Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir,  formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Mynd / HKr.
Fréttaskýring 24. september 2021

Nær 80% fatlaðra í velmegunarlandinu Íslandi eiga erfitt með að ná endum saman

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Rannsókn sem Varða – rannsókna­stofnun vinnumarkaðarins gerði fyrir Öryrkjabandalag Íslands á stöðu fatlaðs fólks á Íslandi sýnir að staða stórs hluta þessa hóps er afar bágborin í velferðarríkinu Íslandi.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit þeirra sem ráðið hafa ferðinni bæði til hægri og vinstri í pólitík um áraraðir er ástandið enn grafalvarlegt og fjárhagsstaða fatlaðs fólks er í heildina greinilega mjög slæm. Í skýrslu um rannsókn Vörðu, sem gerð var af Margréti Einarsdóttur og Kristínu Hebu Gísladóttur, segir m.a.:

  • Tæplega átta af hverjum tíu eiga erfitt, eða frekar erfitt með að ná endum saman.
  • Sex af hverjum tíu geta ekki mætt óvæntum útgjöldum.
  • Tæplega fjórir af hverjum tíu búa við skort á efnislegum gæðum. Í rannsókninni kemur fram að einstæðir fatlaðir foreldrar og einhleypt fatlað fólk stendur höllum fæti fjárhagslega.
  • Tæplega níu af hverjum tíu einhleypum og einstæðum foreldrum eiga erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman.
  • Um helmingur einstæðra foreldra og einhleypra býr við skort á efnislegum gæðum.
  • Ríflega fjórir af hverjum tíu einstæðum foreldrum geta ekki veitt börnunum sínum eins næringarríkan mat og þeir vilja eða greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda.
Áhugaleysi í pólitíkinni

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, sagðist í samtali við Bændablaðið lítil viðbrögð hafa fengið úr pólitíkinni önnur en frá frambjóðendum sem nú standa í kosningabaráttu. Lítið sem ekkert hafi gerst frá hruni til að bæta stöðuna sem hafi farið versnandi á síðustu 14 árum.

„Menn geta ekki endalaust ýtt þessum vanda á undan sér eins og gert hefur verið undanfarin ár. Þar hafa menn sett fram þann fyrirslátt að það þurfi að fara í umtalsverðar kerfisbreytingar til að hægt sé að laga stöðuna og bæta afkomu fatlaðs fólks.

Við höfum ítrekað upplýst stjórnvöld um stöðuna þó það sé kannski ekki fyrr en núna sem búið er að vinna könnun sem sýnir það sem við höfum verið að segja svart á hvítu. Menn verða að horfast í augu við vandamálið. Það er ekki hægt að ýta þessu endalaust til hliðar vegna þess að það sé óþægilegt. Það sem þarf að gerast er að menn viðurkenni vandann og ákveði að lagfæra stöðuna.

Við erum nú með örorkulífeyri sem er hundrað þúsund krónum lægri en lágmarkslaun, en örorkulífeyrir var jafn lágmarkslaunum 2007. Þarna hefur gliðnað gríðarlega á 14 árum. Það hafa verið hækkaðar atvinnuleysisbætur á þessum tíma, en menn skildu öryrkjana algjörlega eftir. Frá 2009 hefur staða öryrkja ekki verið leiðrétt þrátt fyrir gríðarlegt hagvaxtarskeið.“

Engin biðlund lengur eftir kerfisbreytingum

Þuríður segir réttast að þeir sem ráði ferðinni í þessum málum taki strax ákvörðun um að þetta verði lagfært í einu skrefi. Þó fatlað fólk sé þolinmótt hafi það ekki endalausa biðlund eftir að farið sé í að einfalda kerfið. Þá séu allar stærðir þekktar varðandi öryrkja og algjör óþarfi að bíða með aðgerðir.

„Við höfum sýnt ótrúlega biðlund, seiglu, en nú finnst okkur algjörlega eðlilegt að menn taki nú þegar ákvörðun um úrbætur og setji t.d. fram nákvæma tímalínu um hvernig þessari stöðu verði breytt á næstu þrem árum. Við viljum að örorkulífeyrir verði í það minnsta hækkaður þannig að hann nái lágmarkslaunum í landinu. Einnig að dregið verði verulega úr skerðingum, þannig að fólk sem getur farið út á vinnumarkaðinn í kannski 25–50% vinnu eða hvað það yrði, lendi ekki í ógnarlegum skerðingum hjá Tryggingastofnun.

