Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fréttaskýring 25. febrúar 2020
Milljarðamæringar og stórfyrirtæki veðja nú á vetnisdrifna trukka
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Að nýta vetni sem orkumiðil á ökutæki hefur verið sagt rétt handan við hornið. Hafa margir séð þetta fyrir sér í hillingum í eina sex áratugi. Bílaframleiðandinn General Motors kynnti frumgerð af metanknúnum rafbíl árið 1966. Í kjölfarið rauk upp verð á hlutabréfum í Ballard Power sem var frumkvöðlafyrirtæki í efnarafalstækni. Innleiðing vetnistækninnar lét þó bíða eftir sér, en nú kann að vera vendipunktur á þessu sviði þar sem áhugi stórfyrirtækja og fjárfesta hefur verið vakinn samkvæmt upplýsingum viðskiptaritsins Forbes.
Ef þetta gengur eftir getur það valdið miklum breytingum í flutningum og samgöngumálum á Íslandi. Hér eru tækifæri til að framleiða vetni með hreinni raforku úr fallvötnum landsins og jafnvel vindorku og jarðhita á tiltölulega hagkvæman hátt. Í Bandaríkjunum horfa menn á að nýta sólarorku til að rafgreina vetni úr vatni og lækka kílóverð á vetni úr 14 í 2,5 dollara, eða um rúm 80%.
Í forsetatíð George W. Bush í Bandaríkjunum var dælt skattpeningum í efnarafalsrannsóknir og þróun, en það skilaði innan við 7.500 vetnisknúnum ökutækjum út á götur Bandaríkjanna. Samt halda menn áfram á þessari braut og virðist nú vera að myndast óbilandi trú meðal bílaframleiðenda að vetnisbílar muni spila stórt hlutverk í framtíðinni. Nægir þar að nefna fyrirtæki á borð við Mercedes Benz sem hefur lýst því yfir að leggja verði allt undir í þróun vetnisknúinna rafbíla.
Átján hjóla vetnistrukkur
Trukkaframleiðandinn Nikola Motor hefur líka verið með stórar áætlanir á sviði vetnisbíla og afar háleit markmið. Áætlanir ganga út á að hefja framleiðslu á 18 hjóla vetnistrukk 2021.
Hefur verið smíðuð frumgerð af vetnistrukk Nikola sem er með 1.000 hestafla mótor. Hann er með léttbyggðan vetnistank sem gerður er úr koltrefjum og á hann að komast yfir 1.200 kílómetra á einni tankfyllingu. Ef nota ætti rafhlöður til að koma bílnum sömu vegalengd myndu þær vega um 2.500 kíló.
Leigusamningur með inniföldu eldsneyti til 1,6 milljón kílómetra aktsurs
Mikið er í húfi að þetta takist og bíður framleiðandi Budweiser-bjórsins í Bandaríkjunum nú eftir vetnisdrifnum trukkum frá Nikola. Hefur móðurfélagið, Anheuser-Busch InBev, þegar pantað 800 slík tæki sem fyrirtækið hyggst leigja af framleiðanda með sjö ára samningi og borgar þá 1 milljón dollara fyrir stykkið og er eldsneytið þá innifalið. Samkvæmt almennum leigusamningnum sem birtur hefur verið fylgir vetniseldsneyti sem duga á til að aka hverjum bíl um 1.600.000 km vegalengd, eða milljón mílur. Eiga trukkarnir að flytja bjór frá verksmiðju á vesturströndinni til dreifingarstöðva í mörg hundruð kílómetra fjarlægð. Ef þetta gengur allt upp bíða forpantanir á Nikola-trukkum sem verðmetnar eru á 10 milljarða dollara frá fyrirtækjum eins og flutningafyrirtækinu U.S. Xpress.
Að frumkvæði milljarðamæringsins Trevor Milton
Maðurinn á bak við Nikola Motors er vetnisáhugamaðurinn Trevor Milton.
