Trukka- og rútubílstjórar krefjast heiðarlegra flutninga í Evrópu
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Um 5.000 manns víða að úr Evrópu tóku þátt í mótmælum gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði (sosial dumping) fyrir utan þinghús ESB í Brussel í mars. Samtök norskra flutningafyrirtækja hafa gert kröfu um að ríkisstjórn landsins taki á málinu.
Þau félagslegu undirboð sem þarna var mótmælt eru stunduð með þeim hætti að fyrirtæki í flutningastarfsemi skrá starfsemi sína í láglaunalöndum t.d. í Austur- eða Suður-Evrópu. Allt er það löglegt samkvæmt ákvæðum EES-samnings um frjálst flæði vinnuafls og fjármagns milli landa. Þessi fyrirtæki fara síðan með sína bíla og láglaunuðu bílstjóra frá þessum löndum og halda uppi starfsemi í löndum eins og Noregi. Það keppa þau við norsk fyrirtæki í sömu grein verða að lúta norskum kjarasamningum þar sem bílstjórar eru á mun hærri launum. Þannig geta erlendu fyrirtækin hæglega undirboðið flutninga í Noregi sem getur valdið innlendum fyrirtækjum miklu tjóni og kostað bílstjóra vinnuna.
Er þetta jafnframt hluti af innleiðingum reglugerðarpakka vegna EES. Athygli vekur að rökstuðningurinn á bak við þær innleiðingar á þrem pökkum er efnislega nákvæmlega eins samansettur og rökstuðningurinn á bak við orkupakka 3.
Samtök 5 milljóna flutningaverkamanna mótmæla
Samtök norskra flutningafyrirtækja eru aðili að Samtökum evrópskra flutningaverkamanna (European Transport Workers’ Federation – ETF), sem er með yfir 5 milljónir félagsmanna í yfir 200 stéttarfélögum í 41 landi. Þessar stofnanir hafa skipulagt yfir 100 mótmælafundi í Evrópu undir slagorðunum „Fair Transport“ eða „heiðarlegir flutningar“. Náðu þessi mótmæli hámarki með fundi fyrir utan skrifstofur Evrópuþingsins þann 27. mars síðastliðinn.
Ástæðan fyrir herferðinni er gríðarlegur þrýstingur á samgöngumiðlun í Evrópu, bæði á landi, í sjó og í lofti. Verð, laun og vinnuskilyrði eru útfærð í löggjöf ESB og er hluti af regluverki EES um frjálst flæði vinnuafls milli aðildarlanda samningsins.
Félag evrópskra flutningaverkamanna, EFT, segir að greinin liggi nú undir árásum vegna óheiðarlegra viðskipta vegna félagslegra undirboða á vinnumarkaði í boði Evrópusambandsins. Afleiðingin sé sú að störf glatist, vinnuaðstæður versni, gerðir séu varhugaverðir samningar og laun lækki. EFT hvetur til þess að flutningaverkamenn í Evrópu sameinist gegn þessum viðskiptaháttum.
„Við krefjumst þess að vinnuveitendur og stjórnmálamenn gefi valdið eftir til greinarinnar til að skapa milljónir gæðastarfa í Evrópu. Það eru heiðarlegir flutningar.“
Eftir miklu að slægjast
Meira en 10 milljónir Evrópubúar vinna í samgöngugeiranum eða um 5% af heildar vinnuaflinu. Búist er við að farþegaflutningar muni aukast um 42% innan ESB-landanna til 2050 og um 60% í vöruflutningum samkvæmt frétt Alþjóðasamtaka um flutninga á vegum IRU. Það er því greinilega eftir miklu að slægjast fyrir fjárfesta á þessum vettvangi.
Þrír flutningapakkar frá ESB verða innleiddir í skrefum
IRU segir líka að þessar greinar séu mjög mikilvægar fyrir efnahag Evrópusambandsins. Þess vegna hafi framkvæmdastjórn ESB verið að setja saman flutningapakka (Mobility Package) sem innleiða á í þrennu lagi, pakki 1, 2 og 3. Þriðja flutningapakkanum er ætlað að ná stjórn á öllum atvinnuflutningum á vegakerfinu innan ESB-landanna. Segir IRU að í þessum innleiðingum felist mestu breytingar sem nokkru sinni hafa verið gerðar á reglum um flutninga á vegum í Evrópu. Er reglunum ætlað að samræma og einfalda regluverk á milli landa að sögn IRU.