Það þarf vissulega að einfalda almannatryggingakerfið, en við eigum ekki að þurfa að bíða eftir slíkum kerfisbreytingum til að fá kjör fatlaðs fólks leiðrétt. Það þarf ekki að meta fólk öðruvísi inn í breytt almannatryggingakerfi.“

Starfsgetumat úrelt hugmynd sem gengur ekki upp

Þuríður segir að menn hafi m.a. falið sig á bak við innleiðingu á „starfsgetumati“ sem hvergi hafi reynst til góðs í löndunum í kringum okkur og hafi verið mikið bitbein. Þetta sé hugmynd sem kom upp um síðustu aldamót og hafi verið ansi lífseig í íslenskri pólitík. Hún hafi hvergi gengið upp og sé úrelt hugmyndafræði.

Engin afsökun að gera ekki neitt

„Ég held að menn séu búnir að átta sig á að þetta er ekki leiðin. Við erum bara um 360 þúsund manna þjóð og við þurfum ekki kerfi sem skapað er fyrir milljóna þjóðir. Við erum með vinnusamt og duglegt fólk sem líður fyrir það að geta ekki verið á vinnumarkaði. Því eru allar bjargir bannaðar. Fatlað fólk sem fæðist þannig, veikist eða slasast gerir þetta ekki að gamni sínu. Þeir sem geta úr þessum hópi vilja taka þátt á vinnumarkaði. Síðan eru þeir sem alls ekki geta unnið, þeir eru í langverstu stöðunni. Það verður að sjá til þess að það fólk hafi stuðning sem dugir til framfærslu. Það er engin afsökun að gera ekki neitt.“

Þó við viljum ekki skrifa upp á það að fatlað fólk fari í gegnum starfsgetumat, þá er samt hægt að gera ýmislegt. Fyrst ætti að byrja á að laga það sem við vorum sammála um að þyrfti að gera. Það gengur ekki að láta fatlað fólk bíða endalaust og sitja á hakanum meðan menn tala lon og don um risavaxnar kerfisbreytingar. Slíkar breytingar verða ekki gerðar á einum degi.

Það er ekkert stórmál að laga þessa hluti. Þetta snýst um að menn viðurkenni vandann og vilji er allt sem þarf til að gera nauðsynlegar breytingar. Þá gengur heldur ekki að þingmenn sýni fordóma og tali niður til fatlaðs fólks. Maður gerir kröfu um að þeir vandi sig þegar þeir tala til svo viðkvæmra hópa og búi ekki til meiri fordóma en þegar eru til staðar,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir.

12% alls fatlaðs fólks þarf að reiða sig á mataraðstoð

Í rannsókn Vörðu koma fram sláandi tölur sem sýna að meirihluti fatlaðra, eða 59% yngra fólks í hópi aðspurðra, þurfa að reiða sig á fjárhagsaðstoð frá ættingjum og vinum og 38% þeirra sem eldri eru, eða að meðaltali 41%. Þá þurfa 13% yngra fólks að reiða sig á aðstoð hjálparsamtaka og 6% eldra fólks. Einnig er umhugsunarvert í velmegunarlandinu Íslandi að 12% alls fatlaðs fólks þurfi að reiða sig á mataraðstoð. Ekki mældist marktækur munur á milli kynja en talsverður munur var eftir aldri fatlaðra.

Mikill meirihluti getur ekki mætt óvæntum útgjöldum

Alls geta 62% fatlaðra ekki mætt óvæntum útgjöldum í sínu lífi. Þá hafa 23% ekki efni á kjötmáltíð annan hvern dag. Eins hafa 9% hvorki efni á að vera með síma eða sjónvarp og 5% hafa ekki efni á að kynda húsnæði sitt nægilega.

22% fatlaðra hefur ekki efni á að reka bíl

Rætt hefur verið um að kolefnisskattar hafi komið illa við þá sem hafa lægst laun í landinu, fjölskyldufólk, aldraða og öryrkja sem oft eru líka með skerta hreyfigetu. Leiða má líkum að því að þessir skattar hafi m.a. áhrif á möguleika fatlaðra til að reka sinn eigin bíl. Í rannsókninni kom í ljós að í heild hafa 22% fatlaðra alls ekki efni á að reka bíl, þ.e. 30% yngra fólks og 21% eldra fólks.

