Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Plastmengun í heiminum er orðið gríðarlegt vandamál. Plastmengun hafanna er búin að vera þekkt í mörg ár, en færri hafa gert sér grein fyrir að öragnir úr plasti sé komið í drykkjarvatn víða um heim. Þá eru örugglega ekki allir sem gera sér grein fyrir mi
Plastmengun í heiminum er orðið gríðarlegt vandamál. Plastmengun hafanna er búin að vera þekkt í mörg ár, en færri hafa gert sér grein fyrir að öragnir úr plasti sé komið í drykkjarvatn víða um heim. Þá eru örugglega ekki allir sem gera sér grein fyrir mi
Mynd / Orb Media
Fréttaskýring 28. september 2017

Plastagnir sagðir vera í kranavatni milljarða manna og í andrúmsloftinu

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Milljarðar manna í heiminum eru á hverjum degi að drekka vatn sem getur verið mengað af  örsmáum plastögnum. Loftið sem við öndum að okkur er líka mengað gerviefnatrefjum. Þetta eru m.a. niðurstöður í rannsókn Orb Media á kranavatni í á öðrum tug ríkja víða um heim. 
 
Miðað við þetta ætti aðgengi Íslendinga að gnægð hreins vatns að vera orðið enn verðmætara en nokkru sinni fyrr. Engin rannsókn hefur samt verið gerð á því hvort plastagnir sé að finna í neysluvatni hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun MAST hafa engar slíkar mælingar verið gerðar á þeirra vegum. MATÍS hefur aftur á móti skoðað gerviefni sem berst til sjávar með skólpi. Hrönn Ólína Jörundsdóttir, sviðstjóri hjá MATÍS, segir að þar á bæ hafi menn ekki skoðað neysluvatnið með tilliti til mengunar á örplastögnum. 
 
„Ég tók þátt í norrænu samstarfsverkefni þar sem við skoðuðum skólp og hversu mikið plast væri að fara í sjóinn í gegnum skólphreinsistöðvarnar. Þar vorum við þó að skoða miklu stærri agnir en talað er um varðandi neysluvatnið. Við höfum ekki haft möguleika á að skoða svo litlar agnir.“
 
Hrönn segir að ekki sé langt síðan vísindamenn hafi uppgötvað að öragnir af plasti væri að finna í hafinu og víðar í umhverfi okkar. Þótt talað væri um plastagnir í neysluvatni þá þyrfti ekki endilega að vera að þær væru komnar úr vatnsbólunum sjálfum. Á undanförnum árum hafi nefnilega færst í vöxt að vatnslagnir séu úr plasti. Slíkar lagnir gætu gefið frá sér örlitlar agnir af plasti. Hún segir að þessar fregnir hafi vissulega ýtt við mönnum um að skoða stöðu neysluvatnsins hérlendis. Þar hafi nokkur sveitarfélög lýst áhuga á að láta kanna stöðuna hjá sér, en allt væri þetta spurning um áhuga og kostnað.  
 
Tannkrem og ýmiss konar hreinsiefni innihalda í mörgum tilvikum örlitlar plastkúlur sem eiga að virka eins og hálfgerður sandpappír á hold og tennur.  Allt það örplast berst svo með skólpi til sjávar. 
 
Kranavatn í Bandaríkjunum í 94% tilvika mengað af plastögnum
 
Vísindamenn í Bandaríkjunum sem rannsökuðu 159 vatnssýni víða úr heiminum komust að því að algengust var mengunin í Bandaríkjunum, eða í 94% tilvika. Greint var frá þessari rannsókn Orb Med í breska blaðinu Guardian fyrir skömmu og vakti umfjöllunin strax mikla athygli. Meira að segja reyndist kranavatnið í þinghúsinu í Washington vera plastmengað sem og í höfuðstöðvum umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna og í Trump-turninum í New York. Þá reyndist kranavatn í Líbanon og á Indlandi næstmest mengað, en sýni komu einnig frá Úganda, Ekvador og Indónesíu. 
Rannsóknin var framkvæmd af University of Minnesota School of Public Health. Að meðaltali voru 83% kranavatnssýna sem tekin voru víða um heim menguð af plasttrefjum. 
 