Hefur Nikola Motor verið að afla fjár og samstarfsaðila til að setja í gang framleiðslu á vetnisknúnu ofurtrukkunum sínum á næsta ári 2021. Er það verkefni undir forystu milljarðamæringsins og vetnisáhugamannsins Trevor Milton. Reyndar ganga áætlanir hans út á að framleiða 25 vetnistrukka þegar á þessu ári og 400 stykki á því næsta.
Hefur hann þegar safnað, samkvæmt frétt Forbes, um 500 milljónum dollara hjá fjárfestum á borð við þungavinnuvélaframleiðenda í Evrópu. Þar má nefna CNH Industrial-samsteypuna sem framleiðir m.a. hinar þekktu New Holland dráttarvélar. Þá er þýski tæknirisinn Bosch líka sagður í þessum hópi og áhættufjárfestingasjóðurinn ValueAct. Einnig er þar að finna suður-kóreska sólorkufyrirtækið Hanwha, norska orkufyrirtækið Nel Hydrogen og málmiðnaðarfyrirtækið Worthington Industries.
Trevor Milton telur sig þurfa um einn milljarð dollara til að geta byggt verksmiðju fyrir vetnisbílaframleiðsluna í Coolidge í Arizona og opnað tíu vetnisstöðvar í Kaliforníu og Arizona. Ef allt gengur upp áætlar Milton að vera kominn með 8 tonna framleiðslu af vetni í vetnisstöðvum sínum daglega árið 2022. Allt það vetni á að framleiða með endurnýjanlegri raforku og þá væntanlega sólarorku. Þetta vetni á að duga fyrir 250 trukka svo greinilegt er að hann ætlar ekki að vera einn að framleiða vetni fyrir þann flota sem fyrirhugað er að smíða.
Áætlanir hans ganga einnig út á að kostnaður við framleiðsla á hverju kílói vetnis lækki stórlega. Í orku er eitt kg vetnis sagt samsvara einu galloni af dísilolíu (um 4,5 lítrum). Smásöluverð á vetni í Kaliforníu er nú sagt vera um 14 dollarar kílóið, en Milton hyggst koma verðinu niður í 2,5 dollara á kg. Þá miðar hann við að færa mjög út kvíarnar í vetnisframleiðslunni og vera búinn að reisa 700 vetnisstöðvar vítt og breitt um Bandaríkin fyrir árið 2028.
Fyrsti vetnistrukka-milljarðamæringur heims?
Samkvæmt frétt Forbes var 250 milljóna dollara fjárfesting CNH stórt skref fyrir Milton við að gera alvöru úr sínum áætlunum. Fyrirtæki hans Nikola er nú metið á 3 milljarða dollara. Sjálfur á Milton 40% í fyrirtækinu. Sjálfur er hann metinn á að minnsta kosti 1,1 milljarð dollara í Forbes. Veðjar blaðið á að Trevor Milton eigi eftir að verða fyrsti vetnistrukka-milljarðamæringur heimsins.
„Þetta snýst ekki bara um að smíða einn hlut. Þetta snýst um að geta raunverulega komið með framleiðslu sem getur keppt við dísilknúin ökutæki og unnið þá keppni,“ segir Trevor Milton.
Elon Musk telur hugmyndir Milton vera heimsku
Rafbílaframleiðandinn Elon Musk, sem hefur vegnað vel að fá bandaríska bíleigendur til að skipta úr bensínknúnum ökutækjum í rafbíla, hefur kallað hugmyndir Trevor Milton ýmsum ónefnum eins og „bjánasellur“ eða fool cells“. Þá hefur hann sagt það vera heimsku að ætla sér að nota vetni til að knýja ökutæki, en Forbes segir að sannarlega líti nýting vetnis út fyrir að vera minna heimskuleg hugmynd þessa dagana. Þá segir blaðið að uppgangur á nýtingu sólarorku í suðurríkjum Bandaríkjanna geti nýst vel til að framleiða vetni úr vatni á ódýran hátt. Þá verði líka að hafa það í huga að rafhlöður henti illa til notkunar á löngum leiðum, ekki síst vegna þyngdar og langs endurhleðslutíma.