Fjöldi barna fatlaðs fólks verður afskiptur í skólakerfinu

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að 7% fatlaðs fólks með börn hafa ekki getað greitt leikskólagjöld. Þá geta 11% ekki greitt gjöld fyrir frístundir, 8% ekki skólagjöld í framhaldsskóla og 11% ekki fyrir skólabækur eða annan námskostnað.
Hrópandi er í okkar þjóðfélagi að 17% fatlaðra eiga ekki fyrir mat í skólanum og 30% eiga ekki fyrir kostnaði vegna skipulegra tómstunda. Eins eiga 12% ekki fyrir kostnaði vegna skólaferðalaga, 40% ekki fyrir nauðsynlegum fatnaði. Um 34% fatlaðra með börn á framfæri telja sig ekki geta boðið þeim eins næringarríkan mat og börnin er talin þurfa. Þá hafa 6% ekki peninga fyrir öðrum kostnaði barna sinna.

Slæm andleg og líkamleg heilsa

Rannsóknin sýnir einnig að andleg og líkamleg heilsa fatlaðs fólks er í yfirgnæfandi tilvika slæm og flestir hafa þurft að neita sér um heilbrigðisþjónustu á einhverjum tímapunkti.

  • Ríflega átta af hverjum tíu hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu.
  • Sex af hverjum tíu hafa neitað sér um tannlæknaþjónustu.
  • Þrír af hverjum tíu hafa neitað sér um almenna heilbrigðisþjónustu.
  • Tæplega níu af hverjum tíu segja að kostnaður sé helsta ástæða þess að þeir hafi neitað sér um heilbrigðisþjónustu.

Þá kemur líka fram í rannsókn Vörðu að margir finna fyrir félagslegri einangrun og meirihluti finnur fyrir fordómum. Samt er talsverður vilji meðal fatlaðs fólks til að vera á vinnumarkaði, en heilsa þess er helsta fyrirstaðan.

Tæplega sex af hverjum tíu segja mikilvægast að hækka örorkulífeyri og tengdar greiðslur þegar spurt er um breytingar á almannatryggingakerfinu.

Covid-19 hefur haft víðtæk áhrif á heilsu fatlaðra og fjárhagsstöðu

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft víðtæk árhrif á heilsu, líðan, daglegt líf og fjárhagsstöðu fólks. Faraldurinn hefur sýnt styrk samfélagsins en einnig afhjúpað veikleika þess. Öryrkjabandalag Íslands óskaði eftir að Varða – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins framkvæmdi sambærilega könnun og stofnunin stóð fyrir á stöðu launafólks í upphafi árs (Margrét Einarsdóttir, Kolbeinn Hólmar Stefánsson og Kristín Heba Gísladóttir, 2021). Markmið könnunarinnar er að veita upplýsingar um stöðu fatlaðs fólks varðandi:

  1. Fjárhag
  2. Félagslega stöðu
  3. Viðhorf til þjónustustofnana
  4. Viðhorf til breytinga á almannatryggingakerfinu
  5. Atvinnuþátttöku
  6. Heilsufar

Könnunin var lögð fyrir í lok maí og byrjun júní 2021 og er aðferð hennar lýst í öðrum kafla. Í þriðja kafla er greint frá niðurstöðum könnunarinnar.

Niðurstöðukaflinn skiptist í nokkra kafla sem hver um sig fjallar um ákveðna þætti sem tengjast stöðu fatlaðs fólks.

Fyrsti niðurstöðukaflinn fjallar um lýðfræðilega samsetningu, annar kaflinn um fjárhagsstöðu, sá þriðji um heilsufar, fjórði kaflinn um félagslega einangrun og fordóma, sá fimmti um atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og virkni og sjötti og síðasti kaflinn um viðhorf til þjónustustofnana og breytinga á þeim.

Allir þættir sem skoðaðir eru í niðurstöðunum eru greindir eftir kyni og aldri, fjárhagsstaðan er að auki greind eftir fjölskyldustöðu og félagsleg einangrun eftir því hvort þátttakendur búa einir eða með öðrum.

Í þeim tilvikum þar sem um sambærilegar niðurstöður er að ræða eru þær að auki bornar saman við niðurstöður úr könnun á högum öryrkja árið 2009 sem skoðaði stöðu fólks á örorkulífeyri, örorkustyrk og endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun 2010. Einnig við niðurstöður og gögn úr Lífskjararannsókn Hag­stofunnar 2021 og spurningakönn­un Vörðu sem lögð var fyrir félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB í lok árs 2020.

Skylt efni: fatlaðir | kjör fatlaðra

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...