Á umbúðum hreinsivara og ýmissa húðsnyrtivara fer yfirleitt ekki mikið fyrir smáa letrinu um að í vörunum leynist plast. 
 
Í Bretlandi, Þýskalandi og í Frakklandi var hlutfall mengaðra vatnssýna 72%.
 
Að meðaltali voru 4,8 plasttrefjaagnir í hverjum 500 millilítrum af kranavatni í bandarískum sýnum, en um 1,9 í Evrópu.
 
Það eru þó ekki bara plastagnir sem menga vatn. Í niðurstöðum annarrar rannsóknar sem birtar voru á vefsíðu Waterworld í ágúst 2016 var greint frá rannsókn Harvard-háskóla sem sýndi að drykkjarvatn 6 milljóna Bandaríkjamanna væri mengað af PFAS iðnaðarúrgangsefnum sem nefnd eru polyfluoroalkyl og perfluoroalkyl. Í rannsókninni kom í ljós að vatnið var mest mengað þar sem verksmiðjusvæði eða athafnasvæði hersins voru nærri uppdælingu grunnvatns. Mengaða vatnið fannst hjá 66 vatnsveitufyrirtækjum. Á árunum 2000 til 2002 gerði umhverfisverndar­stofnun Bandaríkjanna (USEPA) samkomulag við  8 fjölþjóðleg fyrirtæki að draga úr mengun PFAS efna um 95% fyrir 2010. Kanadísk stjórnvöld gerðu sambærilegt samkomulag við þarlend fyrirtæki og reglur í þessa veru voru settar hjá Evrópusambandinu 2006 og 2009. Þrátt fyrir þetta er PFSA mengun enn að finn í drykkjarvatni.   
 
Gnægð af hreinu neysluvatni á Íslandi
 
Neysluvatn víðast á Íslandi er úr lindum sem síast hafa í gegnum jarðlög á löngum  tíma. Er því afar ólíklegt að slíkt vatn innihaldi plastagnir eða aðrar trefjar. Þannig er það m.a. með kranavatnið sem kemur úr Gvendarbrunnum ofan við Reykjavík. Notkun á yfirborðsvatni úr stíflum eða þróm hefur farið mjög minnkandi á Íslandi á liðnum árum, en við notkun á slíku vatni hafa menn m.a. notað jarðvegssíur og geislun til að drepa sýkla. Það var því t.d. mikill happafengur fyrir Ísfirðinga þegar vatnsæð opnaðist við gerð Vestfjarðaganga sem tekin voru í notkun 1996. Áður höfðu Ísfirðingar búið við yfirborðsvatn sem oft og tíðum var mjög mengað og varasamt til neyslu. Nú er þar tandurhreint og gerlasnautt vatn sem síað er í gegnum mörg hundruð metra þykk jarðlög. Enn er samt notast við yfirborðsvatn á nokkrum stöðum á landinu, en þá er það yfirleitt síað og geislað til að drepa bakteríur. 
 
Það eru fáar þjóðir eins heppnar í vatnsmálum og við Íslendingar. Hér er gnægð vatns, en víða búa menn við skort á vatni. Þá beita menn einnig endurvinnslu á skólpi til að hreinsa vatn til neyslu. Má þar t.d. nefna sum ríki Bandaríkjanna eins og Kaliforníu, Virginíu, Nýju-Mexíkó og fleiri. Einnig lönd eins og Ástralíu, Namibíu, Singapúr. Þar búa menn stundum við hreinsað skólp. Slíkt vatn er sagt vel hæft til drykkjar, en margaóar samt við því að drekka það og kaupa frekar vatn á flöskum.
 
Hreinsað vatn er samt sem áður víða notað m.a. til að brugga bjór og við áveitu í grænmetis- og ávaxtarækt. Líka er eitthvað um að slíkt vatn sé að finna sem átappað drykkjarvatn á plastflöskum, þótt þar sé yfirleitt lagt mikið upp úr að vera með hreint lindarvatn. 
 
