Nígeríu en einnig hafa kolmunnaflök verið hert. Sigurjón segir að þau smakkist eins og besti harðfiskur.

Leiddi til byltingar í fiskvinnslu

Í þessum verkefnum hannaði Sigurjón færibandaþurrkara sem nýtti jarðvarma. Þótt ekki yrði af framleiðslu á hertum kolmunna í stórum stíl af ýmsum ástæðum hefur þessi þurrkari valdið algerri byltingu á öðru sviði í íslenskri fiskvinnslu. Hann hefur verið notaður til að þurrka fiskhausa, hryggi og fleiri afurðir. Við það hafa skapast mikil viðbótarverðmæti í svokölluðum aukaafurðum svo skiptir milljörðum króna á ári. Einnig hefur þessi þurrkun ásamt öðru stuðlað að fullnýtingu í vinnslu á þorski og fleiri fisktegundum hér á landi.

Samhliða þessu hafa verið gerðar tilraunir með vinnslu á ferskum kolmunna í landi. Þar skiptir mestu máli að íslensku uppsjávarskipin hafa verið þróuð með það í huga að þau geti komið með allt hráefni, kolmunna sem annan uppsjávarfisk, vel kældan og ferskan í land.

Kolmunninn hefur mætt afgangi

Eftir að makríllinn fór að veiðast hér við land hefur uppsjávarflotinn verið að mestu bundinn í tegundum sem gefa mest verðmæti, svo sem makríl, síld og loðnu. Kolmunninn hefur því verið látinn mæta afgangi og ekki veiddur mikið á þeim tíma sem hann er aðgengilegastur í íslensku landhelginni. Þegar skipin eru laus þarf gjarnan að fara langt til að sækja kolmunna. Verð á fiskmjöli hefur einnig lengi verið hagstætt og ekki kallað á manneldisvinnslu.

„Með minnkandi loðnuveiðum gætu uppsjávarskipin hugsan­lega einbeitt sér meira að kolmunna­veiðum en hann veiðist í íslenskri landhelgi síðsumars og á haustin. Það skapar möguleika á því að gera meiri verðmæti úr hráefninu og vinna hann til manneldis,“ segir Sigurjón Arason.

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...