Stórir bílaframleiðendur stökkva á vetnisvagninn
Trevor Milton er langt frá því eini áhugamaðurinn um framgang vetnisknúinna ökutækja. Eins og sagði í grein Forbes kynnti bílaframleiðandi General Motors frumgerð af metanknúnum rafbíl árið 1966. Í kjölfarið rauk upp verð á hlutabréfum í Ballard Power sem var frumkvöðlafyrirtæki í efnarafalstækni. Rauk verð hlutabréfa úr 140 dollurum í 2.000 dollara. Innleiðing vetnistækninnar lét þó bíða eftir sér og féll verð á bréfum í fyrirtækinu og hefur það um skeið rokkað í kringum 5 dollara á hlut, en kannski fer það að breytast, því að á árinu 2019 er ætlunin að bílaframleiðendurnir GM og Honda opni 85 milljóna dollara efnarafalaverksmiðju í Michigan í Bandaríkjunum.
Þá hefur Hyundai Group í Suður-Kóreu sett 6,7 milljarða dollara í sitt vetnisverkefni. Kynnti Hyundai frumgerð af vetnisknúnum trukk í Atlanta í Bandaríkjunum í október síðastliðnum sem nefndur er „HDC-6 Neptune hydrogen fuel cell truck“. Áætlar Hundai að slíkir bílar geti verið komnir á göturnar í Bandaríkjunum 2024. Eins keypti vélaframleiðandinn Cummins í júlí á síðasta ári orkusellufyrirtækið Hydronics fyrir 290 milljónir dollara svo eitthvað sé nefnt.
Kenworth Truck Company í Las Vegas í Nevada er komið í samvinnu við Toyota um hönnun og framleiðslu á 10 mengunarlausum Kenworth T680 trukkum sem knúnir verða með vetnisefnarafal frá Toyota. Vetnið verður framleitt úr kúamykju í nýrri vetnisstöð í Los Angeles.
Toyota hyggst framleiða vetni úr kúamykju
Toyota hyggst opna áhugavert fyrirtæki á athafnasvæði Long Beach-hafnar út frá sjónarhóli bænda. Þar er um að ræða „endurvinnslufyrirtæki“ sem á að framleiða vetni úr kúamykju. Vetnið á svo að nýta til að knýja vetnistrukka sem framleiddir verða í samvinnu við trukkaframleiðandann Kenworth.
Á heimasíðu Kenworth Truck Company í Las Vegas í Nevada var greint frá samstarfi fyrirtækisins og Toyota þann 8. janúar síðastliðinn. Þar segir að samvinnan snúist um hönnun á 10 mengunarlausum Kenworth T680 trukkum sem knúnir verða með vetnisefnarafal frá Toyota. Þetta sé hluti af 41 milljónar dollara samningi um verkefnið „Zero and Near-Zero Emissions Freight Facilities (ZANZEFF)“. Hefur þetta verkefni hlotið viðurkenningu California Air Resources Board (CARB), með stuðningi Port of Los Angeles. Þá segir að þetta sé hluti af enn stærra 82 milljóna dollara verkefni sem snýst um að vetnisvæða dráttarvélar og koma upp innviðum fyrir vetnisafgreiðslustöðvar og flutninga á vetni í samvinnu við höfnina í Los Angeles þegar á þessu ári.
Kenworth T680 trukkarnir eiga að vera í akstri á Los Angeles svæðinu og inn í land til borga eins og Ontario og San Bernardino.
„Þetta er frábært samvinnutækifæri fyrir Keng Toyota við rannsóknir og þróun á mengunarlausri tækni sem mun spila stórt hlutverk í flutningum framtíðarinnar,“ segir Mike Dozier, forstjóri og stjórnarformaður PACCAR tæknifyrirtækisins, sem er móðurfélag trukkaframleiðendanna Kenworth, DAF og Peterbilt.