Örplast er líka í loftinu sem við öndum að okkur
 
Orp-rannsóknin um plastagnir í kranavatni sem Minnesota-háskóli framkvæmdi er sögð gefa til kynna að öragnir af plasti megi finna nær alls staðar í umhverfinu. Ekki bara í hafinu eins og vísindamenn hafa aðallega beint sjónum sínum að hingað til. 
 
Í rykögnum sem fólk getur auðveldlega séð svífa í loftinu á heimilum sínum þegar sól skín inn um glugga, geta hæglega leynst plastagnir. Teppi á gólfum innihalda yfirleitt plast sem eru þá nylon, terylene eða acrylic (akríl) efni. Sama má segja um ýmis húsgögn eins og stóla og sófa. Þessi efni brotna smám saman niður í öreindir og þyrlast þá gjarnan upp sem ryk.
 
Sama er að segja um flestan þann fatnað sem við göngum í. Þar er sennilega fátt orðið um hrein náttúruleg efni nema kannski í alíslensku lopapeysunni.
 
Örplast skolast út við þvott 
 
Við þvott skolast út agnir sem renna þá út í skolpleiðslurnar. Rannsókn sem framkvæmd var af teymi Plymouth-háskóla í Bretlandi sýnir að við hvern þvott geta skolast út í umhverfið um 700.000 trefjaagnir. Náði rannsóknin yfir 12 mánaða tímabil þar sem skoðað var hvernig gerviefni leystust úr þvotti við mismunandi hitastig á vatni í sjálfvirkum þvottavélum. Fundu rannsakendur það út að akríl-efni voru versti mengunarvaldurinn og skiluðu út um 730.000 ögnum eftir hvern þvott. Það var um fimm sinnum hærra hlutfall en úr fatnaði sem gerður var úr pólyesterblandaðri bómull. Mismunandi efnablöndur í fatnaði losa mjög mismunandi magn agna. 
 
Þurrkarar blása út mikilli örtrefjamengun
 
Enn meiri agnir geta svo farið út í andrúmsloftið við þurrkun á þvotti, ekki síst í þurrkurum sem nú eru á meirihluta heimila á Íslandi. Sennilega erum við í svipaðri stöðu hvað það varðar og Bandaríkjamenn, en þar er um 80% heimila með arfknúna þurrkara sem blása þurrkloftinu út í andrúmsloftið. Það kann því vel að vera að mun meira sé af örplasti sem við öndum að okkur en við gerum okkur grein fyrir. 
85% örtrefja á ströndum sjávar eru vegna umsvifa mannsins
 
Raki í lofti getur líka dregið til sín örplastagnir sem þá skilar sér með rigningu til jarðar í vötn og jarðveg. Samkvæmt skýrslu Environmental Science & Technology sem gefin var út 2011 og fjöldi vísindastofnana um allan heim stóð að, kemur fram að örtrefjar sem finna má á ströndum sjávar um allan heim sé að 85% hluta séu upprunnin í sorpi og öðrum úrgangi frá mönnum. 
 
Plastagnir í skólpi frá heimilum
 
Lengi hefur verið vitað að í skólp berast plastagnir frá ýmsum efnum sem menn nota. Þar má nefna affall frá þvottavélum, úr tannkremi sem blandað hefur verið með örplasti, úr snyrtivörum og ýmsu öðru. Þetta örplast fellur greinilega ekki út að öllu leyti í skolphreinsunarstöðvunum. Plastagnirnar skila sér því að einhverju leyti inn í veitukerfin, en annað skolast til sjávar.  
 
Margar Evrópuþjóðir duglegar við vatnshreinsun
 
Þjóðverjar hafa verið framarlega í hreinsun á skólpi og hreinsa um 94–98% af sínu skólpi á meðan Bretar hreinsa aðeins um 39% og Frakkar 36%. Slökust hefur staðan verið meðal ESB-ríkja í Rúmeníu. Minnst af því sem hreinsað er hefur samt verið nýtt sem drykkjarvatn. 
 
Í Þýskalandi er endurnýtt drykkjarvatn einungis sagt vera um 3% af notkuninni. Þetta kann þó vera að breytast vegna vaxandi eftirspurnar eftir vatni og mengunar grunnvatns. 
 