Hættuleg skref
Samtök evrópskra flutningaverkamanna, EFT, segir að nýjustu ákvæðin í flutningapakka framkvæmdastjórnar ESB, sem kynntur var 31. maí 2018, þýði að atvinnurekendur muni fá meira frelsi til að stýra tímaáætlunum. Það hafi í för með sér lengri vinnutíma og styttri hvíldartíma en núverandi reglur gera ráð fyrir. Þetta skapi aukna hættu á vegunum og heilsu bílstjóra sé stefnt í voða. Það er þvert á fullyrðingar í rökum ESB fyrir innleiðingu pakkans sem segir að þetta sé gert til að draga úr dauðaslysum. Þar segir reyndar líka að þetta sé gert til að draga úr stjórnarkostnaði í flutningum um 20–27 milljarða evra á árunum 2018 til 2040.
Þá segir IRU að reglurnar vinni gegn því að sömu laun séu greidd fyrir sömu vinnu. Ástæðan er að heimilt er að láta alþjóðlega bílstjóra starfa tímabundið í einu landi á launum sem tíðkast í því landi sem fyrirtækið er skráð, óháð launakerfi í því landi sem starfað er í.
Innleiðing tveggja pakka í sigtinu
Samkvæmt frétt Bodøposten í Noregi vinnur ESB nú að innleiðingu tveggja stórra „pakka“ þar í landi sem munu hafa áhrif á vinnuskilyrði vörubifreiða- og rútubifreiðastjóra í Noregi. Þrýstingur frá Samtökum evrópskra flutningaverkamanna, ETF, er talinn hafa mikið að segja til að hafa áhrif á ESB í rétta átt, en enn er mikil óvissa um hver niðurstaðan verður. Mótmælin 27. mars voru talin mikilvæg til að gera ESB-þingmönnum grein fyrir þeim skuldbindingum sem á að leggja á samgöngugeirann.
Mikill þrýstingur frá fyrirtækjum
Leiðtogi Samtaka norskra flutningafyrirtækja, Jim Klungnes, er áhyggjufullur um framtíð norska samgöngugeirans og telur ríkisstjórnina þurfa að gera meira fyrir ökumenn.
„Bílstjórar hafa lengi upplifað mikinn þrýsting á að taka á sig verri vinnuskilyrði vegna þess að fyrirtæki beita félagslegum undirboðum til að tryggja sér samkeppnisforskot. Þetta er að gerast um alla Evrópu. Nú virðist sem þetta muni ganga yfir rútubílageirann líkt og flutningabílana. Ríkisstjórnin gerir of lítið til að ná stjórn á málunum og jafna samkeppnisskilyrði í greininni,“ segir Klungnes.
Tillögur ESB sagðar geta valdið margvíslegum skaða
Við frekari útfærslu á svonefndum flutningapakka 1, „Mobility Package 1“, hafa verið nokkrar tillögur á borðinu hjá ESB. Niðurstaðan af þeirri útfærslu mun hafa mikil áhrif á laun, vinnuskilyrði og jafnvægi milli vinnu og tómstunda fyrir ökumenn í Evrópu.
Í versta falli er búist við verulega versnandi vinnuskilyrðum í samgöngugeiranum. Það getur leitt til aukinna undirboða, minna öryggis í umferðinni, aukinnar glæpatíðni og versnandi samkeppnishæfni norskra flutningafyrirtækja og fækkunar starfa í greininni.
Með flutningapakka 2 (Mobility Package 2) vill framkvæmdastjórn ESB að regluverkið nái líka yfir allan rútubílaiðnaðinn – bæði á hraðleiðum og sérleiðum. Það opnar erlendum fyrirtækjum aðgang að markaði eins og í Noregi (og þess vegna á Íslandi) með varanlegum hætti. Í grundvallaratriðum fá erlend fyrirtæki þannig samkeppnisforskot á heimafyrirtækin. Þessi pakki var kynntur og gefinn út af framkvæmdastjórn ESB þann 8. nóvember 2017.
Þetta opnar fyrir að erlend fyrirtæki geti lagt fram tilboð í samkeppni við norsk og komið með starfsmenn sem eru skráðir erlendis og sem ekki er hægt að krefjast að undirgangist norska samninga. Norskir rútubílstjórar líkt og vöruflutningabílstjórar geta þurft að upplifa mikil félagsleg undirboð í kjölfarið. Búast má við að norski rútubílaiðnaðurinn verði um leið fyrir miklum áföllum, að því er segir í frétt Bodøposten. Þá á alveg eftir að ræða innleiðingu á flutningapakka númer þrjú.