Gagntekin frá barnæsku
Trevor Milton hefur verið gagntekinn af hreyfiafli hluta síðan hann var 6 ára í lestarferð sem pabbi hans skipulagði. Hann fór í framhaldsskóla í Utah en gafst upp eftir sex mánuði. Í ferð með mormónum til Brasilíu fór hann að hugsa um þessi mál í víðara samhengi, einkum út frá umhverfisfræðilegum sjónarmiðum. Árið 2010 stofnaði hann fyrirtækið Hybrid Systems í Salt Lake City til að hanna metangaseldsneytiskerfi fyrir trukka. Hann seldi það fyrirtæki til Worthington árið 2014 og gekk til liðs við Mark Russel, fyrrum læriföður sinn í Worthington trukkaverksmiðjunum, og stofnuðu þeir Nikola Motor.
Hraðari breytingar í vetnisþróun en búist var við
Breytingarnar eru að verða að veruleika segir Forbes og sennilega mun hraðar en framleiðendur dísiltrukka hafa búist við. Þá bendir blaðið á að Evrópusambandið hafi verið að herða mengunarreglur sem gætu leitt til banns á dísilbílum fyrir árið 2030. Kalifornía sé með svipuð áform. Þá segir að Milton telji sig nú hafa þriggja til fimm ára forskot á keppinautana til að vera kominn með trukka án mengandi útblásturs tímanlega til að mæta hertum kröfum.
Vetnisknúnar járnbrautir
Fjölmargir framleiðendur aflvéla í stærri farartæki virðast hafa tekið stefnuna á þróun vetnisknúinna efnarafala og rafmótora í drifbúnað. Hafa þegar verið teknar í notkun vetnisknúnar járnbrautarlestir í Þýskalandi og fleiri slíkar eru á teikniborðinu, m.a. í Bandaríkjunum og Sviss. Þá virðast margir trukkaframleiðendur vera að feta sig inn á þessa braut.
Framleiðendur einkabíla fylgdu í fótspor Elan Musk, framleiðanda Tesla, við að markaðssetja rafbíla búna endurhlaðanlegum Lithium-Ion rafhlöðum. Fljótlega varð ljóst að rafhlöður væru bæði of dýrar, of þungar og seinlegar í endurhleðslu til að geta hentað vel í þung og mikil atvinnutæki. Lausnin virðist þar vera að nota efnarafala sem umbreytir vetni í raforku.
FLIRT H2 vetnisknúin lest frá svissneska framleiðandanum Stadler. Taka á slíka lest í notkun í Bandaríkjunum 2024.
Áætlað er að taka fyrstu mengunarlausu járnbrautarlestina í Bandaríkjunum í gagnið 2024. Það er samkvæmt verkefni sem kallað er ýmist „Hydrail“ eða „Redlands Passenger Rail Project“ og mun lestin verða staðsett á leiðum í Suður-Kaliforníu. Þar ráðgera samgönguyfirvöld í San Bernardino að fá FLIRT H2 lest frá svissneska framleiðandanum Stadler. Í byrjun verða tveir vagnar í þessari vetnislest og verður vetnisgeymum komið fyrir á þaki vagnanna líkt og gert var í vetnisknúnu tilraunastrætisvögnunum í Reykjavík. Þessir vagnar eiga að ganga á 9 mílna (um 15 km) löngu spori á milli San Bernardino og Redlands. Samkvæmt heimildum SBCTA (San Bernardino County Transportation Authority) mun verkefnið kosta 23,5 milljónir dollara.
Franska fyrirtækjasamsteypan Alstrom er þegar með vetnisknúna Coradia iLint lest í gangi í Þýskalandi. Ráðgert er að koma í notkun fleiri slíkum lestum í Frakklandi. Þá er horft á notkun lestarvagna frá Stadler í Bretlandi. Kínverjar tóku sína fyrstu vetnisknúnu járnbrautarlest í gagnið 2015, en þar veðja yfirvöld á aukna notkun vetnislesta.