Grunnvatn úr borholum sinnir um 65% af vatnsþörfinni í Þýskalandi og telst vera mjög gott vatn. Um 20% er yfirborðsvatn sem er næmt fyrir loftmengun, um 9% er hreint lindarvatn og um 6% hreinsað vatn úr ám, fljótum og vötnum. Sum þessara fljóta eru verulega menguð. 
 
Þjóðverjar hafa lagt mikla áherslu á að koma í veg fyrir sóun á vatni sem m.a. orsakast af lekum vatnslögnum. Þar tapaðist sem nam 6,5% af vatnsþörfinni árið 2007, samkvæmt skýrslu Water & Wastewater International (WWI). Samsvarandi vatnstap var þá 24,6% í Póllandi, 11% í Austurríki og 20,9% í Frakklandi (tölur í Frakklandi eru reyndar frá 2004). 
 
Íslendingar miklir skussar í skolphreinsun
 
Þótt þjóðverjar þyki standa framarlega í hreinsun á skólpi, þá eru Svíar enn duglegri og hreinsa nær allt skólpvatn sem þar fellur til. Danir og Finnar fylgja þar fast á eftir, sem og Hollendingar og Austurríkismenn. Íslendingar standa þessum þjóðum án nokkurs vafa langt að baki í þessum efnum. 
 
Í nýrri samantekt Umhverfis­stofnunar frá því nú í september 2017, um stöðu fráveitumála á landinu,  kemur fram, að einungis 13 af 83 fráveitustöðvum á Íslandi, eða 16% fráveitna, uppfylltu kröfur sem hér eru gerðar um hreinsun á skólpi 2014. Samt hefur orðið bylting í þessum efnum frá 1996 þó að á stórum landsvæðum sé enga hreinsun að finna. 
 
Þar sem skólp er hreinsað, eins og á höfuðborgarsvæðinu, er einungis um fyrsta þreps hreinsun að ræða. Þaðan kemur um 60% af skólpi sem til fellur á landinu. Árið 2014 var 68% skólps frá þéttbýli hreinsað með eins þreps hreinsun. Þá voru 2% með tveggja þrepa hreinsun og einungis 1% með þriggja þrepa hreinsun sem algeng er erlendis. Samkvæmt skýrslunni var 24% alls ekkert hreinsað og ekki vitað hvort 5% til viðbótar fari í gegnum einhverja hreinsun eða ekki.  Af því skólpi sem myndaðist í þéttbýli á landinu var 94% losað í sjó, 5% í ár og stöðuvötn og 1% í ármynni eða grunnvatn.
 
Vert að hafa áhyggjur af lífríkinu
 
Doktor Sherri Mason, sérfræðingur hjá ríkisháskóla New York í Fredonia, sem stjórnaði rannsóknum Orb Media, segir að nægar sannanir séu nú fyrir mengun af örplastögnum og vert sé að hafa áhyggjur af lífríkinu. „Ef þetta er farið að hafa áhrif á villta náttúru, hvað höldum við þá um áhrifin á okkur sjálf?“ spyr Mason. 
 
Lítil sjálfstæð rannsókn sem gerð var á Írlandi í júní í fyrra sýndi einnig mengað kranavatn sem og brunnvatn. Doktor Anne Marie Mahon hjá Galway-Mayo tæknistofnuninni sem framkvæmdi rannsóknina, segir að ekki sé vitað um heilsufarsleg áhrif af plastmenguðu vatni á fólk. Þar ættu menn að hafa allan vara á og setja strax í gang vinnu til að finna út hver áhættan er. Hún segir einkum ástæðu til að hafa áhyggjur af tveim þáttum. Mjög smáar plastagnir geti komist í frumur og sýkla. Ef örplastagnir eru þar þá er möguleiki á að þar finnist líka öragnir sem ekki er hægt að greina með góðu móti. Þegar agnirnar eru komnar niður í nano-skala, þá geta þær raunverulega komist í frumur og líffæri sem hlýtur að vera áhyggjuefni. 
 
Í Orb Media-rannsókninni fundust agnir sem voru einungis 2,5 míkron að stærð, eða 2.500 sinnum stærri en nanometri. Örplastagnir geta borist í bakteríur í skólpi að sögn Mahon. Þá segir hún að rannsóknir sýni að mikið er af skaðlegum sýklum á plastögnum sem berast með skólpi í vatnshreinsunarstöðvar. Galway-Mayo stofnunin gerði einnig rannsókn í Norðurhöfum 2015 sem sýndi fram á tilurð örplasts í hafinu á norðurheimskautssvæðinu.
 
Eitruð efnasambönd í örplasti
 
Örplastagnir innihalda eitruð efnasambönd. Rannsóknir á villtum dýrum hafa sýnt að þessi eiturefni geta leyst út í hold dýranna. Richard Thomson, prófessor við Plymouth-háskóla í Bretlandi, segir að það sé mjög skýrt að eiturefni geti borist úr plasti. Þegar plast fari í gegnum meltingarveg leysist slík efni mjög hratt út. Rannsóknir hans sýna að örplast er að finna í þriðjungi þess fiskjar sem veiðist við Bretlandsstrendur. 
 
Umfang örplastmengunar á heimsvísu er rétt að koma í ljós. Í þýskri rannsókn kom t.d. í ljós að plasttrefjar var að finna í 24 tegundum af bjór sem prófaðar voru. Einnig var að finna örplast í hunangi og sykri. Í því ljósi hljóta menn að spyrja sig um plastagnir í grænmeti og ávöxtum frá löndum þar sem vökvað er með hreinsuðu skólpvatni og loftmengun er mikil.
 
Örplast í lungum manna
 
Í rannsókn sem gerð var í París 2015 uppgötvuðu vísindamenn örplast sem fallið hafði af himnum ofan. Áætluðu þeir að þrjú til 10 tonn af plasttrefjum félli á Parísarborg á hverju ári. Þá væru plastagnir einnig að finna í lofti á heimilum manna sem er í takti við athuganir á útblæstri þurrkara og losun frá teppum og fatnaði. 
 
Frank Kelly, prófessor við umhverfisverndarsvið King‘s College í London, greindi breska þinginu frá þessum rannsóknum 2016. Sagði hann að ef við önduðum að okkur þessum ögnum, þá gæti það flutt ýmis eiturefni niður í neðri hluta lungnanna og hugsanlega leyst þau út í blóðið. Í ljósi talna úr Orb-rannsókninni sé orðið mjög aðkallandi að rannsaka áhrif plastagna á heilsu manna. 
 
Haft er eftir Johnny Gasperi hjá Paris-Est Cre´teil-háskóla sem stýrði rannsókninni í París, að stöðuvötn gætu hæglega mengast af plastögnum sem falla, m.a. með regni úr andrúmsloftinu. Það þýðir að slíkar plastagnir eiga þá greiða leið inn í neysluvatn sem þaðan er tekið.  
 
Réttlætanlegt að banna notkun örplasts í snyrtivörur 
 
„Það sem við komumst að í París virðist sýna að gríðarlegt magn trefja sé í andrúmsloftinu,“ segir Gasperi. Töluverður hluti þeirra virðast eiga uppruna sinn í iðnaðarefnum sem innihalda plast.
 
Umræða um fyrrnefnda Orp-rannsókn frá því í júní á síðasta ári, hefur m.a. leitt til þess að samstaða virðist vera að skapast um að banna örplastagnir í snyrtivöruiðnaðinum. Oft er hægt að sjá það í smáa letrinu í innihaldslýsingum undir nafninu „Polyethylene“. 
 
Richard Thompson, prófessor í sjávarlíffræði við Plymouth-háskóla, segir að sænska rannsóknin sem dregin var til baka um skaðsemi örplasts fyrir fiska hafi vissulega verið mikilvæg þó hún sé kannski ekki lykilatriði í þessum fræðum. Þrátt fyrir efasemdir sé samt fullkomlega réttlætanlegt að banna notkun örplasts í snyrtivörum. 

Skylt efni: plastagnir | drykkjarvatn

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...